Author Archives: einar

Ariston ísskápur

Í þessu bloggi talaði ég um að a.m.k. 3 hefðu komið inná síðuna mína frá google þar sem þeir hefðu verið að leita að orðinu ísskápur og ég var að pæla í hvort ég gæti fengið fleiri ef ég skrifaði ísskápur oftar. Nú prófaði ég að slá inn Ariston ísskápur inní Google og ég er fyrsta niðurstaðan! Og ekki bara fyrsta, heldur líka númer 6 og 7! Nú sé ég framá að geta bara fengið Ariston til að sponsora mig, sett risastóran auglýsingalink til Ariston á síðuna mína, grætt fullt af auglýsingapeningum og hætt að vinna. Spurning hvort maður ætti að skrifa inn fleiri orð til að lokka fólk hérna inn?

Í öðrum ótengdum fréttum má geta þess að ég og Karen vorum að kaupa okkur nýja Electrolux eldavél. Þessi Electrolux eldavél er mjög fín, með keramikhelluborði og öllu. Electrolux eldavélin er búin að reynast vel fyrstu dagana og við treystum á að Electrolux eldavélin haldi áfram að reynast vel!

Jólahlaðborð

Við fórum á jólahlaðborð Libra í gær. Fyrst var fordrykkur heima hjá Þórði og svo var farið á Thorvaldssen þar sem við vorum í sér sal og fengum önd, lambakjöt og einhvern íseftirrétt. Fínn matur og mikið fjör.

Það sem var svo mesta snilldin var jólapakkaleikurinn ógurlegi, Yankee swap. Þetta er leikur sem gengur útá að allir koma með ómerktan pakka, eitthvað sem kostar svona 2000-2500 kr. Svo eru númer frá 1 – n og allir draga númer. Sá sem fær númerið 1 fær fyrstur að velja sér pakka og opnar hann fyrir framan alla hina. Svo kemur sá sem fékk númerið 2 en hann má annaðhvort velja sér pakka eða stela gjöfinni af númer 1. Ef hann stelur þá verður nr. 1 að velja aðra gjöf úr hrúgunni. Svo gengur þetta svona koll af kolli og þegar komið er að þeim síðasta getur hann valið síðasta pakkann eða stolið af hverjum sem er. Þetta var mikið stuð, fyrstu nokkrir völdu pakka, svo kom að okkur og þá stal ég kassa með 2 bjórum og Mugison disk frá Þóri en seinna stal Óli því aftur af okkur. Enduðum uppi með kaffisett, sem var með 2 bollum, undirskálum og kaffipakka, mjög fínt bara. Hrannar fékk viðbjóðslega ljótan fiskiplatta sem gekk víst í 5 ár milli manna í vinnunni hjá Jared sem kynnti okkur fyrir þessum leik, Finnur stal startköplum af framkvæmdastjóranum og bjórarnir sem Óli stal af mér voru teknir af honum því það mátti ekki opna þá inná Thorvaldssen, hah!

Vatn

Tip: Ef þið eruð einhverntímann með krana inní eldhúsi og stúturinn (eða hálsinn eða hvað þetta heitir, stóra bogalagaða rörið ) dettur af meðan vatnið er á fullu, þá er sniðugt að skrúfa bara strax fyrir vatnið þannig að það haldi ekki áfram að sprautast út. Það sem er ekki jafn sniðugt er að reyna að troða stútnum aftur á meðan vatnið er ennþá að sprautast uppí loftið. Það getur orðið til þess að vatnið fari að sprautast til hliðar og útum allt eldhús…

Godfather með hálsbólgu

Það eina sem er gott við hálsbólgu er að núna tala ég eins og the Godfather! Það er að sjálfsögðu ekkert nema svalt! Nú þarf ég að fara að gera fólki tilboð sem það getur ekki hafnað 🙂

(Karen reyndar heldur því fram að ég hljómi eins og ég sé í mútum. Það er náttúrulega bara rugl!)

Hálsbólga

Er með hálsbólgu. Fékk mér heitt te fyrir hálsinn. Það lítur út eins og hland! Nákvæmlega eins og hland! Það er eins og ég sé með þvagprufu í bolla hérna á borðinu mínu!

Hálsbólga er líka krapp veikindi! Ef maður er með magapínu getur maður a.m.k. nýtt það sem afsökun til að drekka fullt af kóki, því það var upprunalega ætlað sem magameðal. Ef maður er með hálsbólgu þá getur maður bara fengið Strepsils, sem eru ógeðslega vondir brjóstsykrar. Ég vildi að það væri eitthvað gott nammi eða gos sem hefði upprunalega verið ætlað sem hálsbólgumeðal!

Íþróttaálfur

Ég hef nú oft vælt um það að ég þurfi að fara að stunda íþróttir en lítið hefur gerst í þeim málum. Núna hinsvegar er ég búinn að stunda íþrótt á hverjum virkum degi í meira en mánuð, bæði fyrir og eftir hádegi! Þessi göfuga íþrótt er að sjálfsögðu pílukast! Á hverjum degi tek ég einn leik við Hrannar fyrir hádegi og einn eftir hádegi. Þetta er reyndar spes leikur sem gengur útá að hitta þrisvar í 18, 19 og 20 og tekur svona tæpar 10 mín, við erum ekki að taka alvöru leiki því það tæki alltof langan tíma. Ég hef aðeins verið að taka saman stöðuna og hún er núna 63 – 2 fyrir Hrannari.

Ég finn líka alveg muninn á mér eftir að ég byrjaði þessa öflugu íþróttaiðkun, margir líkamspartar orðnir sterkari og liðugri, t.d. … öh, olnboginn á hægri hendi og… hmmm.. já, olnboginn á hægri hendi. Hann er orðinn mjög sterkur! Pílukast er nú eiginlega bara ein hreyfing, halda hendinni uppi og hreyfa svo framhandlegginn um 45 gráður. En núna get ég farið að taka íþróttaiðkunina uppá næsta stig, því nú er komið foosball borð hérna í Libra! Pílukast OG foosball, ég er orðinn algjör íþróttaálfur…