Monthly Archives: April 2007

Danmörk

Þá er það komið á hreint að ég fer til Danmerkur í haust. Búinn að fá inngöngubréf frá DTU og skólinn byrjar 28. ágúst á einhverju introduction week. Ég keypti dönskunámskeið um daginn og er núna byrjaður að rifja upp dönskuna. Gengur vel að lesa en svo verður örugglega miklu meira mál að tala. Ég er samt búinn að læra nokkrar setningar sem ég mun reyna eftir bestu getu að troða inní öll samtöl svo ég geti sýnt hvað ég sé góður í dönsku.

Hej (Hæ) 

Jeg hedder Einar.  (Ég heiti Einar)

Jeg er meget sulten.  (Ég er mjög svangur)

Din mor kommer med tog. (Mamma þín kemur með lest)

Hvad hedder din mor? (Hvað heitir mamma þín?)

Man kan godt drinke rødvin med æblekage! (Maður getur vel drukkið rauðvín með eplaköku!)

Det er en interessant rejse (Þetta er áhugaverð ferð)

Þetta hlýtur að nægja mér fyrstu vikurnar. Ef ekki þá get ég alltaf raðað þeim saman á nýja vegu og þar með aukið orðaforðann töluvert. t.d.

Man kan godt drinke rødvin i en interessant rejse (Maður getur vel drukkið rauðvín í áhugaverðri ferð)

Jeg er meget sulten, mmmmm, æblekage (Ég er mjög svangur, mmmm, eplakaka)

Hvað hedder din æblekage? (Hvað heitir eplakakan þín)

Din mor er meget sulten, mmmm, æblekage (Mamma þín er mjög svöng, mmmm, eplakaka)

Det er en interessant rødvin, man kan godt drinke den i tog (Þetta er áhugavert rauðvín, maður getur vel drukkið það í lest)

Sjáum hvort nokkur fattar að ég sé ekki innfæddur þarna.

Í nördafréttum er annars helst að frétta að ég sendi í fyrsta skipti inn kóða í open-source verkefni. Þannig að ef einhver er að nota Django framework-ið og vantar textabox fyrir íslenska kennitölu, íslenskt símanúmer eða combobox fyrir póstnúmer þá er það núna innbyggt í Django í pakkanum django.contrib.localflavor.is_.forms .

Amsterdam

Vincent: You know what they put on French fries in Holland instead of ketchup?
Jules: What?
Vincent: Mayonnaise.
Jules: Goddamn.
Vincent: I’ve seen ’em do it, man. They fucking drown ’em in that shit.

Vorum að koma heim frá Amsterdam. Ég og Karen fórum bara tvö, Daníel var hjá mömmu og pabba á meðan. Amsterdam var snilld! Við vorum á litlu hóteli, Hotel Wiechman, sem var rétt hjá miðbænum. Það var frekar ódýrt, hreint og fínt, góður morgunmatur og vinalegt starfsfólk. Þeir voru líka með fallbyssu í lobbýinu sem er alltaf kostur. Við komum til Hollands á fimmtudaginn, fórum með draslið á hótelið og svo beint út að labba um bæinn og skoða okkur um.  Við fórum svo að versla í aðal verslunargötunni og um kvöldið fórum við að leita að einhverjum skemmtilegum pöbb. Fengum okkur bjór á einum en það var nú ekki mjög spennandi staður. Hollendingar eru annars voða fínir. Allir tala ensku, þeir eru voða frjálslyndir, útum allt eru endalausir minjagripir og tól tengd hassi, í minjagripabúðum er allskonar dót tengt klámi og rauðahverfinu. og svo eru þeir með snilldar útiklósett fyrir kalla þar sem maður stendur bara úti og pissar í svona smá skál, snýr bara baki í vegfarendur.

Á föstudeginum kíktum við á markað á Waterlooplein og leigðum okkur svo hjól. Það eru ALLIR á hjóli í Amsterdam. Það er ekkert þarna nema hjól og síki! Hjóluðum í dýragarðinn og vorum þar heillengi, fórum svo aðeins aftur að versla og fengum okkur svo kebab. Fórum svo að djamma aðeins um kvöldið og komumst að því að við höfðum verið á bandvitlausum stað kvöldið áður. Aðalstaðurinn var Leidseplein, þar var allt fullt af klúbbum og fólki. Við enduðum á að fara á comedy show á stað sem hét Boom Chicago. Þetta var svona spunasýning með bandarískum leikurum. Þeir báðu áhorfendur um orð og frasa sem þeir notuð síðan í atriðum og lögum og maður fékk frían bjór ef þeim leist vel á tillöguna. Karen fékk einn frían bjór fyrir orðið ‘waterbed’.

Á laugardaginn fórum við svo til Antwerpen að heimsækja Öldu og Wannes. Þau sýndu okkur Antwerpen og við borðuðum kvöldmat hjá þeim. Vorum svo bara heima hjá þeim um kvöldið í góðum fíling með þeim og vinum þeirra sem ég hef ekki glóru um hvernig á að skrifa nöfnin á. Tókum síðan góðan páskamorgunmat í morgun, svo bara lest, flugvél, rúta, bíll og komin heim. Snilldarferð í alla staði!