Lífið gengur sinn vanagang hérna í Danmörku. Íbúðarleitin er í fullum gangi, er skráður á tveim vefsíðum og er sífellt að senda út pósta útaf íbúðum. Búinn að skoða eina sem var fín en of langt í burtu og fer að skoða 2 vænlegar á sunnudaginn. Fór í dag í einhverja reception fyrir þau fyrirtæki sem eru að sponsora stúdenta frá DTU, það voru kennarar, stúdentar og fulltrúar fyrirtækjanna þarna. Komst að því að þetta er mjög misjafnt milli fyrirtækja, hjá Microsoft er þetta hlutavinna en hjá sumum öðrum, t.d. hjá einhverju heyrnartækjafyrirtæki er þetta bara styrkur. Þekki þýskan strák hérna sem er sponsoraður af þeim, fær bara pening, þarf ekkert að vinna. Hljómar vel :). Móttakan var annars fín, fékk snittur og bjór og spjallaði heilmikið við einhverja konu frá Microsoft og yfirmann tölvunarfræðideildarinnar hérna í DTU.
Er annars búinn að vera að vinna frekar mikið undanfarið. Fór í hádegismat í Microsoft á miðvikudaginn með 3 öðrum íslendingum sem vinna þar. Þeir hittast alltaf hálfsmánaðarlega í mat og buðu mér með í þetta sinn. Sögðust vera fegnir að fá annan íslending, þeim er búið að fækka undanfarið, voru víst 5 eða 6 þarna þegar mest var. Svo var einhver SQL Server gaur frá bandaríkjunum í heimsókn þarna og hélt 2 tíma fyrirlestur um SQL Server 2008 í matsalnum eftir hádegi þannig að ég fór á það, mjög fínt bara. Allt fullt af Halloween skreytingum í matsalnum, kóngulóarvefir og grasker útum allt.
Svo er allt á fullu núna í öllum áföngum, verkefnin hrúgast upp, flest hópverkefni. Sem betur fer er ég í fínum hópum í öllum áföngum. Dæmatímakennarinn kom með kökur handa okkur í Computational Hard Problems á þriðjudaginn. Hann hafði lofað í vikunni áður að ef einhver gæti leyst ákveðið vandamál með því að breyta því í Sudoku þá myndi hann koma með kökur handa okkur, og einhver snillingurinn gerði það þannig að kennarinn þurfti að standa við loforðið. Svo í framhaldi af verkefni sem var í sama áfanga var ákveðið að hafa smá keppni, þar sem forritin okkar keppa og fá stig fyrir hraða + góðar lausnir, og það verða víst verðlaun fyrir 3 efstu sætin. Verður gaman að sjá hvað kemur útúr því.
Næsta Íslandsferð er svo 15 – 19 nóv og kem svo heim í jólafrí kringum 17. des.