Ég er á fullu að leita að íbúðum hérna í Danmörku þar sem planið er að Karen og Daníel flytji hingað í janúar og það er talsvert erfitt ef við höfum enga íbúð til að flytja í. Eins gaman og það er að búa í hálfum gámi þá getur heil fjölskylda ekki búið þar 🙂 . En já, ég er búinn að senda fullt af emailum, hringja útum allan bæ og skoða nokkrar íbúðir. Í upphafi vorum við með kröfur um að íbúðin væri nú ekki of langt frá DTU og ekki of dýr. Núna hinsvegar viljum við bara finna einhverja íbúð sem er ekki lengra en klukkutíma í burtu. Þegar maður skoðar litlar íbúðir í Danmörku sér maður oft mjööög lítil baðherbergi. Þegar ég fór til Ebbu og Hilmars voru þau t.d. með baðherbergi þar sem vaskurinn var inní sturtunni, maður dró bara sturtuhengi kringum svæðið og það var sturtan. En í fyrradag sá ég ennþá minna baðherbergi, og það í íbúð sem er leigð út á 7900 danskar, u.þ.b. 100.000 isk. Baðherbergið var 1 fermetri, það var klósett, vaskur alveg við klósettið og sturtuhaus á veggnum. Ef maður vildi fara í sturtu þyrfti maður grínlaust að sitja á klósettinu meðan maður væri að sprauta yfir sig. Jafnvel þó ég geti séð hvernig það gæti verið tímasparandi í vissum tilfellum þá er það frekar óspennandi. Sérstaklega með Daníel, ég sé mig fyrir mér sitjandi á klósetti, haldandi á Daníel og sprautandi vatni yfir okkur.
En já, svo hringdi ég í dag að tékka á einni íbúð sem ég sá á netinu. Tala aðeins við manninn (á ensku, já, danskan mín er ekki frábær, danir yfirleitt segja bara ha þegar ég reyni að tala dönsku) og hann spyr mig hvaðan ég sé. Ég segi að ég sé frá Íslandi og þá segir hann mér að hann vilji ekki leigja neinum útlendingum! Nei, vegna þess að ef það yrði nú eitthvað vesen þá yrði nú erfitt að ná í mig á Íslandi. Ég reyndi að segja honum að ég byggi í Danmörku, væri í skóla og svona, en nei, ekki séns. Hann var samt voða vingjarnlegur meðan hann sagði mér að hann vildi ekki leigja mér, var svona hálf afsakandi, en stóð alveg fastur á þessu. Í Danmörku er samt standard að borga 3 mánuði í deposit + 3 mánuði í fyrirframgreidda leigu þannig að hann væri með 6 * 7000 dkr, u.þ.b. hálfa milljón íslenskar frá mér áður en ég flytti einu sinni inn. En já, svona er þetta. Ég held áfram að leita og finn vonandi eitthvað fyrir 17. des