Author Archives: einar

Er það afþví að ég er Íslendingur?

Ég er á fullu að leita að íbúðum hérna í Danmörku þar sem planið er að Karen og Daníel flytji hingað í janúar og það er talsvert erfitt ef við höfum enga íbúð til að flytja í. Eins gaman og það er að búa í hálfum gámi þá getur heil fjölskylda ekki búið þar 🙂 . En já, ég er búinn að senda fullt af emailum, hringja útum allan bæ og skoða nokkrar íbúðir. Í upphafi vorum við með kröfur um að íbúðin væri nú ekki of langt frá DTU og ekki of dýr. Núna hinsvegar viljum við bara finna einhverja íbúð sem er  ekki lengra  en klukkutíma í burtu.  Þegar maður skoðar litlar íbúðir í Danmörku sér maður oft mjööög lítil baðherbergi. Þegar ég fór til Ebbu og Hilmars voru þau t.d. með baðherbergi þar sem vaskurinn var inní sturtunni, maður dró bara sturtuhengi kringum svæðið og það var sturtan. En í fyrradag sá ég ennþá minna baðherbergi, og það í íbúð sem er leigð út á 7900 danskar, u.þ.b. 100.000 isk. Baðherbergið var 1 fermetri, það var klósett, vaskur alveg við klósettið og sturtuhaus á veggnum. Ef maður vildi fara í sturtu þyrfti maður grínlaust að sitja á klósettinu meðan maður væri að sprauta yfir sig. Jafnvel þó ég geti séð hvernig það gæti verið tímasparandi í vissum tilfellum þá er það frekar óspennandi. Sérstaklega með Daníel, ég sé mig fyrir mér sitjandi á klósetti, haldandi á Daníel og sprautandi vatni yfir okkur.

En já, svo hringdi ég í dag að tékka á einni íbúð sem ég sá á netinu. Tala aðeins við manninn (á ensku, já, danskan mín er ekki frábær, danir yfirleitt segja bara ha þegar ég reyni að tala dönsku) og hann spyr mig hvaðan ég sé. Ég segi að ég sé frá Íslandi og þá segir hann mér að hann vilji ekki leigja neinum útlendingum! Nei, vegna þess að ef það yrði nú eitthvað vesen þá yrði nú erfitt að ná í mig á Íslandi. Ég reyndi að segja honum að ég byggi í Danmörku, væri í skóla og svona, en nei, ekki séns. Hann var samt voða vingjarnlegur meðan hann sagði mér að hann vildi ekki leigja mér, var svona hálf afsakandi, en stóð alveg fastur á þessu. Í Danmörku er samt standard að borga 3 mánuði í deposit + 3 mánuði í fyrirframgreidda leigu þannig að hann væri með 6 * 7000 dkr, u.þ.b. hálfa milljón íslenskar frá mér áður en ég flytti einu sinni inn. En já, svona er þetta. Ég held áfram að leita og finn vonandi eitthvað fyrir 17. des

Danmörk – Dagur 99

Jim: Is it me or does it smell like updog in here?
Michael: What’s updog?
Jim: Nothin’ much, what’s up with you?

—-

Dwight Schrute: Second Life is not a game. It is a multi-user, virtual environment. It doesn’t have points, or scores, it doesn’t have winners or losers.
Jim Halpert: Oh it has losers.

