Punktablogg þar sem ég nenni ekki að tengja þetta saman.
- Skilaði inn verkefninu í Biometric systems í dag og er þar með búinn með alla áfanga. Nú á ég bara eftir að vinna á sunnudaginn og mánudaginn og þá er ég kominn í sumarfrí í tvo mánuði.
- Luke, sá sem ég vinn með hefur það fyrir vana að skrifa á töfluna í skrifstofunni okkar ýmis kvót sem honum finnast fyndin. Núna stendur efst á töflunni okkar “Since the dawn of time man has dreamt of destroying the sun!”. Restin af töflunni er full af jöfnum, formúlum og algóriþmum. Fólk sem kemur í fyrsta sinn inná skrifstofuna okkar gæti alvarlega misskilið hvað verkefnið okkar gengur útá. (Smørrebrød í verðlaun fyrir þann sem þekkir kvótið).
- Við fórum í fyrsta skipti til Svíþjóðar á mánudaginn, tókum lestina yfir Øresund til Malmø. Það var gaman. Besti parturinn var að í Svíþjóð eru Subway staðir sem við erum búin að sakna hérna á Danmörku. Ansi dýrt að fara til Svíþjóðar bara til að fá Subway reyndar…
- Á forsíðunni á Urban í dag var fyrirsögnin “Nasista-barnaníðingur handtekinn fyrir að skipuleggja hryðjuverk!”. Þetta hlýtur nú bara að vera versti maður í heimi! Hvað gæti verið verra en nasista-barnaníðingur? Sem skipuleggur hryðjuverk í þokkabót!!
- Ég hef gegnum tíðina reynt að fylgjast með helstu tækninýjungum, og nýtt mér margar þeirra s.s. veraldarvefinn og rafpóst. Núna nýlega skráði ég mig á vefsíðu sem ég hef heyrt að sé mjög vinsæl hjá ungdómnum og nefnist “Facebook” uppá ensku. Á þessari svokölluðu “Facebook” getið þið fundið mig á slóðinni http://www.facebook.com/profile.php?id=808179882 og addað mér ef þið þekkið mig og ég hef ekki nú þegar addað ykkur.
- Venjan hjá Dönum sem eru að útskrifast með stúdentspróf er að leigja pallbíla fyrir hóp af fólki, standa svo öll á pöllunum með stúdentshúfurnar, keyra um bæinn og öskra og flauta á fólk. Bærinn var fullur af svona bílum í dag.
- Atli frændi kom í heimsókn í dag og kom með osta og nammi frá Íslandi. Danir hafa ekki fattað hvað lakkrís með súkkulaði utanum er mikil snilld, ekkert þannig nammi fæst hérna sem er ömurlegt. Reyndar getur maður fengið 3-4 tegundir af íslensku nammi í Irma en það er eini staðurinn.
Tjah.. ég veit svarið við kvótinu en ætli það sé ekki best að leyfa fleirum að spreyta sig þar sem ég notaði vinkonu mína hana Google til að hjálpa mér.. 😛 Segi samt að nafnið á karakternum sem segir þetta byrjar á B og hann er í bláum jakkafötum 🙂
Segi það sama með lakkrís með súkkulaði utaná. Allir útlendingar sem fá þetta missa sig gjörsamlega yfir þessu en enginn annar virðist þó hafa vit á að framleiða þetta… sama á við um súkkulaðirúsínurnar, útlendingum finnst það algjör snilld líka (sem og mér)..