Síðan ég flutti að heiman fyrir 7 árum hef ég reglulega þurft að fá lánaða borvél hjá pabba til að setja upp hillur o.þ.h. En í gær varð ég að manni: ég keypti mér mína eigin borvél! Fátt er karlmannlegra en að kaupa sér bor! Á karlmennskuskalanum frá 0 – 10 (þar sem 0 er að horfa á America’s Next Top Model og 10 er að veiða skógarbjörn með berum höndum) þá hljóta borvélarkaup að vera a.m.k. svona 8! Ég keypti borinn í gær, þegar ég vaknaði í morgun var ég kominn með 50% meira hár á bringuna! Í gær og í dag er ég svo búinn að hlaupa um alla íbúð og bora allt sem þarf að bora, sem ég er venjulega mjög latur við að gera. En að öllu gríni slepptu þá er tvennt við þessa borvél sem ég er mjög ánægður með:
- Hún er soldið eins og byssa
- Hún gefur frá sér mikinn og karlmannlegan hávaða
Annars er bara að styttast í að ég fari til Danmerkur. Við förum öll saman til Póllands 17. ágúst og verðum þar á hóteli í Varsjá. Ég fer síðan 24. ágúst til baka til Danmerkur en Karen og Daníel verða í Póllandi til 30 ágúst. Ég er búinn að fá herbergi á campus fyrstu önnina og er á biðlistum eftir stúdentaíbúðum eftir jól. Daníel og Karen koma svo til mín um áramótin. Ég var að klára að velja áfangana fyrir fyrstu önnina í gær og ég verð í fríi á föstudögum og byrja eftir hádegi á mánudögum þannig að það verður auðvelt að skjótast heim um helgar.
Ég er líka kominn með hlutastarf úti með skólanum, verð að vinna hjá Microsoft. Þeir eru víst með 900 manna starfstöð þarna. Fékk póst frá þeim snemma í sumar þar sem þeir báðu mig og nokkra aðra að sækja um, DTU hafði víst bent þeim á nokkra nemendur. Ég sendi þeim CV og letter of presentation og fór svo í mitt fyrsta símaviðtal ever, og á ensku í þokkabót. En það gekk allt vel og ég fékk starfið, verð að vinna þar svona 10-15 tíma á viku með náminu.
Hvað fleira? Fórum í útilegu síðust helgi og vorum næstum eina fólkið í tjaldi á svæðinu, allir í hjólhýsum eða tjaldvögnum á risajeppum. Einhverjir ofdekraðir krakkar komu upp að okkur og spurðu okkur:
“Eruð þið bara í tjaldi??? Er ykkur ekki kalt??? Eruð þið FÁTÆK???”
“Hefur mamma þín aldrei kennt þér að tala ekki við ókunnuga?”
Hefði ég átt að segja. Í staðinn sagði ég “uuhh, hérna, nei”, (jamm, ég er king of the comebacks!). Karen skrifar meira um þetta og fleiri sem komu að dást að tjaldinu okkar þarna.
Og þá held ég að ég sé búinn að segja frá flestu sem er búið að gerast undanfarið. Nema 2 vikna Búlgariuferðinni okkar. Kannski seinna.