Strákarnir steggjuðu mig í gær. Ég átti ekki von á neinu þegar þeir komu um 2 leytið í gær með fullan bíl af bjór og rifu mig með sér. Karen þóttist ekkert vita en samt var á einhvern dularfullan hátt tilbúin taska með öllu sem ég þurfti. Við byrjuðum á því að fara á Klepp, ekki til að leggja mig inn heldur til að ná í Gísla sem vinnur þar og svo var keyrt af stað útúr bænum. Enduðum á Stokkseyri þar sem við fórum í kajakaferð sem var algjör snilld! Fyrri parturinn var auðveldur þar sem við vorum að sigla undan vindi en leiðin til baka var ansi miklu erfiðari. Vorum að rembast við að róa á móti vindi og ef maður tók sér 10 sekúndna pásu þá rak kajakinn aftur á bak þannig að maður þurfti 5 mínútna róður til að vinna upp pásuna. Eftir kajakaferðina fórum við svo í sundlaugina á Stokkseyri þar sem við lágum heillengi í heitapottinum að jafna okkur eftir allan róðurinn.
Keyrðum svo aftur í bæinn og heim til Friðriks þar sem við grilluðum risastórar nautasteikur og kartöflur og fengum okkur fullt af bjór. Svo var farið í keiluhöllina þar sem við tókum 2 leiki og strákarnir fengu sér bjór en ég var neyddur til að drekka eitthvað ofuráfengt sull til að reyna að eyðileggja meðfædda keiluhæfileika mína! Eftir það fór ég í spilakassann þar sem maður reynir að grípa svona dúkkur og drasl með einhverjum armi og aðeins 800kr síðar var ég búinn að ná í glæsilega Spongebob Squarepants dúkku handa Daníel! Eftir keiluhöllina fórum við svo niðrí bæ á eðalstaðinn Dillon þar sem er alltaf góð tónlist og vorum þar að drekka bjór í góðum fíling þangað til við fórum heim. Semsagt, snilldardagur :):).
Líkamsræktarátakið er ennþá í fullum gangi og gengur vel. Er farinn að geta hlaupið meira en einn hring kringum Miklatún og er hættur að fá harðsperrur eftir að ég fór að gera nóg af teygjuæfingum fyrir og eftir skokkið (þó ég geri þær að sjálfsögðu ekki upp við ljósastaura, heldur heima hjá mér, með dregið fyrir, inní skáp). Ég er líka búinn að minnka nammiátið niður í tvisvar í viku, þannig að nú borða ég bara nammi á virkum dögum og um helgar. Karen benti mér á að það eina sem mig vantaði núna væru góðar tröppur til að hlaupa upp þegar ég væri að klára skokkið, eins og Rocky gerði alltaf. Þetta finnst mér snilldarhugmynd sem mundi gera skokkið a.m.k. 200% meira töff! Það eru reyndar tröppur hjá húsinu mínu en þær eru u.þ.b. 5 talsins og liggja niður þannig að það er enginn rosalegur hápunktur á skokkinu að hlaupa þær. Karen sagði mér að hlaupa til Akureyrar því þar væru fínar tröppur fyrir mig en þar sem það er víst fulllangt í burtu þá auglýsi ég hér með eftir góðum tröppum hér í Reykjavík til að hlaupa upp. Og já, ef einhver á theme-ið úr Rocky á mp3 þá væri það vel þegið 🙂