Monthly Archives: August 2005

Spiderman rúmteppi og Aristion ísskápar

Er ennþá að leika mér í Python. Prófaði að skrifa smá script sem grefur sig í gegnum loggana á vefþjóninum hjá mér og finnur færslur þar sem fólk hefur komið hingað frá leitarvélunum google, altavista, yahoo og leit.is. Úr því er svo hægt að parsa hvaða leitarorð fólk sló inn sem beindi því hingað. Það sem fólk hefur verið að leita að er eftirfarandi:

binary klukka

nylon

“sódóma”

einar

einar á pravda

smáís

“extreme robot fighting”

kaffibarinn djamma

The real ultimate power

“Jóns Gnarr”

marorka

vefþjónustur á íslandi

gestaþrautir

spiderman rúmteppi

veldi í perl

stærðfræðileg reiknirit

Ariston ísskáp

dns lookup

Einar “extreme robot fighting”

lagadeild HR

Ísskápur til sölu

keyra video download

“Bill Hicks”

“ariston ísskápur”

smáís

einarte02 conventional

“Daníel Máni Einarsson

singles

klukka

“Calvin and Hobbes”

todmobile á menningarnótt

Gaman að sjá að ég virðist vera sérfræðingur um Nylon, vefþjónustur á Íslandi og Spiderman rúmteppi. Ég man reyndar ekki til þess að hafa nokkurn tímann skrifað orðið “rúmteppi” hérna þó að ég hafi nú skrifað eitthvað um Spiderman. Það sem fólk er samt oftast að leita að sem leiðir það hingað eru ísskápar, Ariston ísskápar nánar tiltekið. Með því að skrifa þessu færslu er ég svo sennilega að komast ennþá hærra í leitarniðurstöðum fyrir “ísskápur” þar sem orðið ísskápur kemur svona 10 sinnum fyrir í þessari færslu ísskápur ísskápur. Nú er bara að fylgjast með hvort fleiri fróðleiksþyrstir menn sem langar að fræðast um ísskápa komi hérna inn á næstunni ísskápur ísskápur ísskápur.

Menningarnótt

Menningarnótt í gær. Við fórum í bæinn um kvöldið með Daníel í vagninum sínum. Ætluðum að sjá Bítl sem var fyrir framan Landsbankann en komumst að því að það er meira en að segja það að reyna að komast gegnum mannþröng með barnavagn. Í Austurstrætinu var mesti troðningurinn af öllum, við reyndum að troðast þarna inn á milli, keyrðum yfir nokkrar gamlar konur og börn áður en við urðum að játa okkur sigruð þegar við vorum orðin pikkföst þarna og gátum hvorki hreyft okkur afturábak né áfram. Eftir það reyndum við að halda okkur á svæðum þar sem var ekki alveg svona mikið af fólki. Fórum í kolaportið að heilsa uppá Láru og fá okkur kaffi og svona. Hittum eitthvað fólk sem Karen þekkti og hún kynnti mig sem “manninn sinn” sem var mjög skrýtið!

Kíktum svo á stóra sviðið hjá höfninni og komum þar í mitt show-ið hjá Í svörtum fötum. Jónsi tók þá gáfulegu ákvörðun að sleppa því bara að syngja og reyna að láta áhorfendurna syngja sem mest en hann ofmat aðeins hversu vel fólk kann textana hans. Lokalagið hjá þeim var lagið “Nakinn”. Svona er textinn í viðlaginu:

Þú

Ég vil vera eins og þú

Því ég

Ég er nakinn eins og þú

Svona er það sem við fengum að heyra í gær:

Þú ALLIR SYNGJA!! [algjör þögn]

ÉG vil KOMA SVO!! [algjör þögn]

Því ALLIR SAMAN!! [einn maður að hósta, annars algjör þögn]

Ég er SYNGJA MEÐ!! [algjör þögn]

Svo reif hann sig úr bolnum í miðju lagi og var ber að ofan. Ég þori að veðja að hann hefur samið þennan texta sérstaklega til að fá tækifæri til að strippa soldið í hverjum tónleikum.

Eftir þetta voru KK og Maggi Eiríks sem voru fínir og svo Todmobile sem var líka fínt. Endaði svo á flugeldasýningu Orkuveitunnar sem var mjög flott og hefur sennilega hækkað rafmagnsreikninginn okkar um svona 500 kall. Svo kom brjáluð rigning á leiðinni heim, en fyrir utan það var þetta fínasta menningarnótt :).

