Monthly Archives: February 2007

Nýtt blogg

Jæja, eins og glöggir lesendur taka eftir þá er komið nýtt útlit á síðuna. Ekki bara nýtt útlit heldur nýtt bloggkerfi. Ég ákvað loksins að hætta með heimasmíðaða bloggkerfið mitt og fara að nota WordPress. Ég byrjaði á að skipta um kerfi á síðunni hjá Daníels og leist svo vel á það að ég ákvað að nota það hjá mér líka. Forritarar sem blogga virðast allir fá sömu hugmyndina: “Hey, bloggkerfi er einfalt. Ég ætla að búa til mitt eigið bloggkerfi!!!”. Það sem gerist er hinsvegar að þeir enda allir með einhver hálfkláruð krapp heimasmíðuð kerfi sem eru ekki næstum því jafn góð og alvöru bloggkerfi sem einhver hefur lagt virkilega vinnu í (og þetta er nákvæmlega það sem gerðist hjá mér 🙂 ). Í WordPress er t.d. innbyggt kerfi til að vinna gegn commentaspami sem ég var búinn að vera í vandræðum með á hinni síðunni, mörg þúsund þemu sem maður getur valið um og endalaus plugin til að gera allt undir sólinni.

Þetta er ennþá ekki komið almennilega í gang, ég er búinn að importa gömlu bloggfærslunum mínum með Python scripti en á eftir að finna eitthvað annað þema, laga linka og myndir í gömlum færslum og laga þetta eitthvað meira til. Það kemur allt á næstunni. Kannski ég reyni jafnvel að skrifa hérna inn öðru hvoru 🙂

Eurovision og skvass

Var að horfa á Idol stjörnuleit Eurovision. Það virðast bara vera fyrrverandi Idol keppendur þarna og síðan semur Kristján Hreinsson meira og minna alla textana. Get ekki sagt að neitt lag þarna hafi verið að heilla mig. Kynnirin, Ragnheiður eitthvað, var með Princess Leiu hárgreiðslu sem var svalt. Síðan af einhverjum óskiljanlegum ástæðum mætti Bubbi allt í einu í þáttinn. Hann hefur kannski haldið að hann ætti að fara að rakka niður Idol keppendurna eins og í gamla daga. En hann fékk það ekki, í staðinn var tekið 20 sekúndna viðtal við hann þar sem hann var mjög kúl og sagði að Eurovision væri ömurlegt því hann “trúir ekki á keppnir í tónlist!”. Halló? Vann hann ekki sem dómari í tónlistarkeppni í fyrra? (Ok, má kannski segja að Idol sé söngkeppni en Eurovision tónlistarkeppni. Potato, potato. (hmmm, þetta virkar ekki jafn vel á prenti…)).

Hvað fleira er að frétta? Jú, ég fékk nýja skvass spaðann minn í fyrradag. Ég er semsagt byrjaður í skvassi með vinnufélögunum. Sannfærður um að tvær klukkustundir af skvassi á viku dugi til að vinna upp á móti 40 klukkustundum af kyrrsetu og lélegu mataræði og koma mér í gott form. Þvottabrettismagavöðvar eru á næsta leiti. En já, kominn með einhvern súperflottan Wilson spaða sem er súperléttur og fínn. Er búinn að vera með einhvern hlunk spaða frá Finni síðan ég byrjaði í skvassinu. Á vigtinni með hlunkspaðann vorum við saman 90 kg þannig að samkvæmt því hlýtur spaðinn að vera u.þ.b. 12 kg samkvæmt mínum útreikningum. Nú get ég allavega tapað leikjunum með talsvert léttari og betri spaða.