Category Archives: Fjölskylda

Slökun

Fór með Karen í mæðraskoðun í dag. Ljósmóðirin lét okkur fá slökunargeisladisk til að hjálpa okkur að læra slökun fyrir fæðinguna. Ákváðum að tékka aðeins á honum á leiðinni uppí Libra og skelltum honum í geislaspilarann í bílnum. Hann var nokkurnvegin svona:


[Róleg og þægileg panflaututónlist byrjar]
...
...
[Mjöööög afslöppuð kvenmannsrödd byrjar að tala]
Það...                  ...er...           ...mjög...
...mikilvægt...            ...að læra...          ...að slaka...
  ..vel...           ...           ...á.           Byrjum...   
 ...á því...           ...að...           ...   
   ...          ...           ...               

[Hér vorum við hrædd um að grey konan hefði bara sofnað við að
þylja þetta upp, en neinei, hún var ennþá vakandi]
          ...setjast...           ...           ...niður.
 ...Síðan...  [Hér fór ég út að dæla bensíni á bílinn og missti
af svona 3 orðum]

  ...koma okkur...          ...              ...í... 
...þægilega...           ...stell- 

[Hér slökkti Karen á disknum þar sem hún hélt að ég væri að fara
að sofna á miðri Kringlumýrarbrautinni].

Byrjaði samt vel, ætlum að tékka betur á þessu við tækifæri, t.d. þegar maður er kominn heim og getur slakað betur á.

Nöfn

Eins og allir lesendur þessarar síðu (allir 3-4…) væntanlega vita eigum ég og Karen von á barni í sumar :). Næsta mánudag er svo sónar þar sem við fáum að vita kynið. Að vita kynið er gott því þá getur maður strax útilokað helminginn af öllum nöfnum. Reyndar erum við búin að pæla í nokkrum nöfnum og útiloka þau nú þegar:

  • Einar 2.0
  • Svarthöfði
  • Ástþór
  • Línus Gauti
  • Svarthöfði sem seinna nafn
  • Einar++
  • Java
  • Napóleon
  • R2D2

Kemur betur í ljós á mánudaginn, þá getum við útilokað miklu fleiri. Vorum annars í Eymundsson fyrir nokkrum vikum og sáum þar afmælisdagabók. Ákváðum að kíkja á 12. júní (áætlaður fæðingardagur) og lýsingin þar var einhvernveginn svona:

Þú ert mjög jákvæð manneskja. Þú ert svo rosalega jákvæð að stundum fer yfirþyrmandi jákvæðni þín í taugarnar á fólki. Gott starf fyrir þig væri t.d. einkaþjálfari.

Hmmmm. Ég efast stórlega um að mitt barn gæti orðið yfirþyrmandi jákvæður einkaþjálfari!! Sérstaklega þar sem ég er, ehemm, ekki yfirþyrmandi jákvæður og ansi langt frá því að vera einkaþjálfari! Þetta er held ég mesta andstæða við mig sem hægt væri að finna! Kíktum á 13. til öryggis til að sjá hvað gerðist ef þetta drægist aðeins:

Þú ert langt á undan þinni samtíð. Fólk notar oft orð einsog “brjálaður”, “hættulegur” og “sérstakur” til að lýsa þér.

Brjálæðingur eða yfirþyrmandi jákvæður einkaþjálfari? Stefnum definitely á brjálæðing!

Karen á afmæli

Karen á afmæli í dag og er 24. Allir að óska henni til hamingju 🙂

Er annars uppí skóla að gera vefþjónustuverkefnið ógurlega. Vefþjónustur virðast ganga 90% útá að böggast í stillingum í Windows þannig að það er gaman…

Mús

Fundum dauða, kramda mús í borðstofunni hjá okkur í gærkvöldi. Lúðvík kom með hana inn, skellti henni á gólfið og mjálmaði svo til að kalla á okkur og sýna okkur hvað hann hefði komið með. Maður sveltur ekki meðan maður á svona duglegan veiðikött!