Python + Linux

Hef verið að leika mér í Python undanfarið, fann fína bók á netinu, diveintopython.org. Snilldarmál, Kári forritunarmálakennari hafði rétt fyrir sér. Helmingi skemmtilegra en .NET eða Java. Nú er bara að sannfæra Libra um að skrifa allan sinn hugbúnað í Python…

Var líka að setja upp Linux í fjórða skiptið hjá mér. Ubuntu varð fyrir valinu í þetta skiptið. Lítur vel út, get notað sama profile í Firefox og Thunderbird í Win og Linux þannig að það er auðvelt að nota það samhliða hvort öðru. Það eina sem fer í taugarnar á mér við Linux er að fontar líta oft út eins og krapp! Ef maður setur Anti-Aliasing á þá verður allt smudgy og ljótt en ef maður tekur það af þá líta allir stafir ótrúlega illa út. Ef einhver linux snillingur gæti sagt mér hvernig maður lagar þetta þá væri það vel þegið.

Batman Begins

Batman Begins logo
Fór á Batman Begins í gær. Snilldarmynd, jafnast á við Tim Burton Batman myndirnar og skrilljón sinnum betri en Batman Forever og Batman and Robin. Það eina glataða var að við sáum hana í sal 4 í Háskólabíó þar sem eru alltaf einhverjar truflanir, þegar ég sá The Incredibles þar þá voru hljóðtruflanir allan tímann og núna var gul lína lóðrétt yfir skjáinn svona helminginn af myndinni. Háskólabíó er drasl!

Gifting og skírn!

Jæja, þá er maður orðinn giftur maður. Þetta á eftir að verða svakalega langt blogg þannig að fyrir þá sem vilja stuttu útgáfuna þá er hún svona: Giftumst, skírðum Daníel Mána, fórum á Laugarvatn í viku. Langa útgáfan kemur hér á eftir:

ÆfinginÁ föstudeginum fórum við á æfingu í kirkjunni til að þetta væri nú allt á hreinu og allir mundu segja rétta hluti á réttum stöðum. Presturinn okkar, Helga Soffía, rauk í gegnum þetta með okkur á nokkrum mínútum, “…svo standiði upp, snúið ykkur hingað, krjúpið, segið já, labbið, farið til hægri, standið á einum fæti, labbið út.” Eftir þetta var ég viss um að ég myndi einhvernveginn klúðra þessu á sjálfan daginn með því að snúa í vitlausa átt eða giftast óvart vitlausri manneskju. Vorum svo fram á kvöld í salnum að ganga frá skreytingum og fleiru og fórum síðan heim að hlýða hvort öðru yfir skírnarsálma svo við gætum nú sungið með í skírninni hans Daníels því við gátum að sjálfsögðu ekki verið með blöð með okkur upp við altarið.

Svo rann stóri dagurinn upp. Fyrir hádegi var ég á fullu að redda dóti á síðustu stundu, ná í vönd og barmblóm og alveg að DEYJA ÚR STRESSI!! Karen fór fyrst í greiðslu og förðun um morguninn og klæddi sig hjá Tómasi bróður sínum en ég fór til mömmu og pabba að klæða mig. Þar var ég sannfærður um að við værum að verða of sein og rak mömmu og pabba áfram með harðri hendi. Það sem ég vissi hinsvegar ekki er að af einhverjum ástæðum eru allar klukkur heima hjá þeim korteri of fljótar þannig að við vorum komin í kirkjuna svona hálftíma á undan áætlun. Þar hafði ég tækifæri til að verða ennþá stressaðri og gekk um gólf eins og óður maður meðan mamma og pabbi fylgdust glottandi með.

