Jæja, prófið í Dreifðum kerfum búið. Þetta var gagnapróf þannig að maður mátti vera með hvað sem er með sér. Greinilega hefur eitthvað borið á svindli á síðustu önn því það er búið að vera senda á okkur einhverjar nýjar reglur um hvernig prófin eiga að fara fram. Ein af þessum reglum er að það má alls ekki vera með pennaveski uppá borðum. Það er eitthvað skrýtið við að láta ellilífeyrisþega skipa sér að setja niður pennaveskið þegar maður er með námsbókina, 2 gömul próf með svörum og 300 blaðsíður af glósum uppá borði. Sé bara ekki hvað ég gæti verið að fela í pennaveskinu sem gæti hjálpað mér meira en það.
Önnur ný regla er að það er stranglega bannað að fara með yfirhafnir með sér inní próf. Þetta olli mér miklum vonbrigðum þar sem ég var búinn að eyða öllu kvöldinu fyrir prófið í að skipuleggja geysiöflugt svindl þar sem úlpan mín spilaði algjört lykilhlutverk! Þrátt fyrir úlpuleysið held ég að þetta blessaða próf hafi nú gengið nokkuð vel bara, þarf a.m.k. ekki að fara í endurtekt 🙂