Monthly Archives: July 2005

Steggjun

Steggur Strákarnir steggjuðu mig í gær. Ég átti ekki von á neinu þegar þeir komu um 2 leytið í gær með fullan bíl af bjór og rifu mig með sér. Karen þóttist ekkert vita en samt var á einhvern dularfullan hátt tilbúin taska með öllu sem ég þurfti. Við byrjuðum á því að fara á Klepp, ekki til að leggja mig inn heldur til að ná í Gísla sem vinnur þar og svo var keyrt af stað útúr bænum. Enduðum á Stokkseyri þar sem við fórum í kajakaferð sem var algjör snilld! Fyrri parturinn var auðveldur þar sem við vorum að sigla undan vindi en leiðin til baka var ansi miklu erfiðari. Vorum að rembast við að róa á móti vindi og ef maður tók sér 10 sekúndna pásu þá rak kajakinn aftur á bak þannig að maður þurfti 5 mínútna róður til að vinna upp pásuna. Eftir kajakaferðina fórum við svo í sundlaugina á Stokkseyri þar sem við lágum heillengi í heitapottinum að jafna okkur eftir allan róðurinn.

Spongebob Squarepants Keyrðum svo aftur í bæinn og heim til Friðriks þar sem við grilluðum risastórar nautasteikur og kartöflur og fengum okkur fullt af bjór. Svo var farið í keiluhöllina þar sem við tókum 2 leiki og strákarnir fengu sér bjór en ég var neyddur til að drekka eitthvað ofuráfengt sull til að reyna að eyðileggja meðfædda keiluhæfileika mína! Eftir það fór ég í spilakassann þar sem maður reynir að grípa svona dúkkur og drasl með einhverjum armi og aðeins 800kr síðar var ég búinn að ná í glæsilega Spongebob Squarepants dúkku handa Daníel! Eftir keiluhöllina fórum við svo niðrí bæ á eðalstaðinn Dillon þar sem er alltaf góð tónlist og vorum þar að drekka bjór í góðum fíling þangað til við fórum heim. Semsagt, snilldardagur :):).

einaregilsson.com

[Nördablogg]

Þá er ég búinn að færa síðuna af svæðinu mínu uppí skóla og yfir á einaregilsson.com. (Var að pæla í einaregilsson.is en það kostar 12.000!!! á ári meðan .com kostar 10 dollara!). Ákvað að taka síðuna af skólasvæðinu því ég vissi ekki hvað maður fengi að hafa svæðið lengi og mig langaði líka að prófa að reka minn eigin server. Þessi ógurlegi server er 5 ára gömul tölva sem er heima hjá mömmu og pabba og það er alltaf kveikt á henni því ef maður slekkur þá er ekki víst að hún fari nokkurntímann aftur í gang! Þó að þetta sé ekki á neinni rosalegri tengingu þá ætti það nú samt að ganga sæmilega hratt þar sem það eru eiginlega engar myndir á þessari síðu. En endilega látið vita ef það er eitthvað sem virkar ekki eða einhverjir dauðir linkar eða eitthvað sem þarf að laga.

Meiri líkamsrækt

Rocky með hendur uppí loftLíkamsræktarátakið er ennþá í fullum gangi og gengur vel. Er farinn að geta hlaupið meira en einn hring kringum Miklatún og er hættur að fá harðsperrur eftir að ég fór að gera nóg af teygjuæfingum fyrir og eftir skokkið (þó ég geri þær að sjálfsögðu ekki upp við ljósastaura, heldur heima hjá mér, með dregið fyrir, inní skáp). Ég er líka búinn að minnka nammiátið niður í tvisvar í viku, þannig að nú borða ég bara nammi á virkum dögum og um helgar. Karen benti mér á að það eina sem mig vantaði núna væru góðar tröppur til að hlaupa upp þegar ég væri að klára skokkið, eins og Rocky gerði alltaf. Þetta finnst mér snilldarhugmynd sem mundi gera skokkið a.m.k. 200% meira töff! Það eru reyndar tröppur hjá húsinu mínu en þær eru u.þ.b. 5 talsins og liggja niður þannig að það er enginn rosalegur hápunktur á skokkinu að hlaupa þær. Karen sagði mér að hlaupa til Akureyrar því þar væru fínar tröppur fyrir mig en þar sem það er víst fulllangt í burtu þá auglýsi ég hér með eftir góðum tröppum hér í Reykjavík til að hlaupa upp. Og já, ef einhver á theme-ið úr Rocky á mp3 þá væri það vel þegið 🙂

Krapp sjónvarpsefni!!!

Eru ALLAR bandarískar sjónvarpsmyndir um miðaldra húsmæður að berjast við banvæna sjúkdóma? Eða keypti Skjár 1 bara einhvern pakka með svona myndum? Þetta er þriðji sunnudagurinn í röð þar sem er sjónvarpsmynd um þetta efni, fyrst Alzheimer með Miu Farrow, svo einhver mynd um ALS með gellunni úr Just Shoot Me og núna “At the End of the Day”, mynd um konu sem fréttir að hún á ár eftir ólifað. Og hvaða fólk er þetta sem hefur gaman af þessum myndum? Er í alvörunni fólk þarna úti sem hugsar “Já, ég hef mjög gaman af myndum um fólk sem er að veslast upp og deyja, það eru mínar uppáhaldsmyndir!”. Er ég að ætlast til of mikils að vilja fá einhverja sæmilega afþreyingu á sunnudagskvöldum???

“Harðsperrur” ????

