Eins og allir lesendur þessarar síðu (allir 3-4…) væntanlega vita eigum ég og Karen von á barni í sumar :). Næsta mánudag er svo sónar þar sem við fáum að vita kynið. Að vita kynið er gott því þá getur maður strax útilokað helminginn af öllum nöfnum. Reyndar erum við búin að pæla í nokkrum nöfnum og útiloka þau nú þegar:
- Einar 2.0
- Svarthöfði
- Ástþór
- Línus Gauti
- Svarthöfði sem seinna nafn
- Einar++
- Java
- Napóleon
- R2D2
Kemur betur í ljós á mánudaginn, þá getum við útilokað miklu fleiri. Vorum annars í Eymundsson fyrir nokkrum vikum og sáum þar afmælisdagabók. Ákváðum að kíkja á 12. júní (áætlaður fæðingardagur) og lýsingin þar var einhvernveginn svona:
Þú ert mjög jákvæð manneskja. Þú ert svo rosalega jákvæð að stundum fer yfirþyrmandi jákvæðni þín í taugarnar á fólki. Gott starf fyrir þig væri t.d. einkaþjálfari.
Hmmmm. Ég efast stórlega um að mitt barn gæti orðið yfirþyrmandi jákvæður einkaþjálfari!! Sérstaklega þar sem ég er, ehemm, ekki yfirþyrmandi jákvæður og ansi langt frá því að vera einkaþjálfari! Þetta er held ég mesta andstæða við mig sem hægt væri að finna! Kíktum á 13. til öryggis til að sjá hvað gerðist ef þetta drægist aðeins:
Þú ert langt á undan þinni samtíð. Fólk notar oft orð einsog “brjálaður”, “hættulegur” og “sérstakur” til að lýsa þér.
Brjálæðingur eða yfirþyrmandi jákvæður einkaþjálfari? Stefnum definitely á brjálæðing!