Í gær var afmælisveisla hérna í gámi C. Bæði Sebastian og Tiberiu voru að verða 23 ára, Tiberiu síðasta miðvikudag og Sebastian á morgun svo þeir héldu saman afmælisveislu. Það voru pylsur í einhverju deigi í forrétt, svo spagettíréttur í aðalrétt og tvær kökur í eftirrétt, súkkulaði og epla. Við vorum líka búin að kaupa kassa af bjór. Sebastian og Tiberiu elduðu aðalréttinn, Giaullime og Julie gerðu kökurnar og ég og Xavier skárum niður og vöskuðum upp og svona eitthvað smálegt. Ég keypti ódýrt pókersett í Søstrene Grene um daginn og eftir matinn spiluðum við svo póker frameftir kvöldi og drukkum nokkra bjóra. Ekkert fyllerí, bara hyggeligt 🙂 . Það eru nokkrar myndir neðst í þessu bloggi af veislunni.
Í dag fór ég svo niðrí Kaupmannahöfn í verslunarleiðangur að kaupa föt á Daníel í H & M. Maður heyrir nú alltaf öðru hvoru íslensku í Kaupmannahöfn en að fara inní H & M er bara eins og að koma til Íslands! Það er bara annar hver maður þarna inni íslenskur! Eftir að vera búinn að kaupa fullt af fötum fór ég út, hringdi í Öglu, sem flutti hingað á þriðjudaginn og tékkaði á hvað hún væri að gera. Hún var rétt hjá, í Købmagergade, svo ég fór og hitti hana og við fengum okkur einn bjór á kaffihúsi áður en ég fór heim.
Ég er annars að reyna að taka mig á í dönskunni. Í Campus village er bara enska, í Microsoft er bara enska og í skólanum er bara enska svo ég hef ekki haft mörg tækifæri til að tala dönsku. Ég keypti Pusher trílógíuna á DVD um daginn og er búinn að horfa á þær á dönsku með dönskum texta, sem er fínt. Svo er ég líka búinn að ákveða að reyna alltaf að tala dönsku þegar ég hef tækifæri til, og skipta bara yfir í ensku ef það er alveg nauðsynlegt. Helstu afrek mín á dönskusviðinu í dag:
- Í DSB sagði ég “jeg skal have en klippekort til to zoner, og en til fem zoner. Og, eh, to… plastik…”. Og svo veifaði ég höndunum í kringum klippikortið til að sýna manninum að ég vildi plastvasa utan um kortið. Það skildist.
- Í bakaríi í Kaupmannahöfn sagði ég “jeg skal have en kaffe med mælk, og en chokolade muffin.” Það skildist og ég fékk meira að segja hrós fyrir dönskuna mína! Eða ég held það. Stelpan brosti a.m.k. og sagði “eitthvaðeitthvað-dansk-eitthvaðeitthvað”. [Eða /.*dansk.*/ fyrir nördana]. Ég kýs að túlka það þannig að hún hafi verið að hrósa mér fyrir dönskuna.
- Í H & M þurfti ég að spyrja hvort þau ættu samfellur nr. 92. Ég byrjaði á að segja “unskyld, har du nogle…” og svo fattaði ég að kunni ekkert orð fyrir samfellu, hvorki á ensku né dönsku, og að ég vissi ekki hvernig maður segir 90 á dönsku, hæsta sem ég kann er firs. Svo ég panikkaði, benti á nærbol sem var nálægur og reyndi síðan að útskýra með samblandi af ensku, dönsku og handahreyfingum að mig vantaði eitthvað sem var eins og nærbolur nema hneppt saman í klofinu. (Note to self: Ekki reyna að útskýra neitt sem tengist klofi með handahreyfingum nokkurn tímann framar). Afgreiðslustelpan fattaði sem betur fer að ég var ekki að áreita hana heldur bara leita að samfellu nr. 92 og sagði mér að þau ættu ekkert stærra en 86.
Annars kem ég heim næsta laugardag og verð í viku.
Tiberiu og Eduarda að skera sveppi. Tiberiu er frá Rúmeniu og Eduarda frá Portúgal.
Giaullime, Sebastian, Matteus, Eduarda og Tiberiu. Giaullime og Sebastian frá Frakklandi, Matteus frá Brasilíu.
Eduarda, Julie og Giaullime. Julie er líka frá Frakklandi og var með Giaullime í skóla þar.
Xavier og ég, í óþægilega líkum fötum. Xavier er frá Belgíu.
Tiberiu að nota mjög vafasama aðferð til að opna bjórflösku.
Matteus, Xavier, Tiberiu og Julie að borða forrétt.
Matteus að borða sveppina sem Tiberiu bjó til.
Eduarda að sýna kjötið. Þessar myndir koma frá Matteusi og hann vildi geta sýnt mömmu sinni í Brasilíu að hann væri nú að borða almennilega.
Afmælisbörnin, Tiberiu og Sebastian, blása á kertin.