Ég og Karen erum bæði á fæðingarstyrk frá Tryggingastofnun ríkisins núna í sumar. Það er það sem maður fær í staðinn fyrir fæðingarorlof þegar maður hefur verið í skóla. Hinsvegar er endalaust vesen að fá þetta. Við skiluðum inn fullt af pappírum og staðfestingum og einkunum í vor og þá sögðu þeir að þetta væri nú allt komið. Nokkrum vikum seinna fengum við svo póst um að umsóknin væri stopp í kerfinu því þeir þyrftu að fá nýrri gögn um síðustu önn. Við fórum aftur uppí skóla, náðum í það og skiluðum því inn og þá sögðu þeir að þetta væri pottþétt núna. Svo í gær, 2 dögum fyrir fyrstu útborgun sendu þeir mér nýjan póst þar sem þeir vildu fá staðfestingu á að ég væri ekki að vinna hjá Libra í sumar, umsóknin gæti nú alls ekki farið í gegn fyrr en það væri komið á hreint. Nú bíð ég bara eftir að fá póst þar sem þeir biðja um að fá ljósrit af barninu til að þetta sé nú örugglega allt saman satt og rétt hjá okkur.
Monthly Archives: June 2005
Síminn
Fór með mömmu í dag uppí Símann til að fá gsm síma fyrir hana og ADSL fyrir hana og pabba. Það tók sinn tíma þar sem þau eru með allt sitt hjá Símanum og við þurftum að velja hverskonar tilboðspakka og afslætti þau vildu nýta sér. Síminn er svo svakalega að reyna að sníða tilboðin að þörfum fólks að fyrir hvern síma á heimilinu þarf maður að velja úr u.þ.b. 5.000 mismunandi möguleikum. Ef maður hringir mikið úr gemsanum sínum í útlenskan heimasíma á kvöldin milli 8 og 10 hentar vel að taka leið 435a því þá fær maður 200 mínútur fríar og 25% afslátt af mínútugjaldi, ef hinsvegar maður hringir mikið með vinstrihendi í eldriborgara á Sauðárkróki þá er leið 534c sniðin fyrir mann því þar fær maður 17,3 % afslátt á mínútugjaldi milli 13:30 og 17:45, 140 mínútur fríar á morgnana og ókeypis derhúfu. Að sjálfsögðu geturðu svo slegið inn 11 á undan erlendum númerum til að fá 25% extra afslátt, þ.e. ef þú vilt vera í 1100 klúbbnum. Þegar maður er svo með 2 gemsa, 1 heimasíma og ADSL þá er hægt að gera svona skrilljón mismunandi samsetningar úr þessu öllu saman. Ég er nokkuð viss um að ef maður væri nógu sleipur í að velja réttu samsetninguna þá myndi enda með því að Síminn væri farinn að borga manni fyrir að hringja. Ég get ekki annað en hugsað að kannski væri einfaldara og þægilegra fyrir alla ef Síminn mundi sleppa öllum þessum skrilljón mismunandi möguleikum og gera eitthvað einfaldara í staðinn, t.d., hmmmmm, lækka mínútugjaldið almennt???
Skype
Jæja, fyrst maður er kominn með adsl þá er fínt að fá sér Skype. Nafnið er einaregilsson.
Kúkableyjur
“Mommy, I’ve got a present for you. I’ll give you a hint: it’s in my diaper and it’s not a toaster!”
Kúkableyja í verðlaun fyrir þann sem þekkir kvótið. Er núna búinn að skipta á u.þ.b. 5000 bleyjum þannig að er orðinn nokkuð sleipur í þessu. Allt gengur annars vel, fullt af fólki búið að koma í heimsókn, öllum líst mjög vel á strákinn. A.m.k. 5 manns búnir að segja að hann sé mjög “mannalegur”, hvað sem það nú þýðir. Eru ekki öll börn mannaleg? Ég efast a.m.k. um að fólk sé mikið að líkja þeim við aðrar dýrategundir (“Til hamingju með strákinn, hann er svakalega líkur hesti!”).
En aftur að kúkamálunum. Drengurinn er engan veginn ánægður þegar á að skipta á honum og öskrar úr sér lungun en jafnar sig um leið og hann er kominn í nýja bleyju. Hann er líka búinn að koma sér upp mjög öflugri leið við að pissa. Hún gengur útá að kúka fyrst, svo þegar hann er kominn á skiptiborðið og úr bleyjunni þá lætur hann rigna gulu yfir foreldra sína, skiptiborðið og allt annað í tveggja metra radíus. Sérstaklega er hann góður í að gera þetta rétt eftir að maður snýr sér frá þannig að hann nái sem bestri pissdreifingu áður en maður tekur eftir þessu og getur stokkið á hann með aðra bleyju. En hann er duglegur að drekka, og yfirleitt voða vær þannig að við erum bara mjög ánægð 🙂
Einar – Daníel
Jamm, hann er ekki ósvipaður pabba sínum 🙂
Kristilegt spam
Hmmm, ég virðist vera kominn á einhvern kristilegan spam lista með hotmail addressuna mína. Var að fá tvo pósta um “Christian debt relief – Financing with christian principles” og einn póst um “Meet christian singles in your area”. Hvað ætli ég fái póst um næst, kristilegt Viagra?
Takk fyrir okkur
Þið skólafélagar, takk kærlega fyrir allar fínu gjafirnar :). Þær munu pottþétt nýtast vel! Hlakka til að sjá ykkur einhverntímann í sumar 🙂
Drengur Einarsson
Jæjja, þá er hann kominn :). Drengur Einarsson er mættur í heiminn, fæddist kl. 21:39 þann 13. júní. Hann fær að sjálfsögðu sína eigin síðu sem er hægt að fara á hér eða með því að smella á linkinn hérna vinstra megin undir Aðal.
Útskrift
Jæja, þá er þetta búið. Mættum uppí skóla í myndatöku kl. 11 þar sem við fengum diss dauðans frá ljósmyndaranum…
[Myndatakan með öllum hópnum, okkur, viðskiptafræðingum og lögfræðingum]
“Glæsilegur hópur, stórglæsilegur!!”
[Seinni myndatakan með bara tölvunarfræðinni]
“Þetta er nú bara nokkuð frambærilegur hópur…”
Fórum síðan yfir hvernig þetta færi allt saman fram og svo var útskriftin. Fékk verðlaun og alles þannig að það var fínt :). Guðfinna hélt svo fína ræðu í lokin þar sem frasar eins og “draumar að rætast”, “standandi á öxlum risa”, “frumkvöðlar”, “stofna eigin fyrirtæki” og “Harvard” komu fyrir 😉
Síðan voru mamma og pabbi svo góð að halda veislu fyrir mig þannig að ég var þar restina af deginum og kvöldinu. Fékk fullt af fínum gjöfum, t.d. iPod Shuffle sem ég er að hlusta á núna og margt fleira. Skellti mér síðan heim rúmlega 11 og var að pæla að kíkja svo í bæinn en er ekki að nenna því þar sem ég er drulluþreyttur og strákurinn okkar gæti komið á hverri stundu 🙂
Einar Þór Egilsson, tölvunarfræðingur.
Bíðandi…
Erum ennþá að bíða eftir stráknum okkar. Samkvæmt spánum á hann að fæðast á mánudaginn 13. en ef hann lætur ekki sjá sig í næstu viku verður Karen sennilega gangsett.