—-

Nýjasti uppáhaldsþátturinn minn er The Office. Er búinn að horfa á alla þættina á síðustu vikum og þeir eru endalaus snilld. Þegar Alda kom í heimsókn fyrir nokkrum vikum þá skrifaði ég alla þættina fyrir hana og nú er hún líka búin að horfa á þá alla. Því miður er núna eitthvað verkfall hjá handritshöfundum í Hollywood þannig að það koma engir fleiri þættir í einhverjar vikur.
Annars er orðið ansi langt síðan ég hef skrifað hérna. Hvað hefur verið að gerast? Alda kom í heimsókn, það var stuð. Ég, Alda og Agla borðuðum öll saman heima hjá Öglu og kíktum síðan á McClutes, hverfisbarinn hjá henni. Fórum síðan á Laundromat Café daginn eftir að fá okkur brunch. Gaman að gera eitthvað öll saman systkinin, höfum aldrei áður verið öll saman í útlöndum.
Róbotakeppnin sem ég talaði um síðast var skemmtileg. Fyrsta þrautin var að gera bíl og taka smá kappakstur við hin liðin. Okkar bíll var mjög óstöðugur og keyrði gífurlega hægt þannig að við fengum engin stig þar. Næsta þraut var að keyra upp að 6 flöskum sem stóðu hlið við hlið og fella eina þeirra. Sú sem átti að fella var plastflaska, en hinar voru bjórflöskur. Maður gat notað skynjara til að skynja ljósið sem barst frá þeim, fatta hver var ljósust og fella hana. Það hinsvegar virkaði enganveginn hjá okkur, en fyrir tilviljun keyrði róbotinn okkar mjög skakkt og felldi plastflöskuna óvart og svo eina bjórflösku í leiðinni. En við fengum nokkur stig fyrir það þannig að við urðum ekki í síðasta sæti. Lokaþrautin var svo að rata gegnum völundarhús, sem okkur tókst ekki. Þannig að á endanum urðum við í 9. sæti af 12.
Síðan er þetta bara búið að vera sama rútínan hérna, læra, vinna, tala við Karen og Daníel á Skype. Fór reyndar heim eina helgi líka sem var gott. Öll verkefnin eru á fullu núna þannig að það er brjálað að gera.
Er ennþá að leita að íbúðum á fullu. Er að fara að skoða 3 á næstu dögum, eina rándýra sem er tiltölulega nálægt DTU og svo 2 ódýrar sem eru klukkutíma í burtu. Síðan er ég líka á einhverjum kollegie biðlistum þannig að spurning hvernig fer með það. Mesta hreyfingin á þeim er nú samt sennilega milli anna og kannski vafasamt að bíða það lengi. Við sjáumt til hvað gerist. Svo kem ég heim 17. des og verð framyfir jól.

Danmörk – Dagur 77

Hvað er að gerast í Danmörku? Síðasta sunnudag elduðu Bruno, Matteus og Francielle brasilískan mat fyrir alla í gámnum. Þetta er víst einhver réttur sem er yfirleitt borðaður á mánudögum í Brasilíu. Það var stór diskur af kartöflumús með smá kjöthakki ofaná, svo var fullt af hrísgrjónum og svo var einhver baunaréttur úr svörtum baunum og einhverju fleiru. Þetta var ágætt, gaman að prófa eitthvað nýtt. Ég splæsti í kók og bjór svona til að leggja eitthvað af mörkum.

Ég var áður búinn að tala um að það ætti að vera keppni milli forritana sem við gerðum í Computational Hard Problems. Við fengum að vita úrslitin síðasta þriðjudag og minn hópur var í 3. sæti. Maður fékk stig fyrir hraða og hversu góð lausnin var sem forritið fann og svo fékk maður bónusstig ef bæði hraðinn og lausnin var góð, svo maður gerði nú ekki bara hraða lausn sem væri krapp. Allavegana, við fengum flösku af rauðvíni í verðlaun, 2005 árgerð af Valpolicella Ripasso, hvað sem það nú er. Ég drekk ekki rauðvín en það er alltaf gaman að vinna :). [Extra nördaupplýsingar: Við hefðum ekki lent í 3ja sæti nema af því að við endurskrifuðum forritið í C++ fyrir keppnina, upphaflega útgáfan í C# tók 12 sekúndur, C++ útgáfan tók 6 sekúndur.]

