Category Archives: Getraunir

Loksins að komast í frí.

Punktablogg þar sem ég nenni ekki að tengja þetta saman.

  • Skilaði inn verkefninu í Biometric systems í dag og er þar með búinn með alla áfanga. Nú á ég bara eftir að vinna á sunnudaginn og mánudaginn og þá er ég kominn í sumarfrí í tvo mánuði.
  • Luke, sá sem ég vinn með hefur það fyrir vana að skrifa á töfluna í skrifstofunni okkar ýmis kvót sem honum finnast fyndin. Núna stendur efst á töflunni okkar “Since the dawn of time man has dreamt of destroying the sun!”. Restin af töflunni er full af jöfnum, formúlum og algóriþmum. Fólk sem kemur í fyrsta sinn inná skrifstofuna okkar gæti alvarlega misskilið hvað verkefnið okkar gengur útá. (Smørrebrød í verðlaun fyrir þann sem þekkir kvótið).
  • Við fórum í fyrsta skipti til Svíþjóðar á mánudaginn, tókum lestina yfir Øresund til Malmø. Það var gaman. Besti parturinn var að í Svíþjóð eru Subway staðir sem við erum búin að sakna hérna á Danmörku. Ansi dýrt að fara til Svíþjóðar bara til að fá Subway reyndar…
  • Á forsíðunni á Urban í dag var fyrirsögnin “Nasista-barnaníðingur handtekinn fyrir að skipuleggja hryðjuverk!”. Þetta hlýtur nú bara að vera versti maður í heimi! Hvað gæti verið verra en nasista-barnaníðingur? Sem skipuleggur hryðjuverk í þokkabót!!
  • Ég hef gegnum tíðina reynt að fylgjast með helstu tækninýjungum, og nýtt mér margar þeirra s.s. veraldarvefinn og rafpóst. Núna nýlega skráði ég mig á vefsíðu sem ég hef heyrt að sé mjög vinsæl hjá ungdómnum og nefnist “Facebook” uppá ensku. Á þessari svokölluðu “Facebook” getið þið fundið mig á slóðinni http://www.facebook.com/profile.php?id=808179882 og addað mér ef þið þekkið mig og ég hef ekki nú þegar addað ykkur.
  • Venjan hjá Dönum sem eru að útskrifast með stúdentspróf er að leigja pallbíla fyrir hóp af fólki, standa svo öll á pöllunum með stúdentshúfurnar, keyra um bæinn og öskra og flauta á fólk. Bærinn var fullur af svona bílum í dag.
  • Atli frændi kom í heimsókn í dag og kom með osta og nammi frá Íslandi. Danir hafa ekki fattað hvað lakkrís með súkkulaði utanum er mikil snilld, ekkert þannig nammi fæst hérna sem er ömurlegt. Reyndar getur maður fengið 3-4 tegundir af íslensku nammi í Irma en það er eini staðurinn.

Spurt og svarað

Þessi síða hefur hingað til snúist aðallega um nokkra hluti: forritun, kvikmyndagetraunir, almennt nöldur og tuð og svo hefðbundar dagbókarfærslur (… í dag fór ég í Kringluna og keypti mat…) sem eru bara áhugaverðar fyrir örfáa aðila. Hinsvegar kemur reglulega fólk hingað inn sem hefur leitað að einhverju í Google eða öðrum leitarvélum og verið vísað hingað. Stundum finnur það sem það er að leita að, en oft er það að leita að einhverju sem þessi síða hefur engin svör við. Af þessu tilefni (og af því að mér leiðist hrikalega) hef ég ákveðið að taka nokkra af þeim leitarfrösum sem hafa lent hérna síðustu mánuði og svara þeim svo það geti e.t.v. hjálpað öðrum í framtíðinni.

graenmeti
Fylltu einn þriðja af diskinum með því.

Hvar getur maður fundið símanúmer
Í símaskránni, eða ja.is á netinu.

Læknavaktin (165 fyrirspurnir)
Ég er ekki hrifinn af henni.

Rúmteppi (37 fyrirspurnir)
Prófaðu að fara í IKEA og fá þér svo sænskar kjötbollur á eftir.

ironic
Hérna er skilgreining á hvað er ekki ironic.

danmörk dtu blogg, DTU danmörk blogg
Þú ert á réttum stað, kíktu á færslurnar sem eru merktar með taginu DTU.

ég veit þér finnst ég of feit, þú bauðst mér aldrei á deit
Greinilega Nylon aðdáandi, kíktu á þessa færslu fyrir fleiri dæmi um góða Nylon texta.

