Sá í fréttablaðinu að Saddam Hussein er hættur í hungurverkfalli eftir 11 daga. Það er nú gott! Ég var búinn að hafa miklar áhyggjur af honum!
Monthly Archives: February 2006
Viðbrögð við bíóvísitölu
“Þessi bíóvísitala þín er drasl.”
“Þetta er það ömurlegasta sem ég hef séð!”
“… þú fokking ógeðslegi ófindni Búðingur!”
“…greinilegt að þú hefur ekki HUNDSVIT á bíómyndum…”
“Þú ættir að skammast þín fyrir þetta…”
“DONT JUDGE A BOOK BY ITS COVER ASSHOLE!”
“…þegar fólk er jafn heimskt og þú.”
“Þú ert fáviti drengur.”
“Vá hvað þú ert með lélegan bíómynda smekk…”
“Þú ert alveg yfirnáttúrulega heimsk manneskja, hversu heimskur getur einn maður verið?”
“…hversu mikilli sæmd vill einn maður hrinda frá sér í tilraun til þess að REYNA að vera fyndinn?” [Tilraun er skv. skilgreiningu að reyna eitthvað. Ég er semsagt að reyna að reyna að vera fyndinn. Vonandi tókst mér að reyna það. -Einar]
Ekki voru allir jafn hrifnir af bíóvísitölunni…
Mér sýnist samt að fólk hafi aðallega skipst í 3 flokka:
- Þeim sem fannst þetta fyndið. Voru sumir ósammála stigagjöfinni en voru a.m.k. ekki að taka þetta of alvarlega.
- Þeim sem fannst þetta ömurlegt og ég vera fáviti. Þetta var fólk sem var móðgað útaf einstökum atriðum eða sem fannst hugmyndin bara almennt glötuð. Tóku þetta mjög alvarlega!
- Þeir sem urðu sárir yfir þessu. Þetta finnst mér skrýtnasti hópurinn. Komment eins og:
“Þú sem sagt getur talað fyrir allt fólk á landinu, hvað veist þú nema að einhverju fólki finnist eitthvað af þessu skemmtilegt.”“kannski finnst þér þetta en ekki öðru fóli”
“það skiptir ekki máli hverjir leika í henni, hver leikstýrir eða skrifar handritið, hvort það er einhver leikari sem fer í taugarnar á ÞÉR þá eru aðrir sem fíla viðkomandi. Hvernig væri nú ef þú hugsaðir aðeins betur hvað þú ert að fara skrifa áður en þú “postar” því inn á bloggsíðuna”
Þetta finnst mér skrýtnast af öllu. Maður má semsagt ekki skrifa það sem manni finnst af því að “kannski finnst öðrum þetta skemmtilegt”. Auðvitað er þetta bara mín skoðun, ekki skoðun allra í heiminum. Ég hefði haldið að fólk mundi fatta það, en nei, greinilega ekki. Hérna
er smá hint um hvernig má þekkja í sundur hvað er bara mín skoðun og hvað er algildur sannleikur: Ef þið eruð að lesa færslu sem er skrifuð af mér, á minni bloggsíðu, með nafninu mínu undir, þá er það bara mín skoðun!
Og í lokin, uppáhalds kommentið mitt:
“Sem þíðir að þú ert ekki rosalega gáfaður og ég myndi bara hætta að blogga og hætta að tjá þig ef ég væri þú.NIÐUR MEÐ LÁGMENNINGU!! *kapla*”
Alltaf gaman þegar einhver er að segja manni að maður sé ekki gáfaður og endar svo kommentið á að skrifa *kapla*, það ber vott um himinháa greindarvísitölu. Já, við skulum öll kapla saman lófunum fyrir því hvað þetta var gott komment og hvað hann sagði mér vel til syndanna! *kapl* Hver veit, við gætum jafnvel staplað niður fótunum líka! *stapl*
[Athugið að það er bara mín skoðun að þetta hafi verið gott komment. Öðru fólki gæti þótt þetta komment vera lélegt, sæmilegt eða ágætt og þeirra skoðun á alveg jafn mikinn rétt á sér og mín. Þetta er allt afstætt. [Athugið að það er bara mín skoðun að þetta sé allt afstætt. Öðru fólki … o.s.fv.]]