Þegar ég vaknaði í morgun var ég sannfærður um að ég væri lærleggsbrotinn á báðum löppum þar sem ég var með þvílíka verki í þeim og gat varla labbað. Ég skildi ekki almennilega hvernig ég hafði lærleggsbrotnað meðan ég var sofandi en eftir að hafa kynnt mér málin á netinu kom í ljós að ég er alls ekki brotinn heldur er ég víst með eitthvað sem kallast “harðsperrur”. Þessar svokölluðu “harðsperrur” eru víst eitthvað sem maður fær af að skokka. Af hverju lét enginn mig vita af þessu???

Hvernig á að vera töff í líkamsrækt

Líkamsræktarátakið er hafið! Þrátt fyrir góðar tillögur í kommentakerfinu þá urðu hvorki Líkami fyrir lífið né amfetamínsterar fyrir valinu. Nei, ég ákvað að skokka frekar í kringum Miklatún enda fátt hollara en að hlaupa á meðan maður andar að sér útblæstrinum frá 1000 bílum á Miklubrautinni. Eins og alþjóð veit þá er ég mjög kúl maður en skokk er afturámóti eitthvað það allra plebbalegasta sem maður getur mögulega gert. En með ákveðnum aðferðum er hægt að skokka og halda samt kúlinu. Svona er það gert:

  • Ekki ganga í níðþröngum glansbuxum eins og skokkarar gera oft. Ég vill ekki heyra neitt rugl um vindmótstöðu, svona glansbuxur eru algjörlega bannaðar ef maður vill vera töff skokkari.
  • Ekki vera með bjánaleg sólgleraugu.
  • Þegar ég mæti fólki á leiðinni kringum Miklatún hrópa ég á það að fyrra bragði “ÉG ER AÐ MISSA AF STRÆTÓ!!” svo það fatti ekki að ég sé úti að skokka. Ég sé samt fyrir mér að þetta gæti hætt að virka jafn vel þegar ég verð kominn með nógu gott þol til að skokka fleiri en einn hring og fer að mæta sama fólkinu tvisvar. Ég efast um að neinn trúi því að ég sé að hlaupa tvo hringi kringum Miklatún til að ná strætó. Ég gæti kannski fundið aðrar setningar til að hafa fjölbreytni í þessu, t.d. “ÉG ER ELTUR AF GLÆPAMÖNNUM” eða “ÉG ER AÐ MISSA AF ÞÆTTI Í SJÓNVARPINU”.
  • Teygjuæfingar upp við ljósastaura eru algjörlega bannaðar.
  • Ef þú vilt stoppa og fá þér hressingu þá skal það vera kók og súkkulaði. Ekki neitt powerbar og prótínsjeik drasl!
  • Ekki vera í neins konar íþróttagalla. Best er að vera í gallabuxum til að villa um fyrir fólki og kannski skyrtu eða leðurjakka.
  • Ekki hlusta á neina eróbikk-hressa viðbjóðstónlist. Öll tónlist sem maður hlustar á meðan maður skokkar ætti að vera samin af útlifuðum heróínsjúkum rokkstjörnum.
  • Ekki vera í sérstökum hlaupaskóm. Þeir eru allir risastórir og litskrúðugir og fólk sér strax að þú ert skokkari. Ef það er eitthvað “air” í nafninu á skónum þá eru þeir bannaðir.

Í næstu viku: Hvernig á að fara í líkamsræktarstöðvar án þess að fólk fatti að maður sé að æfa.

Hvernig líkamsrækt?

Þá er Daníel Máni orðinn mánaðar gamall! Tíminn líður ekkert smá hratt! Heill mánuður án þess að fá að sofa samfleytt heila nótt :). En það er bara gaman. Vildi bara að ég gæti skrifað forrit sem léti börn sofa!

Fyrir nokkrum mánuðum var ég að pæla í hvaða líkamsræktarprógram mundi henta mér. Enn hefur ekkert gerst í þessum málum en nú verð ég að fara að taka mig á. Þannig að ef einhver getur mælt með einhverri líkamsræktarstöð eða einhverju svona prógrammi (ekki samt einhverjum svona viðbjóði þar sem maður borðar sellerí í öll mál og má bara borða nammi á fullu tungli eða eitthvað ) þá endilega benda mér á það.

BBS

Hah! Ég er búinn að finna leið til að skoða BBSið hérna heima þó það eigi ekki að vera hægt utan skólans! Verst að það er frekar gagnslaust þar sem það er búið að loka á lykilkortið mitt :(.

Queens of the Stone Age

Tónleikarnir voru snilld eins og búist var við. Komum í Egilshöll þegar Mínus var að klára sem var fínt því ég hafði engan sérstakan áhuga á að sjá þá. Síðan voru Queens of the Stone Age sem voru geðveikir! Ef einhver á fyrsta diskinn með þeim þá endilega láta mig vita. Foo Fighters voru svo algjör snilld líka, öll lögin þeirra hljóma helmingi betur á tónleikum heldur en á plötunum. Dave Grohl var náttúrulega mjög töff líka, sérstaklega þegar hann hljóp yfir allan salinn, klifraði uppá Pepsi kæliskáp og spilaði þar á gítar. Talaði líka heilmikið um hvað Ísland væri nú frábært og allt það. Þeir voru svo klappaðir upp og tóku þrjú aukalög, þar á meðal eitt sem trommuleikarinn þeirra söng sem var ferlega slappt og hefði mátt sleppa (enda eru trommarar náttúrulega alltaf ömurlegir söngvarar!). Það eina sem mér fannst lélegt var þessi A og B svæðaskipting í Egilshöll (aðallega af því að ég var á B svæði ;)). Það er ferlega asnalegt að hafa fullt af fólki fyrir framan sviðið, svo risastórt bil, og svo þar fyrir aftan einhverja girðingu meira af fólki. En þetta voru samt frábærir tónleikar og ég er feginn að ég fór :).