Danmörk – Dagur 0 og Pólland

Jæja, það er svo mikið að skrifa núna að ég ákvað að skipta því í tvö blogg, eitt um daginn í Danmörku á leiðinni til Póllands og Póllandsferðina, og eitt um alvöru fyrsta daginn í Danmörku sem var í dag.

17. ágúst fórum við út. Ég var ekki samferða Karen og Daníel því við áttum nóg af frípunktum til að láta Daníel fljúga frítt með Icelandair, en one-way-ticket hjá þeim er fáránlega dýrt þannig að ég fór með Iceland Express í staðinn. Flugið mitt fór kl. 7 um morguninn og lenti kl. 12 í Danmörku. Skrýtið að fljúga einn, hef aldrei gert það áður. Þegar ég lenti rauk ég síðan beint í lestina þvi ég þurfti að ná uppí DTU fyrir kl. 14 til að ná í lyklana fyrir húsnæðið mitt og skilja eftir eitthvað af faranginrum. Þegar ég kom á Köbenhagen Central Station fór ég svo bara og fékk mér leigubíl, því ég hafði engan tíma til að vera að leita að réttri lest eða strætó til að fara til DTU. Spjallaði aðeins við leigubílstjórann, spurði hann um Lyngby. Hann sagði að það væri nú soldið stórt, væri am.k. ‘not a village’ eins og hann orðaði það, og sagði að það væri ekki beint partur af Kaupmannahöfn sjálfri, en væri partur af stór-Kaupmannahöfn. Soldið svona eins og Hafnarfjörður fyrir okkur eða eitthvað. Ég náði svo í lykilinn og skoðaði herbergið mitt. Þetta eru svona nokkurskonar rauðir vinnuskúrar sem eru festir nokkrir saman, það búa 9 aðrir með mér og við höfum sameiginlegt bað og eldhús. Þetta virkaði bara snyrtilegt og fínt. Rauk svo aftur til Köben að hitta Karen og Daníel, við fengum okkur aðeins að borða í bænum og flugum svo til Póllands.

Í Póllandi vorum við svo í góðu yfirlæti í viku. Við vorum á hóteli í gamla bænum sem var bara fínt. Fórum nokkrum sinnum í mat til Hönnu og nokkrum sinnum til Ellu, Gregoz og Pálinu. Vorum bara að þvælast á daginn, fórum oft með Daníel á frábæran róló sem var rétt hjá Hönnu, fórum líka í konunglega garðinn þar sem er allt fullt af fiskum í tjörnunum, og fullt af páfuglum. Það var mjög fínt og Daníel duglegur að hlaupa þarna um allt. Við fórum svo tvisvar í dýragarðinn. Í fyrra skiptið var Daníel svo þreyttur að hann svaf af sér öll spennandi dýrin þannig að við fórum aftur á afmælinu mínu og leyfðum honum að sjá ljónin, tígrisdýrin og öll kúl dýrin. Hann var nú samt eiginlega hrifnastur af öpunum.

Afmælið mitt var daginn áður en ég fór til Danmerkur og við eyddum góðum parti af deginum í dýragarðinum, komum svo aðeins við í H & M að versla og fórum svo í mat til Ellu og Gregoz. Þar fékk ég fullt af afmælisgjöfum, fékk Vodkaflösku frá Hönnu og sokka, belti og 5 hryllingsmyndir frá Ellu, Gregoz og Pálínu. Svo bara heim á hótel að pakka, þar sem ég þurfti að vakna kl. 4:45 daginn eftir. Karen og Daníel verða þarna í viku í viðbót og koma svo til mín einn dag í næstu viku og fara svo heim. Ég segi svo frá fyrsta Danmerkurdeginum í næsta bloggi  🙂