Ariston, Ísskápur (og afbrigði af því, 100 fyrirspurnir)
Okkar Ariston ísskápur hefur virkað vel, mæli með þeim. (Og greinilegt að planið mitt er að virka!).

februar
Öhh, annar mánuðurinn í árinu, 28 dagar nema á hlaupárum, þá eru þeir 29. Veit ekki hvað meira er hægt að segja um hann?

strcpy
Notaðu strncpy í staðinn til að sleppa við buffer overflow.

guðmundur og geirfinnur
Kíktu á http://mal214.googlepages.com/, þar er manneskja sem er með þetta allt á hreinu.

tennis orð
spaði, bolti, Boris Becker.

MSN bot
Kíktu á http://tech.einaregilsson.com/projects/windows-live-bot.

spiderman 12
Ekki komin út, nýjasta myndin er Spiderman 3, sem var frekar slöpp. Um leið og Spiderman varð svartur gat hann dansað! Dulinn rasismi!

welcome to the jungle þýðing
Samkvæmt þessari þýðingarvél er fyrsta versið svona:

Velkominn til the frumskógur Við got gaman ‘n’ leikur
Við got allt þú vilja
Hunang við vita the nafni
Við ert the fólk þessi geta finna
Hvað sem þú mega þörf
Ef þú got the peningar hunang
Við got þinn sjúkdómur

Sjá fulla þýðingu hér.

skírn heilræði, heilræði við skírn
Hafðu snuð við hendina ef barnið fer að gráta þegar það er skvett vatni á það. Hafðu líka aukableyju við hendina. Ekki skíra barnið Svarthöfði.

verg þjóðarframleiðsla, hvað er verg framleiðsla, verg, vergur óhreinn mengaður (21 fyrirspurn)
Ósk útskýrir það ágætlega í kommentunum við þessa færslu.

góð kvót
“Intet er så godt at det ikke er skidt for noget”

hvernig segir maður 80 á dönsku
firs

Fyndin kvót
“Necessary?? Is it neccessary for me to drink my own urine? Probably not. But I do it because it’s sterilized and I like the taste”. Mini kvikmyndagetraun, jolly cola í verðlaun.

“Ég bít ekki á ryðgaðan öngul”
Ég mæli með því að bíta alls ekki á neinn öngul. Jafnvel ryðfríir önglar geta valdið alvarlegum skaða í munnholi ef maður bítur í þá.

cybercity 2002 (3 fyrirspurnir)
Hér má finna umræðu um þennan glæsivef og afrit af honum.

kennitalan mín
Kíktu aftan á debetkortið þitt.

steinbitsburrito
Örn kokkur hjá TM Software getur gefið þér uppskrift af því.

þriggja blaðsíðna ritgerð
Hafðu fyrstu blaðsíðuna forsíðu, næstu efnisyfirlit og þá þriðju heimildaskrá, þá ætti þetta ekki að taka langan tíma.

klám, klám password, simpsons klám, hommaklám, gott klám (15 fyrirspurnir)
Nágranni okkar í Svarthömrum rekur síðuna klam.is (og er með bílinn sinn merktan henni í bak og fyrir). Prófaðu það. Veit reyndar ekki hvort þar er að finna gott Simpsons hommaklám (Smithers?) en það má a.m.k. athuga það. (Hver leitar annars að “gott klám”? “Ég vill ekki neitt drasl klám, ég vill bara gott klám! Alvöru leikstjórn og búningahönnun eru skilyrði!”).

tölvugrafík verkefni, verkefni opengl (5 fyrirspurnir)
Hér og hér eru mín verkefni, en kóðinn er ekki innifalinn, þú verður að skrifa hann sjálfur.

alda en wannes, alda belgíu
Kíktu á http://aldaegils.blogspot.com.

töff setningar
“Good luck at the bad timing awards”. Önnur mini kvikmyndagetraun, Haribo í verðlaun.

bubbi rapp, bubbi í rapp, bubbi nýtt rapp lag, bubbi rappa yo
Maður með svona skelfilegan sérstakan tónlistarsmekk hefði kannski gaman af þessu lagi.

matlock on dvd
Matlock varði alltaf bara saklaust fólk. Nema í einum þætti þá var skjólstæðingurinn sekur, og þá sýndi Matlock sjálfur fram á það í réttarsalnum. Ég held hann hafi aðeins misskilið hlutverk sitt sem lögfræðingur sakborningsins. En já, kíktu á Amazon.

skattkort danmörk
Mættu bara á næstu skattútibú með atvinnusamninginn þinn og þeir redda þessu á staðnum. Getur líka kíkt á skat.dk.

Ef fólk vill fá fleiri ráðleggingar eða svör við spurningum er velkomið að senda mér þær í pósti.

Íslensk kvikmyndagetraun

Kominn tími á nýja getraun. Best að hafa smá þema, þetta eru allt íslensk kvót. Þar sem enginn virðist nokkurntímann vitja vinningana úr þessum getraunum þá skulum við bara hafa gullkórónu og Ferrari í verðlaun.

  1. “Þungur hnífur!”
  2. “Ég bít ekki á ryðgaðan öngul.”
  3. “Þetta er Dodge Dart, fíflið þitt!”
  4. “Eina ástæðan fyrir að fólk býr hérna er að það fæddist hérna!”
  5. “Og þarna var ég ..með Baltasar Kormáki.. og Birgittu Haukdal… í Húð og Kyn…og þá kom Bergsveinn úr Sóldögg sagði: Hvar er Bob Dylan???”

Spurning 1-4 gefa 1 stig hver, en spurning 5 gefur 5 stig. Ég veit ekki sjálfur hvaðan þetta kvót er, en rakst á það á einhverri bloggsíðu um daginn og er viss um að ég hef heyrt það áður einhversstaðar!(Eða kannski er þetta ekki úr neinu og ég er bara að ruglast :))

Nördagetraun – úrslit

Jæja, það var fullt af svörum við getrauninni. Flestir voru með spurningu 2 rétta, svarið var að sjálfsögðu Ghostbusters en aðeins 3 voru með spurningu 1 rétta, það voru Lauga, Árni og Hrannar. Hrannar er reyndar dæmdur úr leik þar sem ég sagði honum svarið við spurningu 2 á Burger King þannig að Lauga og Árni eru sigurvegararnir og fá sitthvora tómu kókflöskuna. Hægt er að vitja vinningana á skrifstofutíma í Hlíðasmára 12.

Nördagetraun

Langt síðan ég hef verið með getraun hérna. Þessi er bara fyrir nördana tölvunarfræðingana sem lesa þessa síðu. Kvikmyndanörd ættu reyndar að geta svarað spurningu 2 þó þau viti ekkert um tölvur. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir þann sem svarar báðum spurningum rétt, eða tvær tómar kókflöskur sem eru á skrifborðinu mínu. Hægt er að nota flöskurnar undir vatn eða aðra vökva, eða skipta þeim fyrir væna fjárupphæð hjá endurvinnslustöðvum Sorpu. Vinningurinn er skattfrjáls. Svörin verða sýnileg í kommentakerfinu á mánudaginn kl. 16:00.

Q1: Singleton hönnunarmynstrið er stundum kallað “Highlander”. Af hverju?

Q2: Mozilla notar markup mál sem heitir xul til að skilgreina user interface. Namespace-ið fyrir xul er http://www.mozilla.org/keymaster/gatekeeper/there.is.only.xul. Einnig má geta þess að javascript debuggerinn í Mozilla heitir Venkman. Hvaða kvikmynd eru þessi nöfn reference í?

Gamalt sjónvarpsefni getraun – úrslit

Jæja, ekki var nú mikil þáttaka í getrauninni! Maður gæti næstum því haldið að fólk hefði ekki áhuga á 15 ára gömlum sjónvarpsþáttum! Árni fær rétt fyrir Matlock og Derrick, og ég verð að gefa honum rétt fyrir Samherjar líka því ég veit ekki sjálfur hvað þetta hét á íslensku, en Samherjar hljómar mjög mikið eins og þáttur á RÚV. Ósk var með þrífætlingana, Matlock og Centurions rétta, gef henni líka rétt fyrir Skálkar á skólabekk, aftur því það hljómar mjög eins og þáttur á RÚV. (Allir þessir þættir nema Centurions voru sýndir á RÚV, var ekki með stöð 2 þegar ég var lítill. Jamm, það voru erfiðir tímar…). Semsagt, Árni fær 3 stig og Ósk 4, Ósk er þarmeð sigurvegarinn og á inni dós af jólaöli.