Bíóvísitala
Ætlaði á Johnny Cash myndina um daginn en þá var Gísli búinn að sjá hana þannig að við ákváðum að finna eitthvað annað. Þegar ég skoðaði bíóauglýsingarnar þá var ekkert nema krapp þar og svo King Kong. Þá fór ég að pæla að það væri nú gott að hafa svona bíóvísitölu sem segði manni hvort það væri mikið af góðu stöffi í bíó. Þá væri einhver grunntala í vísitölunni, t.d. 500 og svo færi hún hækkandi eða lækkandi miðað við hvernig myndir væru í bíó á hverjum tíma. Það væru þá ákveðnir hlutir í myndunum sem gætu haft áhrif á vísitöluna, t.d.:
- Meryl Streep, Sally Field, Madonna, Julia Roberts: -40 stig hver
- Samkynhneigðir kúrekar: -20 stig
- Vélmenni: +10 stig
- Geimverur: +10 stig
- Zombies: +30 stig
- Geimverur sem taka yfir fólk og fara að stjórna því: +15 stig
- Eitthvað sem hefur “Fast” og/eða “Furious” í nafninu: -20 stig
- Ofbeldi: +10
- Risavaxin górilla: +30 stig
- Búningamynd: -30 stig
- Hryllingsmynd: +20 stig
- Johnny Cash: +15 stig
- Vin Diesel: -20 stig
- Framhaldsmynd: (númer myndar * -10 stig)
- Fjölskyldumynd: -5 stig
- Einstæð móðir sem er hetja: -10 stig
- Steve Buscemi: +30 stig
- Disney: +5 stig
- Endurgerð: -5 stig
- Mafían: +15 stig
- Börn: -10 stig
- Gamalt fólk: -20 stig (nema ef gamlir vitrir karatemeistarar, þá +30)
- Drama: -10 stig
- Lengri en 2 og hálfur tími: -5 stig
- Ástarsaga: -10 stig
- James Bond: -5 stig
- Fólk í fitubúningum: -30 stig
- Chuck Norris: +400 stig
- Karlar í konufötum: -30 stig
- Steve Martin: -20 stig
- Ævintýramynd: +5
- Steven Spielberg: +10
- Ofurhetjur: +10 stig (+50 ef Batman)
- …og eitthvað fleira
Þannig ef að við tækjum t.d. vísitöluna miðað við nokkrar myndir núna:
- Casanova (-30 búningamynd, -10 ástarsaga) = -40
- Final Destination 3 (+20 hryllingsmynd, 3 * -10 framhaldsmynd) = -10
- Bambi 2 (+5 Disney, 2 * -10 framhaldsmynd) = -15
- North Country (-10 einstæð móðir, -10 drama) = -20
- Munich (+10 Steven Spielberg, -10 drama) = 0
- Pride and Prejudice (-30 búningamynd, -10 ástarsaga) = -40
- King Kong (+30 risagórilla, +10 ofbeldi, -5 lengri en 2,5 klst) = +35
- Chronicles of Narnia (+5 ævintýramynd, -10 börn, -5 fjölskyldumynd) = -10
- Cheaper by the Dozen 2 (2 * -10 framhaldsmynd, -5 fjölskyldumynd, -20 Steve Martin) = -45
- The Fog (+20 hryllingsmynd, -5 Endurgerð ) = +15
- Brokeback Mountain (-20 samkynhneigðir kúrekar, -10 ástarsaga, -10 drama) = -40
- Memoirs of a Geisha (-10 drama, -30 búningamynd) = -40
-40 – 10 – 15 -20 + 0 -40 + 35 – 10 – 45 + 15 – 40 – 40 = -210
500 – 210 = 290
Bíóvísitalan er semsagt núna 290 og er í sögulegu lágmarki => Núna er augljóslega ekki góður tími til að fara í bíó!