Kl. 1 fórum svo ég og pabbi upp á altari og settumst í stóla sem þar eru. Við áttum að bíða þar þangað til athöfnin byrjaði og standa upp og hneigja okkur fyrir fólki þegar það kom inn. Eftir að hafa setið þar og talað við pabba í hálftíma var ég nú bara orðinn mjög rólegur og fínn og beið spenntur eftir að sjá Karen ganga inn gólfið. Klukkan varð hálf 2 og ég hélt áfram að bíða. Þá kom kirkjuvörðurinn upp til okkar og tilkynnti mér að Karen hefði gleymt brúðarvendinum heima hjá bróður sínum og að hann væri að ná í vöndinn þannig að ég beið rólegur áfram. Nokkrum mínutum síðar byrjaði svo brúðarmarsinn og Karen gekk inn gólfið með pabba sínum. Karen var Ég og Karenstórglæsileg og ég stóð þarna og fylgdist með henni ganga til mín og var alveg hættur að vera stressaður. Hjónavígslan var á undan skírninni og gekk mjög vel, mér tókst að komast í gegnum þetta án þess að klúðra neinu. Þegar hún var búin kom svo Anna María með Daníel og lét Karen fá hann og hún hélt á honum undir skírn. Hann stóð sig eins og hetja, var aðeins pirraður þegar hann fékk vatnið á hausinn en var annars mjög góður. Eftir það var sunginn einn sálmur og svo gengum við út. Á kirkjutröppunum stóðu svo allir gestirnir og blésu sápukúlum yfir okkur meðan við gengum niður tröppurnar.

Tómas var bílstjórinn okkar og keyrði okkur í myndatöku í Elliðaárdalnum og Anna María kom á eftir með Daníel Mána. Það var skýjað en engin rigning þannig að það var fínt veður fyrir myndatöku. Það voru teknar fullt af myndum af okkur labbandi þarna um og sitjandi í grasinu og svona. Í lokin ætlaði ljósmyndarinn svo að taka mynd af okkur labbandi rólega yfir brú sem er þarna en þá vildi svo skemmtilega til að slörið hennar Karenar fauk beint útí á. EINAR!! NÁÐU SLÖRINU!! FARÐU ÚTÍ Á!! ÞAÐ ERU STEINAR ÞARNA!! NÁÐU Í SLÖRIÐ!!! EINAAAAAAR!! FARÐU ÚTÍÍÍÍÍÍÍ!!!!! Karen tók þessu af mikilli rósemd. Ég var ekki alveg viss hvort ég ætti nú að fara að stinga mér til sunds í sparifötunum en fór að lokum niður að ánni en þá var slörið farið. En ljósmyndarinn okkar, sem er mikill snillingur, hljóp niður með ánni og tókst að ná því á einhverjum steinum þarna lengra niður frá. Mæli eindregið með þessum ljósmyndara, hægt að sjá verk hans á ljosmyndastofan.is. Slörið var grænt og fínt eftir þetta þannig að það var ekki notað meira.

Við háborðiðEftir myndatökuna var svo farið í salinn þar sem gestirnir biðu eftir okkur. Veislan var frábær, góður matur og allir í góðu stuði. Alda systir var veislustjóri og stóð sig með prýði. Hún var með spurningaleik um okkur þar sem borðin kepptu sín á milli og svöruðu misgáfulegum spurningum einsog “hvort myndi vinna hitt í Super Mario Bros?” og “hvar kynntust Karen og Einar?”. Pabbi, Tómas og vinkonur Karenar héldu ræður þar sem ýmislegt var rifjað upp, t.d. þegar ég og Karen veðjuðum um hvort það mundi snjóa meira í vor og ég tapaði og þurfti að ná nakinn í fréttablaðið og Karen læsti mig úti. Ingibjörg og Borgar frændsystkini Karenar tóku svo lagið fyrir okkur og spiluðu mjög skemmtilegt lag sem við vorum með á heilanum restina af vikunni. Síðan bað Alda gestina um að skrifa heilræði og kveðjur handa okkur aftan á nafnspjöldin á borðunum og fengum við ýmis góð ráð þar. Það allra mikilvægasta fyrir gott hjónaband virðist vera að fara ekki ósátt að sofa, a.m.k. 5 manns skrifuðu það. Einnig virðist vera afar mikilvægt að lifa ekki í krukku, greinilega mörg hjónabönd sem hafa farið illa á því.

Eftir veisluna rukum við svo útúr bænum beint í námsmannaíbúðir BÍSN á Laugarvatni. Þar beið okkar dýrindis karfa með ostum, kampavíni og fleiru sem fjölskyldan hafði látið koma þar fyrir. Vorum þar út vikuna, slöppuðum af og höfðum það mjög gott. Komum svo heim í gær og byrjuðum að taka upp brúðkaups og skírnargjafir. Fengum ótrúlega mikið af fallegum hlutum sem munu nýtast vel og viljum þakka öllum vinum og fjölskyldu kærlega fyrir okkur og strákinn :).