Danmörk – Dagur 11

Ósköp rólegur dagur í gær. Fór með Julie, Tiberiu, Bruno, Matteus og Eduarda í IKEA, sem er rétt fyrir utan Lyngby, svona 40 mínútur gangandi. IKEA er að sjálfsögðu allsstaðar eins, fékk mér sænskar kjötbollur í hádegismat og keypti svo nokkra hluti, sængurver, vekjaraklukku, ljósaperur, lampa og eitthvað fleira smádót. Var svo bara hérna heima í skúrnum í gærkvöldi að spila vist við krakkana hérna og síðan einhverja Skype leiki við Karen í tölvunni.

Í dag byrjaði svo alvara lífsins. Bæði var fyrsti dagurinn hjá Microsoft og fyrsti skóladagurinn. Ég svaf aðeins of lengi þannig að ég rauk út til að ná strætó til Microsoft og fékk mér engan morgunmat. Hitti strák frá Litháen, Giedrius, á strætóstöðinni sem var líka að byrja hjá Microsoft. Við byrjuðum á að hitta Tim sem er yfir team-inu okkar. Það var allt í kaos því það var verið að flytja milli skrifstofa og fyrsta sem við gerðum var að reyna að koma fyrir 5 skrifborðum í herbergi þar sem augljóslega áttu ekki að vera fleiri en 4. Við vorum að djóka með að þetta væri örugglega lokaprófið fyrir starfið, ef við næðum ekki að raða þessu eðlilega þarna inn yrðum við reknir á staðnum. En það tókst á endanum og við fengum tölvur og fórum að setja þær upp. Á meðan fór Tim á fund og við héngum inná þessari skrifstofu í 2 og hálfan tíma að gera meira og minna ekki neitt. Danskur strákur sem heitir Sven sýndi okkur aðeins svæðið. Þetta er ekki bara ein bygging, þetta er svona eins og mini-campus með nokkrum byggingum og stórum garði allt í kring, mjög nice. Maður þarf ekki að borga fyrir hádegismatinn og það besta af öllu: ÓTAKMARKAÐ ÓKEYPIS KÓK! (já, ég veit að það er bara eins og að fá 200 kall auka á dag eða eitthvað, en ég kann að meta kók 🙂 ). Við fórum í mat með Tim og hann sagði okkur aðeins betur frá þessu en síðan þurfti ég að rjúka því ég átti að vera í tíma eftir hádegi og var þegar orðinn of seinn.

Ég mætti loksins í tímann kl. 3 og var búinn að missa af fyrstu 2 klukkutímunum. Það var ansi slæmt því kennslan hafði byrjað á fullu og ég var alveg úti að aka. Kúrsinn heitir Program Analysis og eftir því sem ég best sé er hann hrikalega erfiður, sérstaklega fyrir mig sem er ekki með neitt sérstaklega mikinn stærðfræðibakgrunn. Ég keypti bókina eftir tímann og var að lesa í henni núna áðan og já, þetta verður brútal :S . Nú er bara að vera duglegur að læra! Á morgun er það svo Computationally Hard Problems, annar erfiður kúrs og svo eitthvað að útrétta í bænum eftir það.

3 thoughts on “Danmörk – Dagur 11

Comments are closed.