Hvernig á að vera töff í líkamsrækt

Líkamsræktarátakið er hafið! Þrátt fyrir góðar tillögur í kommentakerfinu þá urðu hvorki Líkami fyrir lífið né amfetamínsterar fyrir valinu. Nei, ég ákvað að skokka frekar í kringum Miklatún enda fátt hollara en að hlaupa á meðan maður andar að sér útblæstrinum frá 1000 bílum á Miklubrautinni. Eins og alþjóð veit þá er ég mjög kúl maður en skokk er afturámóti eitthvað það allra plebbalegasta sem maður getur mögulega gert. En með ákveðnum aðferðum er hægt að skokka og halda samt kúlinu. Svona er það gert:

  • Ekki ganga í níðþröngum glansbuxum eins og skokkarar gera oft. Ég vill ekki heyra neitt rugl um vindmótstöðu, svona glansbuxur eru algjörlega bannaðar ef maður vill vera töff skokkari.
  • Ekki vera með bjánaleg sólgleraugu.
  • Þegar ég mæti fólki á leiðinni kringum Miklatún hrópa ég á það að fyrra bragði “ÉG ER AÐ MISSA AF STRÆTÓ!!” svo það fatti ekki að ég sé úti að skokka. Ég sé samt fyrir mér að þetta gæti hætt að virka jafn vel þegar ég verð kominn með nógu gott þol til að skokka fleiri en einn hring og fer að mæta sama fólkinu tvisvar. Ég efast um að neinn trúi því að ég sé að hlaupa tvo hringi kringum Miklatún til að ná strætó. Ég gæti kannski fundið aðrar setningar til að hafa fjölbreytni í þessu, t.d. “ÉG ER ELTUR AF GLÆPAMÖNNUM” eða “ÉG ER AÐ MISSA AF ÞÆTTI Í SJÓNVARPINU”.
  • Teygjuæfingar upp við ljósastaura eru algjörlega bannaðar.
  • Ef þú vilt stoppa og fá þér hressingu þá skal það vera kók og súkkulaði. Ekki neitt powerbar og prótínsjeik drasl!
  • Ekki vera í neins konar íþróttagalla. Best er að vera í gallabuxum til að villa um fyrir fólki og kannski skyrtu eða leðurjakka.
  • Ekki hlusta á neina eróbikk-hressa viðbjóðstónlist. Öll tónlist sem maður hlustar á meðan maður skokkar ætti að vera samin af útlifuðum heróínsjúkum rokkstjörnum.
  • Ekki vera í sérstökum hlaupaskóm. Þeir eru allir risastórir og litskrúðugir og fólk sér strax að þú ert skokkari. Ef það er eitthvað “air” í nafninu á skónum þá eru þeir bannaðir.

Í næstu viku: Hvernig á að fara í líkamsræktarstöðvar án þess að fólk fatti að maður sé að æfa.

1 thought on “Hvernig á að vera töff í líkamsrækt

  1. dagbjört

    hæ hæ !
    Heyrðu ég sá að þú varst í vandamálum með bbs-ið. þar sem við Tinna erum að vinna í skólanum, þá getur þú bara fengið að kíkja á okkur við tækifæri, við skulum hleypa þér inn 🙂

Comments are closed.