Núna er ég hinsvegar að horfa á kennsluefni í LEGO Mindstorms, þar sem að á morgun er ég, Eduarda, Tiberiu og Nuno að taka þátt í keppni þar sem maður byggir róbóta. LEGO Mindstorm NXT er eitthvað svona system þar sem maður hefur fullt af kubbum, nokkra skynjara og mótora og svo getur maður smíðað vélmenni og forritað það til að leysa allskonar verkefni. Ég hef aldrei snert á þessu áður, og enginn annar úr hópnum mínum heldur þannig að þetta verður áhugavert. Þetta er í 7 klukkutíma, frá 1-8 á morgun og verður örugglega stuð. Ég hef smá áhyggjur af því að róbótinn gæti orðið self-aware og gert uppreisn gegn sköpurum sínum en að öðru leyti líst mér vel á þetta.

Annað kvöld kemur svo Alda til Danmerkur þannig að ég, hún og Agla verðum örugglega að gera eitthvað skemmtilegt um helgina. Við höfum aldrei áður verið öll 3 systkinin saman í útlöndum. Og, já, þetta er það helsta sem er að frétta af mér.

Jólabjór

Sit í vinnunni með bjór í annarri hendi og snakk í hinni. Var að koma úr kaffiteríunni þar sem stelpur í jólasveinabúningum löbbuðu um og gáfu fólki Tuborg julebryg. Í dag eða gær er semsagt dagurinn þegar jólabjórinn kemur í búðir og af því tilefni fáum við þetta í dag. Stuð 🙂

Danmörk – Dagur 70

Lífið gengur sinn vanagang hérna í Danmörku. Íbúðarleitin er í fullum gangi, er skráður á tveim vefsíðum og er sífellt að senda út pósta útaf íbúðum. Búinn að skoða eina sem var fín en of langt í burtu og fer að skoða 2 vænlegar á sunnudaginn. Fór í dag í einhverja reception fyrir þau fyrirtæki sem eru að sponsora stúdenta frá DTU, það voru kennarar, stúdentar og fulltrúar fyrirtækjanna þarna. Komst að því að þetta er mjög misjafnt milli fyrirtækja, hjá Microsoft er þetta hlutavinna en hjá sumum öðrum, t.d. hjá einhverju heyrnartækjafyrirtæki er þetta bara styrkur. Þekki þýskan strák hérna sem er sponsoraður af þeim, fær bara pening, þarf ekkert að vinna. Hljómar vel :). Móttakan var annars fín, fékk snittur og bjór og spjallaði heilmikið við einhverja konu frá Microsoft og yfirmann tölvunarfræðideildarinnar hérna í DTU.

Er annars búinn að vera að vinna frekar mikið undanfarið. Fór í hádegismat í Microsoft á miðvikudaginn með 3 öðrum íslendingum sem vinna þar. Þeir hittast alltaf hálfsmánaðarlega í mat og buðu mér með í þetta sinn. Sögðust vera fegnir að fá annan íslending, þeim er búið að fækka undanfarið, voru víst 5 eða 6 þarna þegar mest var. Svo var einhver SQL Server gaur frá bandaríkjunum í heimsókn þarna og hélt 2 tíma fyrirlestur um SQL Server 2008 í matsalnum eftir hádegi þannig að ég fór á það, mjög fínt bara. Allt fullt af Halloween skreytingum í matsalnum, kóngulóarvefir og grasker útum allt.

Svo er allt á fullu núna í öllum áföngum, verkefnin hrúgast upp, flest hópverkefni. Sem betur fer er ég í fínum hópum í öllum áföngum. Dæmatímakennarinn kom með kökur handa okkur í Computational Hard Problems á þriðjudaginn. Hann hafði lofað í vikunni áður að ef einhver gæti leyst ákveðið vandamál með því að breyta því í Sudoku þá myndi hann koma með kökur handa okkur, og einhver snillingurinn gerði það þannig að kennarinn þurfti að standa við loforðið. Svo í framhaldi af verkefni sem var í sama áfanga var ákveðið að hafa smá keppni, þar sem forritin okkar keppa og fá stig fyrir hraða + góðar lausnir, og það verða víst verðlaun fyrir 3 efstu sætin. Verður gaman að sjá hvað kemur útúr því.

