Það er eins og venjulega, þegar lífið er komið í rútínu þá nennir maður ekki að blogga því það er ekki frá miklu að segja. Dagarnir hjá mér eru yfirleitt skóli + læra heima eða vinna hjá microsoft, tala svo við Karen og Daníel gegnum Skype á kvöldin. Helgar fara í að læra og kíkja stundum til Kaupmannahafnar. Á þriðjudagskvöldum er svo international night á kjallarabarnum hérna á campusnum. Og þá er það helsta upptalið sem ég geri hérna 🙂
Annars eru bankamálin hjá mér loksins komin í lag. Í fyrsta blogginu héðan frá Danmörku talaði ég um bankakonuna sem vildi endilega tala dönsku við mig. Hún var mjög indæl en virðist ekki vera skarpasta tólið í skúrnum þar sem henni tókst að klúðra umsókninni minni ekki bara einu sinni, heldur tvisvar. Þegar ég fór þarna upphaflega fyllti ég út umsókn og hún sagði mér að eftir nokkra daga mundi ég fá sendan heim risastóran bunka af pappírum og þyrfti svo að sækja sérstaklega um að fá kort á reikninginn eftir að ég fengi þessa pappíra. Ég beið í 10 daga og ekkert gerðist. Þá fór ég aftur og lenti á sömu konu og spurði hvað væri að gerast. Hún sagði bara “hmmm, skrýtið, ég sé ekkert lengur um þetta hérna”. Svo fyllti hún eitthvað aftur út, skrifaði reikningsnúmerið mitt á pappírssnepil og rétti mér og sagði aftur að pappírarnir kæmu eftir nokkra daga. 12 dögum eftir það kom ég enn einu sinni, ekki ennþá búinn að fá neitt og var orðinn grjótfúll. Þá lenti ég á annarri konu sem bæði talaði ensku og vissi hvað hún væri að gera. Hún byrjaði á að tékka á reikningsnúmerinu mínu, sem kom í ljós að var bara alls ekki til (og ég var búinn að láta Microsoft fá það). Þá sagði hún mér bara að við myndum redda þessu, skráði nýjan reikning á nokkrum sekúndum, lét mig fá útprentað blað með reikningsnúmerinu mínu og sagði að ég fengi sent kort í pósti. Ekkert mál, ekkert vesen. Og nú er ég búinn að fá kortið. Maður verður sem sagt að vera með Dankort hérna þar sem Danir eru með eitthvað þroskaheft mjög sérstakt kerfi hérna þar sem þeir taka bara við dönskum kortum í mörgum sjoppum.
Annars er svosem lítið að frétta. Ég kem heim í haustfrí 13 október og verð í rúma viku, það verður gaman. Læt fylgja hérna með myndir af gámnum mínum: