Monthly Archives: November 2008

Ný vinna, masters verkefni og fleira

Það er ýmislegt búið að gerast síðan ég skrifaði hérna síðast. Það er búin að vera mikil óvissa hjá okkur síðustu vikur um framhaldið hérna í Danmörku. Eftir að við náðum loksins að leigja út íbúðina okkar heima var öruggt að við mundum a.m.k. ekki koma heim strax, en síðan þá er óvissan búin að snúast um hvort Karen fengi einhvern fæðingarstyrk og hvort ég gæti þá tekið mastersverkefnið í vor eða hvort ég þyrfti að fresta því og finna mér fulla vinnu í nokkra mánuði. En loksins eftir endalausar heimsóknir hjá Karen í ráðhúsið, þar sem hún hefur verið send fram og til baka og verið í endalausu veseni þá er komið í ljós að hún fær víst fæðingarstyrk. Það virðist vera reglan hjá opinberum starfsmönnum hérna að hjálpa eins lítið og þeir mögulega geta, og sérstaklega benda þeir manni aldrei á neitt að fyrra bragði. Það plús að deildir í ráðhúsinu eru opnar á mismunandi tímum og eru ekki opnar lengi hefur valdið því að þetta hefur allt saman verið hrikalega langt og leiðinlegt vesen. En núna með fæðingarstyrknum + hlutavinnu hjá mér + húsaleigubótum + 2x barnabótum + fríplássi á leikskóla ættum við að geta látið þetta ganga þangað til í sumar þegar ég klára og get fengið mér alvöru vinnu.

Hlutavinnan sem ég er komin með er hjá dönsku hugbúnaðarfyrirtæki sem heitir Maconomy. Ég fór á kynningu hjá þeim fyrir nokkrum vikum og leist vel á. Ég sendi svo inn umsókn og fór í tvö viðtöl og fékk svo hlutastarf. Ég byrja í einhverri test deild og fer svo sennilega í forritunarstöðu í vor þegar þeir fara að endurskrifa einhvern server sem þeir eru með.

Fyrir utan það er ég kominn með Masters verkefni. Er búinn að finna leiðbeinanda sem ég er mjög sáttur með og eftir að tala við hann í gær kom ég með tillögu sem honum leist vel á. Nú þurfum við að fylla út eitthvað form og láta samþykkja tillöguna, en ég geri ráð fyrir að það sé ekkert mál fyrst þetta er eitthvað sem honum þykir vænlegt. Verkefnistillagan hefur titilinn ‘PLR: A Process Language Runtime for the .NET platform’ og gengur útá að útfæra process calculus mál eins og CCS og CSP í .NET. Nánar tiltekið að búa til runtime sem einfaldar að útfæra svona mál (sambærilegt við Dynamic Language Runtime) og útfæra svo 2 mál sem proof-of-concept til að sanna að þetta virki.

Fyrir utan þetta allt saman erum við svo bara að bíða eftir barninu sem á að koma 17. desember en við erum að vonast eftir að komi fyrr. Erum orðin óþolinmóð og viljum helst fá það bara í byrjun Desember. Karen vill reyndar fá það strax en ég vill að það komi daginn eftir síðasta prófið mitt :).