Næsta Íslandsferð er svo 15 – 19 nóv og kem svo heim í jólafrí kringum 17. des.

XKCD

[Nördablogg]
Rakst fyrir nokkrum vikum á teiknimyndasögu á netinu sem heitir XKCD. Þetta er sú allra mesta nördateiknimyndasaga sem ég hef nokkru sinni séð! Og mér finnst hún ekkert smá fyndin 🙂 Sumt er bara svona almennt, t.d. Long walks on the beach, Shopping Teams, Insomnia, margt hinsvegar meikar engan sens nema maður sé forritari/tölvunörd. Nokkur dæmi:
Bobby Tables
Goto
Compiling
Sweet ass-car
Sudo Sandwich
Centrifugal Bond
Map of Internet
Regular Expressions

Og síðan er fullt, svona 50 % sem er ótrúlega súrt og margt ekki neitt fyndið. En já, þetta er búið að taka við sem uppáhaldsteiknimyndasagan mín í staðinn fyrir Wulff-Morgenthaler.

Danmörk – Dagur 62

Jæja, er ekki komið tími á eitt stórt blogg? Ég var á Íslandi í síðustu viku, þar sem ég var í haustfríi í skólanum. Kom heim á laugardegi og fór á sunnudeginum viku seinna. Mjög gott að komast heim, hitta fjölskylduna og slappa aðeins af. Sé þvílíkar framfarir hjá Daníel, hann er farinn að tala miklu meira, farinn að segja flóknari hluti og það sem er best, hann er farinn að syngja á fullu! Gulur, rauður, grænn og blár, Dansi dansi dúkkan mín, Á leikskóla er gaman og fleiri lög sungin af miklum krafti. Annars tókum við það bara rólega, við urðum reyndar öll veik, samt aðallega Daníel. Það virðist gerast í hvert skipti sem ég kem heim, ég hlýt að vera að koma með einhverja danskar veirur með mér heim. Daníel fór svo í pössun til afa og ömmu á föstudeginum og ég og Karen kíktum í bíó á myndina Stardust, sem var bara nokkuð fín (Alda, þú ættir að sjá hana, mundir eflaust dýrka hana!). Svo tókst mér að gleyma skólabók, peysu, inniskóm og fleiru heima á Íslandi þegar ég fór til baka, sterkur leikur það.

Kom heim til Danmerkur á sunnudagskvöldið. Fór að spjalla við einhvern írskan strák meðan ég var að bíða eftir lestinni á Kastrup. Hann var semsagt chemical engineer (þó hann liti út fyrir að vera svona tvítugur!) og var sendur til Danmerkur af fyrirtækinu sínu til að vinna að einhverju projecti og var búinn að vera þarna í 4 mánuði. Hann hélt að Ísland væri ennþá partur af Danmörku! Fyndið hvað fólk veit lítið um Ísland, ég veit miklu meira um Írland og hin afríkuríkin heldur en hann vissi um Ísland!

Áður en ég fór til Íslands í fríið var búið að kríta á eldhús og baðherbergishurðina “Eldhús” og “Klósett” á sex mismunandi tungumálum. Þegar ég kom heim sá ég að það var líka búið að kríta gælunöfn utan á herbergishurðirnar. “Daddy” stóð utan á minni, hjá Giaullime stóð “Le Chef”, Sebastian var “Le Sous Chef”, Eduarda var “The Grandmother” (2 árum eldri en ég), Bruno var “Pizza Boy” (vinnur hjá Dominos), Xavier var “Mumbler” (talar mjög óskýrt) og Tiberiu var “Ratatouille” (hann eldar mjög skrýtinn mat). Julie var ekki með neitt og ég man ekki hvað Matteus var með. Annars fengum við líka nýjan herbergisfélaga í gær, spænskan strák sem heitir Jorge.

