Danmörk – Dagur 14

Jæja, þá er fyrsta skólavikan búin. Á morgun er ég í fríi frá skólanum og verð allan daginn í vinnunni. Tímarnir eru flestir búnir að vera ágætir. Program Analysis virkar hrikalega erfitt, Computationally Hard Problems er ágætt, enda tók ég Stöðuvélar og reiknanleika í HR, Robust Programming í .NET lítur út fyrir að verða áhugavert og Web Services er fínt. Það er samt lítið að gera enn sem komið er. Ég var orðinn frekar leiður á litla herberginu mínu í dag þannig að fór í staðinn á bókasafnið að læra, þurfti að gera smá verkefni fyrir Comp. Hard Problems. Fínt að vera á bókasafninu, það er svona risatafl á gólfinu með köllum sem eru svona 80 cm á hæð, og það er flugvél hangandi úr loftinu. Fór síðan í smá hjólatúr niðrí Lyngby, bara svona til að gera eitthvað. Nýja hjólið er að gera góða hluti.

Í gær tóku Frakkarnir sig til og bjuggu til crepes fyrir alla í kvöldmat. Crepes eru semsagt svona pönnukökur sem maður borðar fyrst með skinku og eggi, síðan með sultu eða súkkulaði. Semsagt bæði aðalréttur og eftirréttur. Við vorum öll hérna úr skúrnum + 3 ítalir úr næsta skúr. Eyddum svo restinu af kvöldinu hangandi inní eldhúsi að spjalla og spila æsispennandi drykkjuleik sem gengur útá að kasta smápeningi ofan í glas, með því að kasta honum fyrst í borðið og láta hann svo skoppa oní glasið. Yfirleitt eldar hver fyrir sig en þarna elduðu Frakkarnir, ég fékk líka pylsur og hrísgrjón hjá Brasilísku strákunum um daginn og ég gaf Belganum burritos með mér í hádeginu í dag. Það er ágætt, enda er hundleiðinlegt að elda fyrir einn.

Annars er ég bara svona að byrja að fatta að þetta er ekki frí, ég bý hérna í alvörunni. Orðinn fullgildur, kominn með CPR númer, símanúmer og var að fá í pósti sjúkraskírteini frá danska ríkinu. Nú þarf ég bara að verða betri í málinu og þá er þetta komið. Sagði “kan jeg have en pose?” í dag hjá kaupmanninum og hann skildi mig. Allt að koma 🙂

1 thought on “Danmörk – Dagur 14

Comments are closed.