Category Archives: Almennt

Bensín

Sindri var að segja mér frá útvarpsþætti sem hann heyrði þar sem verið var að spyrja fólk hvort bensínhækkanirnar hefðu haft áhrif á það. Tvö snilldarsvör:

sp: Hefur hækkun á bensínverði haft einhver áhrif á þig?

snillingur #1: Nei, ég tek alltaf bara fyrir 1000.

sp: Hefur hækkun á bensínverði haft einhver áhrif á þig?

snillingur #2: Já þetta er náttúrulega hrikalega dýrt orðið.

sp: Dælirðu sjálfur eða læturðu dæla fyrir þig?

snillingur #2: Ég læt dæla fyrir mig, maður verður að láta þessa starfsmenn vinna fyrir kaupinu sínu.

Breytingar

Var að gera smá breytingar á síðunni, ef þið útlendingarnir í Belgíu, Bretlandi og Ástralíu lendið í vandræðum með að sjá íslenska stafi þá endilega látið mig vita.

Síðustu vikur

Hmmm, ansi langt síðan ég hef skrifað eitthvað hingað inn! Þetta gæti orðið ansi langt blogg þannig að ég hef það í 6 köflum og byrja á kafla 4.

Kafli 4: Nýtt hús

Við erum búin að kaupa okkur íbúð! Við erum búin að liggja yfir fasteignaauglýsinum á hverjum degi í marga mánuði. Á fimmtudaginn í þarsíðustu viku sáum við svo íbúð í Svarthömrum í Grafarvogi sem okkur leist mjög vel á. Hún er á annarri hæð, er ekki langt inní Grafarvogi, er 4ja herbergja (flestar sem við skoðuðum voru 3ja herbergja), er með suðursvalir, sérinngangi og er í fínu ástandi. Ekki spillir svo fyrir að íbúðin er bara tveim húsum frá Völu og Hjalta :). Við skoðuðum hana á sunnudeginum, gerðum tilboð á mánudeginum, eigandinn gerði gagntilboð og við skrifuðum undir endanlegt kauptilboð á þriðjudeginum. Svo fór eitthvað svona íbúðalánasjóðsferli í gang og við skrifuðum undir kaupsamninginn núna á mánudaginn. Við fáum hana sennilega afhenta 1. maí, en í seinasta lagi 7. maí.

Kafli 5: Sýklarnir gera árás

Á laugardaginn síðasta urðum við öll veik, ég, Karen og Daníel. Ég og Karen fengum gubbupest og Daníel fékk hita. Ég hélt ég væri orðinn hress á mánudaginn og fór uppí vinnu í hálftíma á fund en svo þurftum við að fara með Daníel til læknis því hitinn hjá honum var að rjúka svo mikið upp. Á mánudagskvöldið var ég aftur kominn með hita og er búinn að vera með hann + hausverk og beinverki síðan. Daníel er búinn að vera með háan hita en er laus við hann núna (sjúkrasögu Daníels má lesa í smáatriðum á síðunni hans). Þannig að það er bara búið að vera slappleiki, andvökunætur og hor í lítratali síðustu daga.

Kafli 6: Einar snýr aftur til vinnu

Þessi kafli byrjar vonandi á morgun! Er búinn að vera heima í 5 daga (fyrir utan að fara og skrifa undir kaupsamninginn) og er kominn með snert af cabin fever. Það er takmarkað hversu mikið af E! maður getur horft á í sjónvarpinu. Ég veit orðið óeðlilega mikið um einkalíf Jessicu Simpson. Ég horfði meira að segja á Heil og Sæl endursýnt á Skjá einum í morgun! Að komast aftur í vinnuna verður bara eins og að fara í frí!

Viðbrögð við bíóvísitölu



“Þessi bíóvísitala þín er drasl.”

“Þetta er það ömurlegasta sem ég hef séð!”

“… þú fokking ógeðslegi ófindni Búðingur!”

“…greinilegt að þú hefur ekki HUNDSVIT á bíómyndum…”

“Þú ættir að skammast þín fyrir þetta…”

“DONT JUDGE A BOOK BY ITS COVER ASSHOLE!”

“…þegar fólk er jafn heimskt og þú.”

“Þú ert fáviti drengur.”

“Vá hvað þú ert með lélegan bíómynda smekk…”

“Þú ert alveg yfirnáttúrulega heimsk manneskja, hversu heimskur getur einn maður verið?”

