Síðustu vikur hafa verið skotárásir hérna á svona 2-3 daga fresti í Kaupmannahöfn. Það er semsagt gengjastríð í gangi milli “rokkara” (sem eru semsagt Hells Angels) og innflytjenda (eða “manna með innflytjendabakgrunn” eins og þeir kalla það hérna). Miðað við hvar við búum ættum við nú kannski að standa með innflytjendunum þar sem hverfið okkar er örugglega svona 60-70% innflytjendur. Sala á skotheldum vestum er líka búin að aukast um 800%, kannski maður ætti að splæsa í svoleiðis?
Við flytjum inní nýju íbúðina á næstu dögum, nú er bara spurning um hvenær við getum fengið lyklana. Ég var rétt í þessu að hringja í húsvörðinn og skilja eftir skilaboð á símsvaranum. Mér finnst mjög fínt að tala dönsku við símsvara, miklu betra en að tala við alvöru fólk. Ef ég ég fengi að ráða mundi ég aldrei tala við fólk, bara skiptast á símsvaraskilaboðum. Það eru allir búnir að bjóðast til að hjálpa okkur við flutningana þannig að þetta ætti nú að ganga fljótt og vel. Við ætlum að leigja sendiferðabíl þannig að við getum gert þetta sjálf í rólegheitum, þá fæ ég líka að prófa að keyra hérna sem verður áhugavert.
Annars er danskan öll að koma til hjá bæði mér og Karen. Við vorum hjá ljósmóður í dag, sú íslenska sem við höfðum var veik svo það voru 2 danskar í staðinn. Karen talaði við þær um allt á dönsku eins og ekkert væri. Ég fór líka í fyrsta sinn að tala við prófessorana mína í skólanum á dönsku um daginn og það gekk bara vel. Einu skiptin sem við tölum orðið ensku við dani núna er ef það er eitthvað mjög mjög mikilvægt sem við viljum ekki misskilja eða kunnum alls ekki að segja á dönsku. Ég les líka dönsk dagblöð á hverjum degi og hef verið að hlusta á danskt útvarp í lestinni, sérstaklega eina stöð þar sem er bara tal. Þetta er reyndar hundleiðinlegt stöð en þeir tala frekar skýrt, nú veit ég allt of mikið um einhverja Lene Espersen sem er að taka við sem formaður hjá konservatíva flokknum og hvernig hún mun standa sig í samanburði við Bendt Bensen. Þegar ég kem heim ætla ég svo að verða svona óþolandi dana íslendingur sem segir altså, faktískt og interessant í öðru hvoru orði. Ég er meira að segja sjálfviljugur að downloada plötu með Kim Larsen (eða best-of Gasolin, gömlu hljómsveitinni hans). Ef einhver hefði sagt mér það fyrir 10 árum hefði ég sagt að þeir væru eitthvað klikkaðir. Er einmitt að hlusta á plötuna núna, nánar tiltekið þetta lag: