Category Archives: Almennt

Karlmennska

Hmmmm, ég er einn heima og það er ekkert nema Bachelorette í sjónvarpinu. Ekki gott! Nú verð ég að gera eitthvað svakalega karlmannlegt á eftir til að bæta þetta upp, t.d. fá mér bjór, sparka í dekkin á bílnum mínum eða bora í vegg. Eina vandamálið er að ég á ekki bjór, Karen er á bílnum og borvélin er hjá pabba. Kannski ég fari og kýli nágrannann í öxlina eða fari í Húsasmiðjuna og kaupi mér hamar.

Jólafrí!!!

Loksins kominn í jólafrí, vefþjónustur búnar, gengu vel, bæði verkefnið og prófið. Hef aldrei verið svona þreyttur eftir annarverkefni! Bíllinn kominn á verkstæði þannig að á morgun get ég hætt að nota “#%$(%#”#$ strætó. Allt í góðu gengi 🙂

Þjóðfélagsumræða

Undanfarið hefur verið mikil umræða í fjölmiðlum um forsetakosningarnar í Úkraínu. Júsénkó, forsetaframbjóðandi stjórnarandstöðunnar tapaði kosningunum, en hinsvegar fékk hann ekki eðlilegan aðgang að fjölmiðlum meðan á kosningabaráttunni stóð, það virðist hafa verið eitrað fyrir honum og sennilega hefur kosningasvindl verið í gangi. Þetta er áhugavert mál og vekur upp margar flóknar spurningar um kosningar, lýðræði, siðferði og fjölmiðla. Hvernig er best hægt að tryggja að kosningar séu réttlátar? Hver eru hlutverk og skyldur fjölmiðla í lýðræðisríki? Sú spurning sem hefur verið mér efst í huga og valdið mér mestum heilabrotum síðustu daga er samt þessi: Hvor mundi vinna ef Superman og He-Man færu í slag? Þetta er erfið spurning sem er ekki með neitt eitt rétt svar. Superman getur náttúrulega flogið sem er ótvíræður kostur en hinsvegar verðum við að taka tillit til þess að He-Man er vopnaður, hann er með sverð! Það leiðir okkur svo að annarri spurningu: Af hverju fer Superman ekki bara og nær sér í vopn? Er þetta eitthvað karlmennskustolt í honum að vilja bara berjast með berum hnefunum? Ímyndið ykkur hversu öflugur Superman væri ef hann gæti flogið OG væri með skammbyssu og/eða riffil! Það væri rosalegt!

Meiri þjóðfélagsumræða síðar…

Icelandic candy

Fór með pakka sem á að fara til útlanda á pósthúsið áðan. Hann innihélt meðal annars harðfisk. Maður átti að skrifa nákvæma innihaldslýsingu á fylgiskjalið. Eh, hard fish? Dried fish? Konan á pósthúsinu sagði mér að skrifa bara “icelandic candy”. Ef fólkið í tollinum úti opnar þennan pakka á það örugglega eftir að halda að Íslendingar búi ennþá í snjóhúsum og séu eskimóar, eina nammið okkar sé harðfiskur!

skeinar@hotmail.com

Jæja, nú er Microsoft bara búið að de-activate-a Hotmail addressuna mína! Reyndi að signa mig inn í fyrsta skipti í svona 3 mánuði og þá kemur bara að ég sé ekki nógu duglegur við að signa mig inn og accountinn sé ekki lengur í gangi! Samt allt í lagi þar sem ég nota hann bara fyrir msn. Fékk mér þessa fallegu addressu, skeinar@hotmail.com þegar ég var 18 ára því addressan einar@hotmail.com var frátekin og ég vildi addressu sem ég gæti munað. Hætti síðan að nota hana því mér fannst hún ekki hljóma alveg nógu virðulega, t.d. á atvinnuumsóknum:

“…ég er samviskusamur, ábyrgðarfullur og duglegur.

Vinsamlegast sendið svar á skeinar@hotmail.com…

Bloggleti

Hef ekki verið duglegur að blogga undanfarið. Ástæðan er sú að ég hef verið í prófum og þegar maður er í prófum hefur maður eeeeeekkert að segja! Ég er ekki búinn að hugsa um annað síðustu 10 daga en fallaforritunarmál, ljósútreikninga, diffrun, heildun og núna stöðuvélar og Turing vélar. Ég kem heim eftir 10 tíma í skólanum, Karen spyr “hvað segirðu?” og ég segi “öööh, ég er búinn að læra að finna flatarmál milli tveggja ferla með heildun.” Ég er ekki samræðuhæfur!

En þetta endar allt á morgun, síðasta prófið, Stöðuvélar og Reiknanleiki. Hin prófin hafa öll gengið ágætlega og þetta gerir það vonandi líka. Svo er bara mánudagsdjamm og svo slappa af á þriðjudaginn. Á miðvikudaginn byrjar svo 3 vikna námskeið í vefþjónustum sem verður örugglega fínt 🙂

Er að hugsa um að bæta nokkrum fleiri kvótum við í quotes vinstra megin á síðunni. Ef einhver er með einhverjar góðar hugmyndir um fyndin kvót úr bíómyndum endilega skella því inní kommentakerfið.

Mús

Fundum dauða, kramda mús í borðstofunni hjá okkur í gærkvöldi. Lúðvík kom með hana inn, skellti henni á gólfið og mjálmaði svo til að kalla á okkur og sýna okkur hvað hann hefði komið með. Maður sveltur ekki meðan maður á svona duglegan veiðikött!

Jólafjör

Hmmm, völundarhúsið rústar víst ekki öllu hljóði eftir allt saman, bara wave hljóðinu í sound mixernum í windows, auðvelt að laga. Fór annars í Hagkaup í dag og þeir eru komnir með jólaskreytingar og jóladót útum allt. Meira en 2 mánuðir í jól. Þetta finnst mér mjög fínt, nú getur maður verið í jólaskapi 1/6 af árinu…

Óheppið fólk

Var að lesa einhvern umræðuþráð um atvinnu í tölvubransanum fyrir dálitlu síðan. Þar var einn atvinnurekandi sem sagði að þegar hann þyrfti að ráða í starf og það væru mjög margar umsóknir þá henti hann helmingnum af umsóknunum ólesnum í ruslið því hann vildi ekki ráða óheppið fólk í vinnu! Snilld!!