Síminn

Fór með mömmu í dag uppí Símann til að fá gsm síma fyrir hana og ADSL fyrir hana og pabba. Það tók sinn tíma þar sem þau eru með allt sitt hjá Símanum og við þurftum að velja hverskonar tilboðspakka og afslætti þau vildu nýta sér. Síminn er svo svakalega að reyna að sníða tilboðin að þörfum fólks að fyrir hvern síma á heimilinu þarf maður að velja úr u.þ.b. 5.000 mismunandi möguleikum. Ef maður hringir mikið úr gemsanum sínum í útlenskan heimasíma á kvöldin milli 8 og 10 hentar vel að taka leið 435a því þá fær maður 200 mínútur fríar og 25% afslátt af mínútugjaldi, ef hinsvegar maður hringir mikið með vinstrihendi í eldriborgara á Sauðárkróki þá er leið 534c sniðin fyrir mann því þar fær maður 17,3 % afslátt á mínútugjaldi milli 13:30 og 17:45, 140 mínútur fríar á morgnana og ókeypis derhúfu. Að sjálfsögðu geturðu svo slegið inn 11 á undan erlendum númerum til að fá 25% extra afslátt, þ.e. ef þú vilt vera í 1100 klúbbnum. Þegar maður er svo með 2 gemsa, 1 heimasíma og ADSL þá er hægt að gera svona skrilljón mismunandi samsetningar úr þessu öllu saman. Ég er nokkuð viss um að ef maður væri nógu sleipur í að velja réttu samsetninguna þá myndi enda með því að Síminn væri farinn að borga manni fyrir að hringja. Ég get ekki annað en hugsað að kannski væri einfaldara og þægilegra fyrir alla ef Síminn mundi sleppa öllum þessum skrilljón mismunandi möguleikum og gera eitthvað einfaldara í staðinn, t.d., hmmmmm, lækka mínútugjaldið almennt???

4 thoughts on “Síminn

  1. Árni

    Enn og aftur sýnirðu vanhæfni þína í viðskiptafræði 😉

    Þessi tilboð hafa þann eina tilgang að fá fólk til að halda það að það spari með því að nota símann sinn meira

  2. einar

    Já, ég er greinilega ekki nógu sleipur í þessari viðskiptafræði. Maður gæti bara haldið að ég hefði ekki tekið einn einasta viðskiptafræðiáfanga í skólanum 😉

  3. Árni

    Ég drýgði syndina til fulls og tók Viðskiptafræði og lögfræði í sama faginu, viðskiptalögfræði sem sé 8)

Comments are closed.