Hvað er að gerast í Danmörku? Síðasta sunnudag elduðu Bruno, Matteus og Francielle brasilískan mat fyrir alla í gámnum. Þetta er víst einhver réttur sem er yfirleitt borðaður á mánudögum í Brasilíu. Það var stór diskur af kartöflumús með smá kjöthakki ofaná, svo var fullt af hrísgrjónum og svo var einhver baunaréttur úr svörtum baunum og einhverju fleiru. Þetta var ágætt, gaman að prófa eitthvað nýtt. Ég splæsti í kók og bjór svona til að leggja eitthvað af mörkum.
Ég var áður búinn að tala um að það ætti að vera keppni milli forritana sem við gerðum í Computational Hard Problems. Við fengum að vita úrslitin síðasta þriðjudag og minn hópur var í 3. sæti. Maður fékk stig fyrir hraða og hversu góð lausnin var sem forritið fann og svo fékk maður bónusstig ef bæði hraðinn og lausnin var góð, svo maður gerði nú ekki bara hraða lausn sem væri krapp. Allavegana, við fengum flösku af rauðvíni í verðlaun, 2005 árgerð af Valpolicella Ripasso, hvað sem það nú er. Ég drekk ekki rauðvín en það er alltaf gaman að vinna :). [Extra nördaupplýsingar: Við hefðum ekki lent í 3ja sæti nema af því að við endurskrifuðum forritið í C++ fyrir keppnina, upphaflega útgáfan í C# tók 12 sekúndur, C++ útgáfan tók 6 sekúndur.]
Núna er ég hinsvegar að horfa á kennsluefni í LEGO Mindstorms, þar sem að á morgun er ég, Eduarda, Tiberiu og Nuno að taka þátt í keppni þar sem maður byggir róbóta. LEGO Mindstorm NXT er eitthvað svona system þar sem maður hefur fullt af kubbum, nokkra skynjara og mótora og svo getur maður smíðað vélmenni og forritað það til að leysa allskonar verkefni. Ég hef aldrei snert á þessu áður, og enginn annar úr hópnum mínum heldur þannig að þetta verður áhugavert. Þetta er í 7 klukkutíma, frá 1-8 á morgun og verður örugglega stuð. Ég hef smá áhyggjur af því að róbótinn gæti orðið self-aware og gert uppreisn gegn sköpurum sínum en að öðru leyti líst mér vel á þetta.
Annað kvöld kemur svo Alda til Danmerkur þannig að ég, hún og Agla verðum örugglega að gera eitthvað skemmtilegt um helgina. Við höfum aldrei áður verið öll 3 systkinin saman í útlöndum. Og, já, þetta er það helsta sem er að frétta af mér.
Meira blogg !!!