Monthly Archives: February 2008

Ný vinna, þorrablót og dönsk tækni

Jæja, þá er ég búinn að skipta um vinnu. Ég var búinn að pæla í því í smá tíma að hætta hjá Microsoft, 15 tímar á viku (+ 4 í samgöngur) var of mikið en ég vildi ekki hætta alveg og vera ekki með nein laun lengur. En svo benti Luke (sem er með mér í skólanum) mér á að það var verið að óska eftir masters nemum í DTU til að vinna ákveðið verkefni í skólanum, 1 dagur í viku og ágætis laun þannig að ég ákvað að sækja um það með Luke. Ég sagði upp hjá Microsoft og fékk að hætta undireins, yfirmaðurinn var mjög fínn, reyndi að fá mig til að vera áfram en sagði mér svo bara að láta sig fá uppsagnarbréf þar sem ég segðist mundu vinna næstu 2 vikur, því ef ég hætti samstundis gæti það haft áhrif ef ég vildi einhverntímann sækja um aftur. Þó ég segðist ætla að vinna 2 vikur í viðbót þurfti ég ekkert að mæta og gat þess vegna byrjað strax í nýju vinnunni. Nýja verkefnið er partur af stærra rannsóknarverkefni, okkar partur gengur útá að skoða hvernig sé hægt að nota Aspect oriented programming og static analysis til að bæta öryggi í existing kerfum. Við fáum skrifstofu með 2 öðrum mastersnemum sem er algjör snilld þar sem maður getur líka notað hana til að læra fyrir önnur fög og hefur stað til að geyma dótið sitt og svona. Ég vinn í þessu 1 dag í viku framí júní og þá sjáum við til með framhaldið.

Annars er allt fínt að frétta bara. Síðasta föstudag buðum við Luke, Giedrius og Rimanda í mat til okkar. Giedrius er strákur frá Litháen sem er með mér í skólanum og var að vinna hjá Microsoft, Rimanda er kærastan hans. Á laugardaginn fengum við svo Öglu til að passa fyrir okkur og fórum með Ebbu, Hilmari, Rakel og einhverjum vinum Ebbu og Hilmars á þorrablót hjá Íslendingafélaginu. Það var ágætt, skrýtið að vera allt í einu með eintómum íslendingum aftur. Hljómsveitin hefði samt mátt vera betri til að fá betri stemmningu. En það var gott að komast út, þetta var í fyrsta skipti sem við höfum farið eitthvert saman út síðan við komum til Danmerkur.

Ég ætla að bæta við nýjum föstum lið á þessa síðu. Þetta er nýr dálkur sem heitir Dönsk tækni dagsins þar sem ég mun segja frá æsispennandi dönskum tækninýjungum eins og peningafæriböndum, skiptimyntarvélum og fleiru sniðugu.

Dönsk tækni dagsins:

Við fengum okkur að borða í Fields á svona skyndibitastað. Í staðinn fyrir að fá númer og vera kölluð upp þegar maturinn er tilbúin fengum við svona smá flögu einhverja til að taka með okkur. Þegar maturinn okkar var tilbúinn þá pípti flagan og blikkaði ljós á henni. Snilld!