Monthly Archives: June 2008

Loksins að komast í frí.

Punktablogg þar sem ég nenni ekki að tengja þetta saman.

  • Skilaði inn verkefninu í Biometric systems í dag og er þar með búinn með alla áfanga. Nú á ég bara eftir að vinna á sunnudaginn og mánudaginn og þá er ég kominn í sumarfrí í tvo mánuði.
  • Luke, sá sem ég vinn með hefur það fyrir vana að skrifa á töfluna í skrifstofunni okkar ýmis kvót sem honum finnast fyndin. Núna stendur efst á töflunni okkar “Since the dawn of time man has dreamt of destroying the sun!”. Restin af töflunni er full af jöfnum, formúlum og algóriþmum. Fólk sem kemur í fyrsta sinn inná skrifstofuna okkar gæti alvarlega misskilið hvað verkefnið okkar gengur útá. (Smørrebrød í verðlaun fyrir þann sem þekkir kvótið).
  • Við fórum í fyrsta skipti til Svíþjóðar á mánudaginn, tókum lestina yfir Øresund til Malmø. Það var gaman. Besti parturinn var að í Svíþjóð eru Subway staðir sem við erum búin að sakna hérna á Danmörku. Ansi dýrt að fara til Svíþjóðar bara til að fá Subway reyndar…
  • Á forsíðunni á Urban í dag var fyrirsögnin “Nasista-barnaníðingur handtekinn fyrir að skipuleggja hryðjuverk!”. Þetta hlýtur nú bara að vera versti maður í heimi! Hvað gæti verið verra en nasista-barnaníðingur? Sem skipuleggur hryðjuverk í þokkabót!!
  • Ég hef gegnum tíðina reynt að fylgjast með helstu tækninýjungum, og nýtt mér margar þeirra s.s. veraldarvefinn og rafpóst. Núna nýlega skráði ég mig á vefsíðu sem ég hef heyrt að sé mjög vinsæl hjá ungdómnum og nefnist “Facebook” uppá ensku. Á þessari svokölluðu “Facebook” getið þið fundið mig á slóðinni http://www.facebook.com/profile.php?id=808179882 og addað mér ef þið þekkið mig og ég hef ekki nú þegar addað ykkur.
  • Venjan hjá Dönum sem eru að útskrifast með stúdentspróf er að leigja pallbíla fyrir hóp af fólki, standa svo öll á pöllunum með stúdentshúfurnar, keyra um bæinn og öskra og flauta á fólk. Bærinn var fullur af svona bílum í dag.
  • Atli frændi kom í heimsókn í dag og kom með osta og nammi frá Íslandi. Danir hafa ekki fattað hvað lakkrís með súkkulaði utanum er mikil snilld, ekkert þannig nammi fæst hérna sem er ömurlegt. Reyndar getur maður fengið 3-4 tegundir af íslensku nammi í Irma en það er eini staðurinn.

Skrýtnir danir

Furðuleg lífsreynsla í dag. Ég var með Daníel á aðallestarstöðinni og var að leyfa honum að keyra í einhverjum svona bíl sem ruggast til og frá. Bíllinn var fyrir framan þrjá svona ljósmyndaklefa þar sem maður getur tekið passamyndir af sér. Meðan ég var að bíða eftir að þetta kláraðist þá sá ég karl koma labbandi í áttina að klefunum. Hann hefur verið svona 60-og eitthvað, leit ekki út fyrir að vera róni, en var samt frekar svona skrýtinn eitthvað, labbaði t.d. allur mjög stífur, það var næstum eins og hann hefði engin liðamót í hnjánum. Anyway, hann fer inní klefann og dregur fyrir, ég er ekki að horfa á hann en heyri allt í einu hljóðið í vatni vera að renna niður. Ég lít við og sé að hann er að PISSA Í KLEFANUM, BEINT OFAN Á STÓLINN! Það var dregið fyrir svo ég sá bara fæturna á honum, aðeins í stólinn og sprænuna að lenda á stólnum! Svo kom hann út og labbaði í burtu. Ég hafði engan sérstakan áhuga á að fara að abbast eitthvað uppá gaur sem pissar í ljósmyndaklefa, var líka með Daníel og svona þannig að ég fór bara í miðasöluna þarna og lét þau vita. Veit svosem ekki hvað ég hefði átt að segja, “uhh, du skalt ikke pisse i den her pasfoto! Det er ikke toilet!”. Eða bara “Hold kjæft mand, er du sindsyg??!?”. En já, þetta var, öh, spes.

Annars kláraði ég síðasta prófið í dag, áfanga dauðans, System Integration. Gekk betur en ég vonaði þannig að ég er sáttur. Nú er bara að vinna á fullu í vinnunni og svo í næstu viku byrjar Biometric systems áfanginn sem ég verð í þrjár vikur í.

(Ég flokka þessa færslu undir Danmörk, Skóli, DTU og í nýjum flokki sem heitir Piss í ljósmyndaklefum. Ég verð mjög hissa ef sá flokkur fær einhverntímann fleiri færslur)