Er svo bara búinn að vera að vinna á fullu í Microsoft í þessari viku til að bæta upp frívikuna. Erum komnir með nýtt verkefni sem er nokkuð spennandi. Á mánudaginn var svo “all hands meeting” þar sem allir starfsmennirnir komu saman og einhver bigshot frá Bandaríkjunum hélt smá fyrirlestur og allir fengu gefins gríðarlega fallega bláa húfu með Microsoft Dynamics merki framan á. Það er alltaf gott að hafa nafnið á því sem maður vinnur við framan á enninu á sér svo maður gleymi því nú örugglega ekki. Einn af hinum student workerunum benti mér svo á annan Íslending sem er að vinna þarna og ég spjallaði aðeins við hann. Það eru víst 3 íslendingar þarna í fullu starfi og þeir hittast alltaf í hádegismat á miðvikudögum þannig að kannski lít ég við hjá þeim við tækifæri.

Er annars að fara að sofa. Aftur orðinn veikur með hressilegt kvef og eins gott að fara ekki of seint í háttinn.

Danmörk – Dagur 44

Í gær var afmælisveisla hérna í gámi C. Bæði Sebastian og Tiberiu voru að verða 23 ára, Tiberiu síðasta miðvikudag og Sebastian á morgun svo þeir héldu saman afmælisveislu. Það voru pylsur í einhverju deigi í forrétt, svo spagettíréttur í aðalrétt og tvær kökur í eftirrétt, súkkulaði og epla. Við vorum líka búin að kaupa kassa af bjór. Sebastian og Tiberiu elduðu aðalréttinn, Giaullime og Julie gerðu kökurnar og ég og Xavier skárum niður og vöskuðum upp og svona eitthvað smálegt. Ég keypti ódýrt pókersett í Søstrene Grene um daginn og eftir matinn spiluðum við svo póker frameftir kvöldi og drukkum nokkra bjóra. Ekkert fyllerí, bara hyggeligt 🙂 . Það eru nokkrar myndir neðst í þessu bloggi af veislunni.

Í dag fór ég svo niðrí Kaupmannahöfn í verslunarleiðangur að kaupa föt á Daníel í H & M. Maður heyrir nú alltaf öðru hvoru íslensku í Kaupmannahöfn en að fara inní H & M er bara eins og að koma til Íslands! Það er bara annar hver maður þarna inni íslenskur! Eftir að vera búinn að kaupa fullt af fötum fór ég út, hringdi í Öglu, sem flutti hingað á þriðjudaginn og tékkaði á hvað hún væri að gera. Hún var rétt hjá, í Købmagergade, svo ég fór og hitti hana og við fengum okkur einn bjór á kaffihúsi áður en ég fór heim.

Ég er annars að reyna að taka mig á í dönskunni. Í Campus village er bara enska, í Microsoft er bara enska og í skólanum er bara enska svo ég hef ekki haft mörg tækifæri til að tala dönsku. Ég keypti Pusher trílógíuna á DVD um daginn og er búinn að horfa á þær á dönsku með dönskum texta, sem er fínt. Svo er ég líka búinn að ákveða að reyna alltaf að tala dönsku þegar ég hef tækifæri til, og skipta bara yfir í ensku ef það er alveg nauðsynlegt. Helstu afrek mín á dönskusviðinu í dag:

  • Í DSB sagði ég “jeg skal have en klippekort til to zoner, og en til fem zoner. Og, eh, to… plastik…”. Og svo veifaði ég höndunum í kringum klippikortið til að sýna manninum að ég vildi plastvasa utan um kortið. Það skildist.
  • Í bakaríi í Kaupmannahöfn sagði ég “jeg skal have en kaffe med mælk, og en chokolade muffin.” Það skildist og ég fékk meira að segja hrós fyrir dönskuna mína! Eða ég held það. Stelpan brosti a.m.k. og sagði “eitthvaðeitthvað-dansk-eitthvaðeitthvað”. [Eða /.*dansk.*/ fyrir nördana]. Ég kýs að túlka það þannig að hún hafi verið að hrósa mér fyrir dönskuna.
  • Í H & M þurfti ég að spyrja hvort þau ættu samfellur nr. 92. Ég byrjaði á að segja “unskyld, har du nogle…” og svo fattaði ég að kunni ekkert orð fyrir samfellu, hvorki á ensku né dönsku, og að ég vissi ekki hvernig maður segir 90 á dönsku, hæsta sem ég kann er firs. Svo ég panikkaði, benti á nærbol sem var nálægur og reyndi síðan að útskýra með samblandi af ensku, dönsku og handahreyfingum að mig vantaði eitthvað sem var eins og nærbolur nema hneppt saman í klofinu. (Note to self: Ekki reyna að útskýra neitt sem tengist klofi með handahreyfingum nokkurn tímann framar). Afgreiðslustelpan fattaði sem betur fer að ég var ekki að áreita hana heldur bara leita að samfellu nr. 92 og sagði mér að þau ættu ekkert stærra en 86.

Annars kem ég heim næsta laugardag og verð í viku.

Tiberiu og Eduarda að skera sveppi. Tiberiu er frá Rúmeniu og Eduarda frá Portúgal.

Giaullime, Sebastian, Matteus, Eduarda og Tiberiu. Giaullime og Sebastian frá Frakklandi, Matteus frá Brasilíu.

Eduarda, Julie og Giaullime. Julie er líka frá Frakklandi og var með Giaullime í skóla þar.

Xavier og ég, í óþægilega líkum fötum. Xavier er frá Belgíu.

Tiberiu að nota mjög vafasama aðferð til að opna bjórflösku.

Matteus, Xavier, Tiberiu og Julie að borða forrétt.

Matteus að borða sveppina sem Tiberiu bjó til.

Eduarda að sýna kjötið. Þessar myndir koma frá Matteusi og hann vildi geta sýnt mömmu sinni í Brasilíu að hann væri nú að borða almennilega.

Afmælisbörnin, Tiberiu og Sebastian, blása á kertin.

Danmörk – Dagur 39

Punktablogg í þetta skiptið.

  • Prófaði DTU special pizzu á pizzastaðnum sem er á campusnum. Hún átti að vera með kebab skv. lýsingunni. Það þýddi ekki bara kjötið, heldur var eins og einhver hefði hellt úr heilli salatskál yfir alla pizzuna. Mæli ekki með því.
  • Fór í mat til Ebbu og Hilmars á föstudaginn. Þar voru líka Lára og Ómar og svo kom annað íslenskt par sem býr í húsinu líka. Fórum að djamma á einhverjum klúbb sem ég man ekki hvað heitir. Það var stuð. Skrýtið samt að djamma með Láru og Ebbu án þess að Karen væri með.
  • Var uppí Microsoft í morgun, skoðandi villu sem hafði komið upp og skrifandi test til að kalla hana fram. Þá krassaði Visual Studio hjá mér og spurði mig “Do you want to send an error report to Microsoft?”. Ég smellti á No.
  • Fer á kynningardag fyrir nýja starfsmenn á miðvikudaginn, það er eitthvað heilsdagsprógram. Þá er akkúrat mánuður síðan ég byrjaði að vinna.
  • Extra bladet er með slagorðið “Tør, hvor andre tiger”. Alveg eins og DV var áður með, “þorir þegar aðrir þegja”. Væntanlega hafa DV tekið það héðan.
  • Annað borðið úr eldhúsinu í gámnum okkar er horfið. Grunur leikur á að aðrir gámabúar hafi tekið það til að nota í gámapartýi.
  • Ég hef fengið það starf að vera þýðandi í gámnum mínum. Er sífellt að þýða matarumbúðir, bréf og fleira yfir á ensku fyrir hina íbúana. Sebastian sagðist um daginn vilja skoða danska klámsíðu, spurði hvort ég gæti hjálpað honum. Ég sagði honum að hjálpa sér sjálfur.
  • Eftir að tala við Hilmar komst ég að því að það er ekki mistök að danska CPR númerið mitt er ekki sama og íslenska kennitalan mín. Hélt að það væru mistök því bara næstsíðasta talan er öðruvísi, en þá eru þeir bara með eins kerfi, og bara tilviljun að stafir 7 og 8 eru þeir sömu og í íslensku kennitölunni minni. Getur samt ekki verið alveg eins kerfi því vartalan er öðruvísi. [Er búinn að forrita vartölutékk a.m.k. 5 sinnum, ég pæli í þessum hlutum… 🙂 ]

