Menningarnótt í gær. Við fórum í bæinn um kvöldið með Daníel í vagninum sínum. Ætluðum að sjá Bítl sem var fyrir framan Landsbankann en komumst að því að það er meira en að segja það að reyna að komast gegnum mannþröng með barnavagn. Í Austurstrætinu var mesti troðningurinn af öllum, við reyndum að troðast þarna inn á milli, keyrðum yfir nokkrar gamlar konur og börn áður en við urðum að játa okkur sigruð þegar við vorum orðin pikkföst þarna og gátum hvorki hreyft okkur afturábak né áfram. Eftir það reyndum við að halda okkur á svæðum þar sem var ekki alveg svona mikið af fólki. Fórum í kolaportið að heilsa uppá Láru og fá okkur kaffi og svona. Hittum eitthvað fólk sem Karen þekkti og hún kynnti mig sem “manninn sinn” sem var mjög skrýtið!
Kíktum svo á stóra sviðið hjá höfninni og komum þar í mitt show-ið hjá Í svörtum fötum. Jónsi tók þá gáfulegu ákvörðun að sleppa því bara að syngja og reyna að láta áhorfendurna syngja sem mest en hann ofmat aðeins hversu vel fólk kann textana hans. Lokalagið hjá þeim var lagið “Nakinn”. Svona er textinn í viðlaginu:
Þú
Ég vil vera eins og þú
Því ég
Ég er nakinn eins og þú
Svona er það sem við fengum að heyra í gær:
Þú ALLIR SYNGJA!! [algjör þögn]
ÉG vil KOMA SVO!! [algjör þögn]
Því ALLIR SAMAN!! [einn maður að hósta, annars algjör þögn]
Ég er SYNGJA MEÐ!! [algjör þögn]
Svo reif hann sig úr bolnum í miðju lagi og var ber að ofan. Ég þori að veðja að hann hefur samið þennan texta sérstaklega til að fá tækifæri til að strippa soldið í hverjum tónleikum.
Eftir þetta voru KK og Maggi Eiríks sem voru fínir og svo Todmobile sem var líka fínt. Endaði svo á flugeldasýningu Orkuveitunnar sem var mjög flott og hefur sennilega hækkað rafmagnsreikninginn okkar um svona 500 kall. Svo kom brjáluð rigning á leiðinni heim, en fyrir utan það var þetta fínasta menningarnótt :).
Einar minn… ertu með svona mikla minnimáttarkennt gagnvart flottum kroppum upp á sviði sem taka uppá því að fækka fötum í rífandi roki og kulda? Sé þig ekki alveg fyrir mér að vera að kvarta ef þetta hefði verið t.d. Birgitta Haukdal…
😀
God Karen svona eru thessir “kallar” noldra og kvarta ef gaejarnir strippa en slefa ef gellurnar rifa af ser fotin.;)