Kominn aftur til Danmerkur

Þá er fyrsta önnin í DTU búin. Ég var í fjórum áföngum, í Robust Programming þurfti ég að skila inn verkefni og skýrslu, í Program Analysis fór ég í munnlegt próf, í Computationally Hard Problems fór ég í hefðbundið skriflegt próf og í Web Services var hópurinn minn með kynningu. Þetta gekk allt saman ágætlega, þó ég sé ekki búinn að fá neinar einkunnir ennþá. Kennarinn okkar í Web Services var reyndar mjög pirraður í byrjun því við höfðum skráð eitthvað vitlaust hver bar ábyrgð á hverju, röflaði um það í 5 mínútur í byrjun kynningarinnar. Spurði svo mjög skrýtinna spurninga og spurði einn okkar engra spurninga sem var frekar skrýtið. Einkunnirnar ættu síðan að koma fljótlega eftir jól. Ekki að þær segi manni mikið þar sem DTU er með einhvern þroskaheftan sérstakan einkunnaskala sem er einhvernveginn -3 0 4 X ϖ 8 12. Kannski ekki nákvæmlega svona en er allavega frá -3 uppí 12 með bilum á hinum ýmsu stöðum.

Ég fann svo loksins íbúð í Danmörku viku áður en ég kom heim til Íslands. 85 fm, með alvöru baðherbergi með baðkari, fínni stofu og hægt að labba útí garð úr stofunni. Er á Amager, nálægt Íslandsbryggju. Tekur mig reyndar næstum klukkutíma að komast í skólann en ég verð bara að nýta tímann í lestinni vel. Myndir af íbúðinni má sjá á http://einaregilsson.com/birketinget.

Ég fór til Íslands 17. des og var þar yfir jólin og áramótin. Mjög fínt að komast aðeins heim. Þó það sé fínt að vera hérna úti þá finnur maður hvað það er allt eitthvað auðvelt og þægilegt þegar maður kemur aftur heim. Maður skilur allt og allir skilja mann, maður veit hvernig allt virkar og svona. Jólin voru fín, vorum hjá mömmu og pabba á aðfangadag og fengum svo Tómas og strákana til okkar á jóladag. Þetta voru fyrstu jólin þar sem Daníel skilur eitthvað hvað þetta gengur útá. Hann fékk í skóinn og var spenntur fyrir því og svo var hann mjög spenntur að opna pakkana á aðfangadag. Við reyndar létum hann opna suma þeirra á jóladag þar sem hann var orðinn pakkaóður á aðfangadag og leit varla á hvað var í pökkunum, vildi bara komast í næsta pakka sem fyrst. Svo vorum ég og Karen að ganga frá íbúðinni og svona, flytja allt í búslóðageymslu og ganga frá. Sendum dótið okkar út með Samskipum, þar sem við tökum engin húsgögn með þá var þetta voða lítið, bara 1,66 rúmmetrar, þó okkur hafi reyndar þótt það vera fullt þegar við vorum að pakka. Ég kom hingað til Danmerkur í dag en Karen og Daníel koma svo 15. jan og þá þarf ég að vera búinn að kaupa rúm og svona, búslóðin kemur svo 21. eða 22. jan.

Ég byrja svo í janúar áfanga á morgun kl. 9 og fer beint að vinna eftir það þannig að það er nóg að gera. Nú er hinsvegar bara planið að slappa aðeins af í kvöld, horfa kannski á Næturvaktina og fara svo að sofa snemma. Maður verður líka að jafna sig á tímamuninum, það getur nú tekið nokkra daga…