Rétt svör eru:

  1. Tripods
  2. Parker Lewis Can’t Lose
  3. Matlock
  4. Jake and the Fatman
  5. Sledge Hammer
  6. Centurions
  7. Derrick

Gamalt sjónvarpsefni getraun

Jæja, þá er kominn tími á nýja getraun. Nenni ekki að hafa aðra kvikmyndagetraun þannig að í staðinn kemur nostalgíusjónvarpsþáttagetraun. (Gott scrabble orð!). Þetta eru semsagt myndir af 7 sjónvarpsþáttum sem ég horfði á þegar ég var yngri. Sá sem verður með flest nöfn rétt fær dós af jólaöli í vinning. Rétt svör verða birt kl. 12:00 á mánudaginn.

Þáttur nr. 1
Þáttur nr. 2
Þáttur nr. 3
Þáttur nr. 4
Þáttur nr. 5
Þáttur nr. 6

Kúkableyjur

“Mommy, I’ve got a present for you. I’ll give you a hint: it’s in my diaper and it’s not a toaster!”

Kúkableyja í verðlaun fyrir þann sem þekkir kvótið. Er núna búinn að skipta á u.þ.b. 5000 bleyjum þannig að er orðinn nokkuð sleipur í þessu. Allt gengur annars vel, fullt af fólki búið að koma í heimsókn, öllum líst mjög vel á strákinn. A.m.k. 5 manns búnir að segja að hann sé mjög “mannalegur”, hvað sem það nú þýðir. Eru ekki öll börn mannaleg? Ég efast a.m.k. um að fólk sé mikið að líkja þeim við aðrar dýrategundir (“Til hamingju með strákinn, hann er svakalega líkur hesti!”).

En aftur að kúkamálunum. Drengurinn er engan veginn ánægður þegar á að skipta á honum og öskrar úr sér lungun en jafnar sig um leið og hann er kominn í nýja bleyju. Hann er líka búinn að koma sér upp mjög öflugri leið við að pissa. Hún gengur útá að kúka fyrst, svo þegar hann er kominn á skiptiborðið og úr bleyjunni þá lætur hann rigna gulu yfir foreldra sína, skiptiborðið og allt annað í tveggja metra radíus. Sérstaklega er hann góður í að gera þetta rétt eftir að maður snýr sér frá þannig að hann nái sem bestri pissdreifingu áður en maður tekur eftir þessu og getur stokkið á hann með aðra bleyju. En hann er duglegur að drekka, og yfirleitt voða vær þannig að við erum bara mjög ánægð 🙂

Forrita með hjálm

Forritandi án hjálms.

Forritandi án hjálms. Ekki töff!

Forritandi með hjálm.

Forritandi með hjálm. Töff!

Forritandi með svarthöfðahjálm.

Forritandi með svarthöfðahjálm. Mest töff!!

Snilldarhelgi. Fórum í vísindaferð á föstudaginn í Landsteina-Streng. Síðast þegar við fórum þangað fyrir 2 árum sögðu þeir okkur frá því að þeir væru með forritara út um allan heim, meðal annars á einhverju átakasvæði í Kúveit þar sem þeir væru forritandi með hjálma. Ég og Bjarni erum búnir að tala oft síðan þá um hversu svalt það væri að fá að forrita með hjálm en því miður sögðu þeir okkur núna að það væru engir forritarar hjá þeim í Kúveit lengur. Finnur sagði samt að Libra væri alveg opið fyrir því að leyfa okkur að forrita með hjálma þannig að ekki er öll von úti enn.

Eftir vísó var svo partý í einhverjum sal í skeifunni þar sem var brjáluð kelling sem átti salinn, var skúrandi dansgólfið meðan fólk var að dansa og reif af manni glös og bjórdósir um leið og maður setti það niður eftir síðasta sopann.

Á laugardaginn var svo afmælispartý hjá Bjarna sem var mjög fínt, hitti meðal annars Eggert, gamlan skólafélaga sem er orðinn yfirkokkur á fínum veitingastað og er búinn að vinna sem kokkur í London og New York. Fórum síðan í bæinn, fór með Bjarna, Grím og Vigga á 11, Kaffibarinn og Sirkus (“What a shitty circus, there’s no animals or clowns!”, hver þekkir kvótið? ). Endaði svo á að fá mér Kebab með Hrannari áður en ég fór heim.

Eyddi síðan gærdeginum í leti. Svo var Skjár 1 að sýna Dirty Harry um kvöldið þannig að það var snilld. Vantaði einhverjar góðar sunnudagsmyndir síðan Rocky hætti, Bleiki pardusinn var ekki alveg að gera sig. Clint Eastwood er náttúrulega mesti töffari á jörðunni, jafnvel þó hann hafi verið í köflóttum jakka. Snilld!