Danmörk – Dagur 33

Það er eins og venjulega, þegar lífið er komið í rútínu þá nennir maður ekki að blogga því það er ekki frá miklu að segja. Dagarnir hjá mér eru yfirleitt skóli + læra heima eða vinna hjá microsoft, tala svo við Karen og Daníel gegnum Skype á kvöldin. Helgar fara í að læra og kíkja stundum til Kaupmannahafnar. Á þriðjudagskvöldum er svo international night á kjallarabarnum hérna á campusnum. Og þá er það helsta upptalið sem ég geri hérna 🙂

Annars eru bankamálin hjá mér loksins komin í lag. Í fyrsta blogginu héðan frá Danmörku talaði ég um bankakonuna sem vildi endilega tala dönsku við mig. Hún var mjög indæl en virðist ekki vera skarpasta tólið í skúrnum þar sem henni tókst að klúðra umsókninni minni ekki bara einu sinni, heldur tvisvar. Þegar ég fór þarna upphaflega fyllti ég út umsókn og hún sagði mér að eftir nokkra daga mundi ég fá sendan heim risastóran bunka af pappírum og þyrfti svo að sækja sérstaklega um að fá kort á reikninginn eftir að ég fengi þessa pappíra. Ég beið í 10 daga og ekkert gerðist. Þá fór ég aftur og lenti á sömu konu og spurði hvað væri að gerast. Hún sagði bara “hmmm, skrýtið, ég sé ekkert lengur um þetta hérna”. Svo fyllti hún eitthvað aftur út, skrifaði reikningsnúmerið mitt á pappírssnepil og rétti mér og sagði aftur að pappírarnir kæmu eftir nokkra daga. 12 dögum eftir það kom ég enn einu sinni, ekki ennþá búinn að fá neitt og var orðinn grjótfúll. Þá lenti ég á annarri konu sem bæði talaði ensku og vissi hvað hún væri að gera. Hún byrjaði á að tékka á reikningsnúmerinu mínu, sem kom í ljós að var bara alls ekki til (og ég var búinn að láta Microsoft fá það). Þá sagði hún mér bara að við myndum redda þessu, skráði nýjan reikning á nokkrum sekúndum, lét mig fá útprentað blað með reikningsnúmerinu mínu og sagði að ég fengi sent kort í pósti. Ekkert mál, ekkert vesen. Og nú er ég búinn að fá kortið. Maður verður sem sagt að vera með Dankort hérna þar sem Danir eru með eitthvað þroskaheft mjög sérstakt kerfi hérna þar sem þeir taka bara við dönskum kortum í mörgum sjoppum.

Annars er svosem lítið að frétta. Ég kem heim í haustfrí 13 október og verð í rúma viku, það verður gaman. Læt fylgja hérna með myndir af gámnum mínum:

Campus Village þar sem ég bý

Campus Village

Gámurinn minn, Container C

Gámurinn minn, Container C

Herbergið mitt

Herbergi 1

Herbergið mitt 2

Herbergi 2