Mér hefur alltaf fundist 80’s vera mjög hallærislegur áratugur. Tónlistin var hallærisleg, sjónvarpsþættirnir voru hallærislegir og fötin voru hrikalega hallærisleg. Hinsvegar hef ég alltaf staðið í þeirri trú að 90’s sé mjög töff áratugur, enda var það áratugurinn minn, áratugurinn þegar ég var unglingur. Þó að núna sé liðinn meira en hálfur áratugur síðan 90’s kláraðist, þá hef ég samt haldið áfram að vera viss um að þetta hafi verið hápunkturinn, mest töff áratugurinn. …þangað til Skjár 1 og Sirkus byrjuðu að endursýna gamla sjónvarpsþætti. Nú er ég búinn að vera að horfa á Beverly Hills 90210, Melrose Place og X-Files. X-Files stendur reyndar ennþá fyrir sínu, en Beverly Hills og Melrose Place? Þetta eru þættir frá fyrri hluta 90’s og allt í þeim er hræðilega hallærislegt, sérstaklega Beverly Hills. Hlutir sem eru hallærislegir við Beverly Hills (í engri sérstakri röð):
- Dylan
- Hárið á Dylan
- Fötin sem fólk gengur í
- Persónuleiki Dylans
- Brenda er óþolandi og alltaf vælandi
- Dylan lítur út fyrir að vera svona þrítugur
- Andrea gæti verið 35 ára
- Donna getur ekki leikið
- Foreldar Brendu og Brandons eru óþolandi skilningsrík og góð
Það sem er samt allra hallærislegast við Beverly Hills er boðskapurinn. Hver þáttur hefur alltaf einhvern jákvæðan boðskap. Dæmi um boðskap sem er búinn að koma:
- Brjóstakrabbamein er slæmt, munið að láta tékka á ykkur.
- Það er í lagi að fara til sálfræðings, talið við fólk ef ykkur líður illa.
- Framhjáhald hjá foreldrum ykkar er slæmt, en það þýðir ekki að þau elski ykkur ekki.
- Átröskun er slæm, passið ykkur á megrunarpillum.
- Það er erfitt að vera ættleiddur, en fósturforeldrarnir elska ykkur eins og þið væruð þeirra eigin börn.
- Post-traumatic stress disorder er hræðilegt, það er í lagi að líða illa, munið bara að tala við sálfræðing.
Ég er bara að bíða eftir að það komi HIV persóna í 2-3 þætti, og að einhver aðalleikari lendi í fíkniefnavanda. Fíkniefnavandi í svona þáttum er líka alltaf mjög áhugaverður: persóna prófar fíkniefni í fyrsta sinn, verður svakalega háð þeim strax í sama þætti og stelur mjög líklega peningum frá foreldrum sínum til að kaupa fíkniefni. Í næsta þætti á eftir hjálpa vinir og fjölskylda nýja fíklinum og hann losnar við fíkniefnin fyrir fullt og allt, og þarf aldrei að hafa áhyggjur af þeim aftur.
En þrátt fyrir að þetta sé algjör hörmung þá horfi ég samt á þetta. Af hverju? Ég er ekki viss. Kannski af því að ég gat ekki séð þetta á sínum tíma því ég var ekki með stöð 2. Eða kannski af því að þrátt fyrir allt þá hef ég gaman af þessu 😉
90’s kúl?…hmmm held að fyrri hluti þess áratugar sé eitt ósvalasta tímabilið í manna minnum…No no no no no no no no there’s no limit;) Get samt ímyndað mér að það sé gaman að sjá Beverly Hills aftur og a.m.k. ein spáin þín er rétt, man ekki hvort hin stenst!
Keypti “A fish called Wanda” einhvern tíma í vor – hún var einhvern vegin ekki jafn fyndin og mig minnti, tempóið mjög hægt og fremur hallærisleg á köflum… “Groundhog Day” (sem ég keypti líka) var samt enn þá snilld.
Hérna eru nokkur æði frá ’90 sem ég man eftir:
* Þykkbotna “rugguskór”
* Levis
* Beltissylgjur
* Stafa/Nafna hálsmen
* Hermannaklossar
* Vaxjakkar
* Vesti
* Stuttermabolir yfir síðermaboli
* Fílófax
* Buffalóskór úr BossaNova
* Vinabönd
* Bodyshop
* Perluskraut í hár
* MBA og körfuboltaæði
Fyndið að maður sér orðinn svona gamall að maður getur farið að líta til baka á “gömlu tímana” 😀
Oh, mig langaði alltaf svo í “blómabelti”…
Hvað meiniði með því að 80′ hafi verið hallærislegt??? Það var mjög kúl; herðapúðar og blásið hár, Duran Duran og neonlitar grifflur.
Flashdance og fleiri ofur myndir. Þið hafið bara ekki nógu þroskað kúl!!!! 😉
80’s er alltaf doldið kúl finnst mér, en Dylan í Beverly Hills er hins vegar eitt mest pirrandi karakter sögunnar, þoldi hann ekki á sínum tíma (já, ég fylgdist aðeins með þessu, ekki segja neinum).