Á fimmtudaginn fór ég útá Kastrup kl. 9 að taka móti Karen og Daníel. Mjög gott að sjá þau aftur, Daníel faðmaði mig bara og kjökraði “pabbi” fyrst þegar hann kom til mín. Við byrjuðum á að fara með lestinni til DTU og kíkja aðeins í skúrinn minn. Ég sýndi þeim aðeins campusinn og svo fórum við með lest til Gentofte þar sem hótelið okkar var. Eftir að við vorum búin að koma okkur fyrir þar fórum við svo niðrí miðbæ og vorum þar að þvælast framað kvöldmat. Fórum m.a. í Tiger og keyptum allskonar dót fyrir herbergið mitt hérna. Tókum það svo bara rólega uppá hótelherbergi um kvöldið. Daginn eftir vorum við aftur niðrí miðbæ fram að hádegi og svo fór ég með þeim útá flugvöll að kveðja.
Ég nennti ekki að fara í Introduction week matinn sem var um kvöldið, var bara að hanga inná herbergi, en fór svo á lokapartý Introduction week um kvöldið. Það var fínt, hitti Edda sem var með mér í HR og fleiri Íslendinga og var þar til svona 1. Einum franska stráknum sem ég er með í skúr fannst Danirnir hafa hræðilegan tónlistarsmekk og var mjög hneykslaður þegar YMCA var spilað og allir fóru að gera handahreyfingarnar 🙂 .
Í dag vaknaði ég svo seint, um 11 leytið. Kom Skype-inu í gang (einaregilsson er nafnið) og talaði við Karen heima á Íslandi. Webcamið er algjör snilld, miklu betra en að tala bara í símann! Fór svo niðrí miðbæ með Gium og Julie, frönskum strák og stelpu sem ég bý með. Við fórum að leita okkur að hjólum. Vorum reyndar frekar sein þannig að margar búðir voru lokaðar en fundum að lokum eina góða og keyptum okkur öll hjól. Ég keypti mér blátt 3 gíra hjól á 800 danskar krónur (u.b.b. 9600 isk). Gium og Julie fóru svo að hitta aðra Frakka í bænum en ég ætlaði heim með lestinni. Þá kom í ljós að lestarnar gengu ekki eftir 5 í dag svo maður átti að nota strætóana í staðinn. Þeir voru allir troðfullir svo ég ákvað bara að hjóla alla leiðina til Lyngby. Það tók rúman klukkutíma og ég er núna kominn hingað, dauður af þreytu. Planið fyrir kvöldið er að þvo þvott og horfa kannski á einn Sleeper Cell þátt (villt háskólalíferni í fullum gangi hérna). Á morgun erum við í skúrnum svo að plana fjöldaferð í IKEA sem virðist vera það eina sem er opið á sunnudögum í Danmörku.
Hæhæ elsku elsku bróðir minn. Búin að vera 3 vikur í Flatey. Var að koma heim seint í gærkvöldi. Segi betur frá því ævintýri seinna en bottomlinið er að ég var ekki með neitt netsamband (þ.e.a.s það virkaði svona í eitt skipti af fimm og datt svo út í eitt skipti af þremur). Rétt að loka maraþonlestri hérna og rosalega gaman að heyra af öllu sem þú ert að upplifa. Minnir mig svo á fyrstu vikurnar mínar í Alicante og Antwerpen…
Daníel og Karen komu með hádegismat til mín í dag og við borðuðum saman og svo fór Karen í vinnuna og ég passaði Daníel það sem eftir var dagsins. Rosa fjör og endurtökum leikinn á morgunn. Daníel var rosalega góður hjá mér og fór ekkert að gráta. Ofsalega knúsinn, alltaf að koma til manns og knúsa mann. Við lásum fimm bækur og fórum í bíla og flugvélaleik og dönsuðum alveg helling. Hann er voða hrifinn af klassískri tónlist! Snýr sér í hringi alveg endalaust eins og súfisti þar til hann byrjar að svima og dettur á bossann. Rosa gaman. Lúlluðum saman og hann hélt í höndina á mér allan tímann. Voffinn hans var svo búinn að pissa og við settum á hann bleyju. Tók nokkrar myndir sem ég sendi þér fljótlega. Annars svo gaman að heyra hvað hann er duglegur að tala. Ég reyndi að kenna honum orðið “eðlisfræðikenning” í dag. Hann náði því næstum: “elisflaklklummm.” Fyndnasta var þegar einhver kona í útvarpinu var eitthvað voða mikið að tala og hann fór að útvarpinu og svaraði henni: “Halló! Halló…!” Ég hafði það varla í mér að útskýra fyrir honum að konan heyrði ekki í honum, var alveg drepfyndið.
Hafðu það rosa gott og reyndu nú að njóta þessa ævintýris þó svo ég viti að það sé erfitt án Karenar og Daníels. Knús. alda.