Meira rapp í Eurovision
Er að horfa á úrslitakeppnina í Eurovision. Sá aftur uppáhalds lagið mitt, Eitt lag enn með rappkafla (Video hér). Áður en það byrjaði var talað við fólkið sem syngur, rapparinn sjálfur var mjög ánægður með lagið þeirra:
“Loksins komið rapp í Eurovision!”
Já, loksins, við höfum öll verið að bíða eftir þessu.
“2006, loksins er það komið!”
Jamm, þú veist hvaða ár er.
“Swing og rapp, það er fínt saman!”
Já, stórkostlegt!!
En síðan var enn meiri gleði, hann var ekki bara einn að rappa, nei, núna var hann kominn með kærustuna sína sem rappaði líka! Tvöfalt meira rapp! Ég spái því að þetta lag fari alla leið!
Dick Cheney
Dick Cheney skaut óvart 78 ára gamlan veiðifélaga sinn. Daily Show gerir grín að því hér.
Ironic
Heyrði lagið Ironic með Alanis Morrissette í útvarpinu áðan. Minnti mig á þegar ég heyrði einhvern grínista vera að gera grín að því:
“That song, Ironic, by Alanis Morrissette. I don’t think she really knows what irony means. I mean, ‘10.000 spoons when all you need is a knife‘? That’s not ironic, that’s just stupid! Who has 10.000 spoons? Or ‘It’s like raaaaaaain, on your wedding day‘. That’s not ironic, that’s just bad luck! Unless you’re marrying a weatherman…”
Gæðablaðamennska
Var í 10-11 áðan. Sá þá á forsíðunni á DV strák sem ég kannaðist við einu sinni og fyrirsögn um að hann hefði verið laminn og legið rænulaus í götunni. Kíkti í blaðið og las greinina. Það var alveg rétt sem stóð framan á, hann hafði verið laminn, var meðvitundarlaus og lá í götunni… …FYRIR MÖRGUM ÁRUM!! Jamm, þá reyndist fréttin vera um hvaða götuhorn í Reykjavík væri hættulegast og flestir verið lamdir og hann var bara tekinn sem dæmi. Þetta er auðvitað snilldar blaðamennska, endurnýta bara fréttir ef það vantar eitthvað á forsíðu! Ég sé fyrir mér næst þegar vantar eitthvað á forsíðuna:
MANNSHVÖRF! TVEIR MENN TÝNDIR!
Og svo þegar les sjálfa fréttina þá byrjar hún á “2 menn, Guðmundur og Geirfinnur, hurfu fyrir 25 árum…”.
Rapp í Eurovision
Jæja, búinn að horfa á síðasta Eurovision undanþáttinn. Silvía Nótt var kúl og komst áfram, Öggi bróðir Unnar líka. Hinsvegar komst líka lagið eftir gaurinn sem samdi Eitt lag enn áfram. Alltaf þegar ég hlusta á Eitt lag enn (sem ég geri oft!) þá hugsa ég “þetta er nú gott lag, en það væri ennþá betra ef það kæmi allt í einu rappkafli inní miðju laginu!”. Þetta er greinilega það sama og höfundurinn hefur verið að hugsa því nýja lagið er svona frekar svipað Eitt lag enn, svona swing lag, en svo allt í einu í miðju laginu, algjörlega útúr kú, kemur einhver gaur inná sviðið og fer að rappa! Svo þegar rappkaflinn ógurlegi er búinn þá heldur lagið áfram. Þetta lag komst semsagt áfram í úrslitin, kosið áfram af einhverju mjög smekklausu fólki, eflaust sama fólki og finnst karlar í konufötum fyndnir í könnuninni hér til hliðar. Svo komst Birgitta Haukdal áfram og eitthvað eitt enn. Sá ekki hvað komst áfram í hinum undanþáttunum en er nokkuð viss um að Sylvía Nótt á eftir að taka þetta á úrslitakvöldinu 🙂
The IT Crowd
Mæli með The IT Crowd. Nýjir breskir þættir um tvo fávita sem vinna í tölvudeild fyrirtækis. Sýnt á Channel 4 í bretlandi og hægt að horfa á ókeypis á netinu. Eftir sama höfund og Black Books sem voru líka snilldarþættir.