Monthly Archives: December 2005

Fjöldamorðingi

Var að horfa á auglýsingar í sjónvarpinu áðan. Þá kom auglýsing um nýja íslenska spennusögu:

“Afturelding”

“Fjöldamorðingi er laus. Fórnarlömb hans eru…

…GÆSAVEIÐIMENN!”

Ég er ekki viss af hverju mér finnst svona fyndið að fjöldamorðingi sé að eltast við gæsaveiðimenn, en mér finnst það a.m.k. mjög fyndið. Svo kom mynd af einhverjum svona gæsaveiðitöffara í lopapeysu með derhúfu að góna útí loftið og svo var hann skotinn. Örugglega snilldar bók!

Ariston ísskápur

Í þessu bloggi talaði ég um að a.m.k. 3 hefðu komið inná síðuna mína frá google þar sem þeir hefðu verið að leita að orðinu ísskápur og ég var að pæla í hvort ég gæti fengið fleiri ef ég skrifaði ísskápur oftar. Nú prófaði ég að slá inn Ariston ísskápur inní Google og ég er fyrsta niðurstaðan! Og ekki bara fyrsta, heldur líka númer 6 og 7! Nú sé ég framá að geta bara fengið Ariston til að sponsora mig, sett risastóran auglýsingalink til Ariston á síðuna mína, grætt fullt af auglýsingapeningum og hætt að vinna. Spurning hvort maður ætti að skrifa inn fleiri orð til að lokka fólk hérna inn?

Í öðrum ótengdum fréttum má geta þess að ég og Karen vorum að kaupa okkur nýja Electrolux eldavél. Þessi Electrolux eldavél er mjög fín, með keramikhelluborði og öllu. Electrolux eldavélin er búin að reynast vel fyrstu dagana og við treystum á að Electrolux eldavélin haldi áfram að reynast vel!

Jólahlaðborð

Við fórum á jólahlaðborð Libra í gær. Fyrst var fordrykkur heima hjá Þórði og svo var farið á Thorvaldssen þar sem við vorum í sér sal og fengum önd, lambakjöt og einhvern íseftirrétt. Fínn matur og mikið fjör.

Það sem var svo mesta snilldin var jólapakkaleikurinn ógurlegi, Yankee swap. Þetta er leikur sem gengur útá að allir koma með ómerktan pakka, eitthvað sem kostar svona 2000-2500 kr. Svo eru númer frá 1 – n og allir draga númer. Sá sem fær númerið 1 fær fyrstur að velja sér pakka og opnar hann fyrir framan alla hina. Svo kemur sá sem fékk númerið 2 en hann má annaðhvort velja sér pakka eða stela gjöfinni af númer 1. Ef hann stelur þá verður nr. 1 að velja aðra gjöf úr hrúgunni. Svo gengur þetta svona koll af kolli og þegar komið er að þeim síðasta getur hann valið síðasta pakkann eða stolið af hverjum sem er. Þetta var mikið stuð, fyrstu nokkrir völdu pakka, svo kom að okkur og þá stal ég kassa með 2 bjórum og Mugison disk frá Þóri en seinna stal Óli því aftur af okkur. Enduðum uppi með kaffisett, sem var með 2 bollum, undirskálum og kaffipakka, mjög fínt bara. Hrannar fékk viðbjóðslega ljótan fiskiplatta sem gekk víst í 5 ár milli manna í vinnunni hjá Jared sem kynnti okkur fyrir þessum leik, Finnur stal startköplum af framkvæmdastjóranum og bjórarnir sem Óli stal af mér voru teknir af honum því það mátti ekki opna þá inná Thorvaldssen, hah!