Monthly Archives: April 2006

Bensín

Sindri var að segja mér frá útvarpsþætti sem hann heyrði þar sem verið var að spyrja fólk hvort bensínhækkanirnar hefðu haft áhrif á það. Tvö snilldarsvör:

sp: Hefur hækkun á bensínverði haft einhver áhrif á þig?

snillingur #1: Nei, ég tek alltaf bara fyrir 1000.

sp: Hefur hækkun á bensínverði haft einhver áhrif á þig?

snillingur #2: Já þetta er náttúrulega hrikalega dýrt orðið.

sp: Dælirðu sjálfur eða læturðu dæla fyrir þig?

snillingur #2: Ég læt dæla fyrir mig, maður verður að láta þessa starfsmenn vinna fyrir kaupinu sínu.

Carefully orchestrated campaign of robot violence

“… how do you KNOW your code won’t become self-aware, perceive humans as a threat, and wipe us out with a carefully orchestrated campaign of robot violence? Unit tests can’t test for THAT.”

[Kvót úr umræðuþræði um Unit testing sem ég var að lesa.]

p.s.

Hefði sennilega átt að merkja þessa færslu með hinu fræga [nördablogg] merki. Kannski ég komi mér upp svona flokkakerfi eins og er í WordPress, gæti þá verið með flokkana Nörd, Kvikmyndir og Annað.

Einir heima

Karen fór til Danmerkur yfir páskana að hitta Láru vinkonu sína. Ég og Daníel erum hérna heima að passa hvorn annan. Þegar Karen er ekki hérna til að halda aftur af nördinum í mér þá endar það alltaf á því að ég borða allt of mikið af ruslfæði, gosi og nammi, eyði skuggalega miklum tíma í að forrita einhver pet project og vaki fram eftir öllu hangandi í tölvunni eða horfandi á endursýnda þætti á Skjá einum. Einnig er ég hættur að fara í bað og búinn að kaupa mér Svarthöfðahjálm. (Ok, þetta tvennt síðasta er ekki satt, ég fer ennþá í bað. Ennþá…). Það er greinilegt að ég mundi aldrei höndla að búa einn! En Karen kemur aftur á þriðjudaginn og þá fara hlutirnir aftur í eðlilegt horf, það verður fínt!

p.s.

Já, klukkan er í alvörunni 6:51 um morgun þegar ég er að skrifa þetta. Daníel tekur ekkert tillit til þess þótt pabbi hans hafi farið seint að sofa. Við erum nú þegar búnir að borða, fara í bað, og núna er Daníel að æfa sig að labba meðfram hlutum. Morgunstund gefur gull í mund…

Breytingar

Var að gera smá breytingar á síðunni, ef þið útlendingarnir í Belgíu, Bretlandi og Ástralíu lendið í vandræðum með að sjá íslenska stafi þá endilega látið mig vita.

Páskaegg

Þegar ég var lítill þá voru bara tvær gerðir af páskaeggjum, frá Nóa Siríus og Mónu. Nói Siríus var samt alltaf aðal, Mónuegg voru alltaf í öðru sæti, þó það mætti notast við þau í neyð. Núna hinsvegar eru komin páskaegg frá fullt af framleiðendum í allskonar stærðum og gerðum, t.d strumpaegg, púkaegg og Harry Potter egg. Mér finnst þetta farið ansi langt frá því sem páskarnir snúast um! Ég man a.m.k. ekki eftir neinum strumpum í Biblíunni (reyndar hef ég ekki lesið hana, en ég er nokkuð viss um að það eru engir strumpar þar, það kæmi mér mjög á óvart). Annað sem er asnalegt eru stærðirnar á páskaeggjunum í dag. Allir framleiðendur ættu auðvitað að fylgja metrakerfinu eins og Nói Siríus, en nei, sumir framleiðendur eru allt í einu bara með páskaegg nr. 9 sem er minna en páskaegg nr. 6 frá Nóa Siríus! Hvernig á maður eiginlega að bera svona saman til að ákveða hvað maður á að kaupa? Þetta er bara rugl! En sem betur fer þarf ég ekki að pæla í þessu þar sem ég fékk gefins ekta páskaegg frá vinnunni, Nóa Siríus egg nr. 4 með unga ofaná :).

Nördagetraun – úrslit

Jæja, það var fullt af svörum við getrauninni. Flestir voru með spurningu 2 rétta, svarið var að sjálfsögðu Ghostbusters en aðeins 3 voru með spurningu 1 rétta, það voru Lauga, Árni og Hrannar. Hrannar er reyndar dæmdur úr leik þar sem ég sagði honum svarið við spurningu 2 á Burger King þannig að Lauga og Árni eru sigurvegararnir og fá sitthvora tómu kókflöskuna. Hægt er að vitja vinningana á skrifstofutíma í Hlíðasmára 12.

Nördagetraun

Langt síðan ég hef verið með getraun hérna. Þessi er bara fyrir nördana tölvunarfræðingana sem lesa þessa síðu. Kvikmyndanörd ættu reyndar að geta svarað spurningu 2 þó þau viti ekkert um tölvur. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir þann sem svarar báðum spurningum rétt, eða tvær tómar kókflöskur sem eru á skrifborðinu mínu. Hægt er að nota flöskurnar undir vatn eða aðra vökva, eða skipta þeim fyrir væna fjárupphæð hjá endurvinnslustöðvum Sorpu. Vinningurinn er skattfrjáls. Svörin verða sýnileg í kommentakerfinu á mánudaginn kl. 16:00.

Q1: Singleton hönnunarmynstrið er stundum kallað “Highlander”. Af hverju?

Q2: Mozilla notar markup mál sem heitir xul til að skilgreina user interface. Namespace-ið fyrir xul er http://www.mozilla.org/keymaster/gatekeeper/there.is.only.xul. Einnig má geta þess að javascript debuggerinn í Mozilla heitir Venkman. Hvaða kvikmynd eru þessi nöfn reference í?

Snakes on a plane!!!

Stundum sér maður trailer fyrir kvikmynd sem maður vissi ekki af og hugsar með sér að maður verði að sjá þessa mynd. Aðrar myndir eru þannig að maður þarf ekki einu sinni að sjá trailerinn, það er nóg að heyra nafnið til að vita að þær munu verða snilld. Gott dæmi um þetta er myndin Snakes on a plane sem er væntanleg í bíó. Hvernig gæti þessi mynd verið nokkuð annað en snilld? Snakes on a plane? Maður veit strax um hvað hún er, það eru snákar, það er flugvél, snákarnir eru í flugvélinni. Og í þokkabót leikur Samuel L. Jackson í henni. Þetta verður klárlega mynd ársins!