Handþurrkubúnaður

Hver kannast ekki við vandamálið sem fylgir því að þurfa að þurrka sér um hendurnar á almenningsklósettum? Enginn? Maður þarf að teygja sig í handþurrkurúlluna, toga niður pappír og rífa hann svo af. Mjög erfitt og þreytandi! En þetta er ekki lengur vandamál í HR, nei, því það eru komin rafdrifin handþurrkustatíf með skynjara! Þið getið rétt ímyndað ykkur hvað ég var hissa í dag þegar ég teygði mig í átt að handþurrkunum, bjó mig undir erfið átök við að toga niður pappírinn en þá bara bzzzzzzzz, rennur sjálfkrafa út handþurrka í mjög hentugri stærð og það eina sem maður þarf að gera er að rífa hana af! Snilld + heilmikill vinnusparnaður! Ég bíð spenntur eftir sjálfvirkum klósettrúllum!

Á síðasta ári hækkuðu skólagjöldin okkar um 10.000 kr. Þegar rektor var spurður um ástæðu hækkunarinnar gat hún litlu svarað. Nú sé ég hinsvegar að ástæðan hlýtur að vera kaup skólans á þessum geysiöfluga nýja tæknibúnaði. En hvað gerist þegar HR og THÍ sameinast? Getur sameinaður háskóli staðið undir kröfum fyrrverandi HR-inga um öflugan sjálfvirkan handþurrkubúnað? Munu HR-ingarnir fyrrverandi hlaupa útum allan skólann með blautar hendur því þeir kunna ekki lengur á gamaldags og úrelt handþurrkukerfi? Kemur allt í ljós í haust…

4 thoughts on “Handþurrkubúnaður

  1. Karen

    Rosalega er ég fegin að nú þegar á að fara setja á skjólagjald í THÍ við sameininguna að það fari ekki í eitthvað RUGL! Maður ætti að bjóða ykkur HR-ingum í heimsókn. Þið mynduð labba stjörf af ótta út!

  2. Einar

    “Þið mynduð labba stjörf af ótta út!”

    Bara ef það væru rafknúnar hurðir með skynjara, annars kæmumst við ekki út.

  3. lauga

    Hey…er gert betur við strákana? Ég hef ekki enn orðið vitni að þessum rafknúna handþurrkukerfi 😮

    Á hvaða klósti var þetta annars? Þ.e. á hvaða hæð?

    Er kannski bara gert betur við strákana…eru þeir svona ósjálfstæðir?
    Í RB er sjálfvirkur niðursturtari..á kallaklóstinu.

Comments are closed.