“…hversu mikilli sæmd vill einn maður hrinda frá sér í tilraun til þess að REYNA að vera fyndinn?” [Tilraun er skv. skilgreiningu að reyna eitthvað. Ég er semsagt að reyna að reyna að vera fyndinn. Vonandi tókst mér að reyna það. -Einar]

Ekki voru allir jafn hrifnir af bíóvísitölunni…

Mér sýnist samt að fólk hafi aðallega skipst í 3 flokka:

  1. Þeim sem fannst þetta fyndið. Voru sumir ósammála stigagjöfinni en voru a.m.k. ekki að taka þetta of alvarlega.
  2. Þeim sem fannst þetta ömurlegt og ég vera fáviti. Þetta var fólk sem var móðgað útaf einstökum atriðum eða sem fannst hugmyndin bara almennt glötuð. Tóku þetta mjög alvarlega!
  3. Þeir sem urðu sárir yfir þessu. Þetta finnst mér skrýtnasti hópurinn. Komment eins og:


    “Þú sem sagt getur talað fyrir allt fólk á landinu, hvað veist þú nema að einhverju fólki finnist eitthvað af þessu skemmtilegt.”

    “kannski finnst þér þetta en ekki öðru fóli”

    “það skiptir ekki máli hverjir leika í henni, hver leikstýrir eða skrifar handritið, hvort það er einhver leikari sem fer í taugarnar á ÞÉR þá eru aðrir sem fíla viðkomandi. Hvernig væri nú ef þú hugsaðir aðeins betur hvað þú ert að fara skrifa áður en þú “postar” því inn á bloggsíðuna”

    Þetta finnst mér skrýtnast af öllu. Maður má semsagt ekki skrifa það sem manni finnst af því að “kannski finnst öðrum þetta skemmtilegt”. Auðvitað er þetta bara mín skoðun, ekki skoðun allra í heiminum. Ég hefði haldið að fólk mundi fatta það, en nei, greinilega ekki. Hérna
    er smá hint um hvernig má þekkja í sundur hvað er bara mín skoðun og hvað er algildur sannleikur: Ef þið eruð að lesa færslu sem er skrifuð af mér, á minni bloggsíðu, með nafninu mínu undir, þá er það bara mín skoðun!

Og í lokin, uppáhalds kommentið mitt:

“Sem þíðir að þú ert ekki rosalega gáfaður og ég myndi bara hætta að blogga og hætta að tjá þig ef ég væri þú.NIÐUR MEÐ LÁGMENNINGU!! *kapla*”

Alltaf gaman þegar einhver er að segja manni að maður sé ekki gáfaður og endar svo kommentið á að skrifa *kapla*, það ber vott um himinháa greindarvísitölu. Já, við skulum öll kapla saman lófunum fyrir því hvað þetta var gott komment og hvað hann sagði mér vel til syndanna! *kapl* Hver veit, við gætum jafnvel staplað niður fótunum líka! *stapl*

[Athugið að það er bara mín skoðun að þetta hafi verið gott komment. Öðru fólki gæti þótt þetta komment vera lélegt, sæmilegt eða ágætt og þeirra skoðun á alveg jafn mikinn rétt á sér og mín. Þetta er allt afstætt. [Athugið að það er bara mín skoðun að þetta sé allt afstætt. Öðru fólki … o.s.fv.]]

Gæðablaðamennska

Var í 10-11 áðan. Sá þá á forsíðunni á DV strák sem ég kannaðist við einu sinni og fyrirsögn um að hann hefði verið laminn og legið rænulaus í götunni. Kíkti í blaðið og las greinina. Það var alveg rétt sem stóð framan á, hann hafði verið laminn, var meðvitundarlaus og lá í götunni… …FYRIR MÖRGUM ÁRUM!! Jamm, þá reyndist fréttin vera um hvaða götuhorn í Reykjavík væri hættulegast og flestir verið lamdir og hann var bara tekinn sem dæmi. Þetta er auðvitað snilldar blaðamennska, endurnýta bara fréttir ef það vantar eitthvað á forsíðu! Ég sé fyrir mér næst þegar vantar eitthvað á forsíðuna:

MANNSHVÖRF! TVEIR MENN TÝNDIR!

Og svo þegar les sjálfa fréttina þá byrjar hún á “2 menn, Guðmundur og Geirfinnur, hurfu fyrir 25 árum…”.

…jæjja…

Langt síðan ég hef skrifað eitthvað hérna inn. Svo núna ætla ég að skrifa eitthvað sniðugt:

…hmmmmmmm…..

…jæjja…

…Ok, ég hef ekkert að segja. Þið megið búast við næsta æsispennandi bloggi eftir 2-3 vikur.