Daníel fékk lítið tuskudýr gefið frá langömmu sinni um helgina, litla kind. Hún hefur verið skírð Kindin Einar.
Monthly Archives: October 2005
Gamalt sjónvarpsefni getraun
Jæja, þá er kominn tími á nýja getraun. Nenni ekki að hafa aðra kvikmyndagetraun þannig að í staðinn kemur nostalgíusjónvarpsþáttagetraun. (Gott scrabble orð!). Þetta eru semsagt myndir af 7 sjónvarpsþáttum sem ég horfði á þegar ég var yngri. Sá sem verður með flest nöfn rétt fær dós af jólaöli í vinning. Rétt svör verða birt kl. 12:00 á mánudaginn.
Hvað er að gerast?
Alda systir heimtar að ég skrifi eitthvað hérna. Mér dettur reyndar ekkert í hug til að skrifa um þessa dagana þannig að ég bjó til lista yfir það sem hefur verið að gerast síðasta mánuðinn. (Já mér finnst listar góðir. Ég er einhverfur)
- Er farinn að leysa Sudoku þrautirnar í Fréttablaðinu, sem by the way eru svipað ávanabindandi og að reykja krakk! Síðan þegar maður var orðinn vanur því þá kom Blaðið allt í einu með Samurai gátu sem er 5 Sudoku þrautir fastar saman. Fimmfalt krakk!
- Byrjaður að vinna hjá TM Software. Veit ekki hversu mikið ég má segja um hvað ég er að vinna við hérna en ég held að það sé óhætt að segja að þetta er kerfi sem heitir [ritskoðað]sem gerir manni kleift að [ritskoðað] á miklu einfaldari hátt en [ritskoðað]. Það sem ég er aðallega að vinna við í kerfinu er [ritskoðað] sem er ansi spennandi því það notar tækni sem kallast [ritskoðað] sem hægt er að [ritskoðað] og [ritskoðað].
- Erum flutt úr íbúðinni á Guðrúnargötunni (sem var svo lítil að mýsnar voru með kryppu) yfir í íbúðina hjá tengdapabba í Neðstaleiti (sem er svo stór að mýsnar… eh… eru beinar í baki?) Ok, skelfilegur brandari! En já, þetta er a.m.k. miklu betri íbúð og við verðum hérna þar til við finnum okkur nýja íbúð til að kaupa. Erum í því að ganga frá Guðrúnargötunni núna og ætlum að reyna að selja hana sem fyrst. Ef einhvern langar að kaupa íbúð þá bara láta mig vita 🙂
- Er hættur að skokka. Skokk er fyrir plebba.
- Byrjaður og hættur í nýju líkamsræktarátaki sem gekk útá að hlaupa upp 8 hæðir uppí matsal á hverjum degi. Það entist í tvo daga.
- Erum búin að fá okkur nýtt rúm sem mamma og pabbi gáfu okkur í brúðkaupsgjöf. Gamla rúmið okkar var svo mjótt að við urðum að liggja uppá rönd í því en nýja rúmið er aftur á móti álíka stórt að flatarmáli og íbúðin okkar í Guðrúnargötunni (sem var svo lítil að mýsn… hafiði heyrt þennan áður?). Það er a.m.k. mjög stórt, sem veitir ekki af ef ég fer ekki að drífa mig í nýtt líkamsræktarátak!
Svo er náttúrulega fullt að frétta af Daníel en það má lesa um það á síðunni hans.
Kommentakerfi komið aftur í gang
Jæja, kommentadótið komið í gang aftur þannig að þið getið farið að kommenta eins og brjálæðingar. Eða ekki.
Skólaserver
Jæja, síðan komin aftur á skólaserverinn. Hverjum hefði getað dottið í hug að það væri
slæm hugmynd að geyma síðuna mína á 6 ára gamalli, bilaðri tölvu heima hjá mömmu og
pabba? Er enn að koma henni í lag, get ekki skrifað inná hana fyrr en ég er búinn að laga
eitthvað permission crap í skólanum og það er ekki heldur hægt að kommenta þannig að ekki búast við að sjá mikið nýtt hérna strax. Síðan hans Daníels er hinsvegar í
fínu lagi þannig að þið getið kíkt þangað.