Monthly Archives: October 2004

Smáís auglýsing

Fór með Gísla í bíó í gær á gæðamyndina Exorcist – The Beginning. Lenti í smá vandræðum með að komast á hana þar sem hún var í Sambíóunum Álfabakka og það eru u.þ.b. 25 mislæg gatnamót á leiðinni þangað (Ég rata MJÖG illa allsstaðar og sérstaklega skil ég ekki mislæg gatnamót. Ég vill fara til vinstri, hvar á ég þá að vera, vinstri akrein, nei, hægri akrein, uppi, niðri? Alltof flókið! Og hvað er málið í Breiðholti, það mega ekki tvær götur krossast þá er búið að skella mislægum gatnamótum á þær!!). Þegar ég var búinn að keyra nokkra hringi og slaufur þá komumst við loks í bíóið og komumst að því að við vorum svona 8 árum eldri en allir aðrir þar. Myndin var skemmtileg (allar hryllingsmyndir eru góðar, alltaf!) en það sem var mest skemmtilegt var treilerinn frá Smáís, uppáhaldsfyrirtæki allra tölvunörda. Treilerinn var nokkurnveginn svona:

*Mynd af manni að stela bíl*

Texti: “ÞÚ MUNDIR EKKI STELA BÍL!”

*Mynd af manni að stela sjónvarpi*

Texti: “ÞÚ MUNDIR EKKI STELA SJÓNVARPI!”

*Mynd af manni að stela DVD disk á videoleigu*

Texti: “ÞÚ MUNDIR EKKI STELA KVIKMYND!”

Texti: “AÐ NÁ Í KVIKMYND AF NETINU ER ÞJÓFNAÐUR!!!”

*Mynd af tölvu með gjörsamlega svartan skjá nema það er risastór rauður progress bar og risastórir rauðir blikkandi stafir sem segja DOWNLOADING. Breytist síðan í DOWNLOAD COMPLETE, líka rautt, blikkandi og risastórt.*

Texti: “Smáís – Samtök myndrétthafa í Íslandi”.
Endir

Svo var myndin svona svarthvít og kornótt þegar það var verið að sýna fólk stela, allir stafir eru svona grófir og eru að hristast og hávær tónlist undir allan tímann. Allir vita að eina leiðin til að ná til ungs fólks er með háværri tónlist, “töff” myndatöku og einföldum skilaboðum…

Það sem mér fannst líka sérstaklega töff var forritið sem var verið að nota. Rosalega þætti mér gott að hafa svona forrit sem fyllti algjörlega skjáinn hjá manni þannig að maður sæi ekkert annað og sýndi ekkert hverju maður væri að downloada, hvað það væri stórt eða neitt, bara einn stóran progress bar og blikkandi stafi. Þetta er svona eins og í kvikmyndum þegar verið er að reyna að brjótast inní tölvukerfi, það kemur alltaf risastórt blikkandi ACCESS DENIED á skjáinn, mjög sjaldan sér maður venjulegt Windows messagebox með textanum “Incorrect username or password”.

Bónus!!!

Við fórum í Bónus áðan til að gera stórinnkaup þar sem við erum loksins komin með ísskáp með alvöru frysti. Ég gerði mér hinsvegar ekki grein fyrir að allir á Íslandi fara í Bónus kl. 16:00 á sunnudögum. Að fara í Bónus á háannatíma er ekki ósvipað því að taka logandi sígarettu og stinga henni í augað á sér! Í fyrstu er það óbærilegt en svo verður það bara verra og verra!! Endalaus píp í kössunum, krakkar grenjandi, gamlar konur skellandi kerrum utaní mann og ekki hægt að hreyfa sig fyrir fólki þangað til maður er að springa úr pirringi!! Ég er viss um að Baugur eyðir stórfé á hverju ári í að þagga niður fréttir af viðskiptavinum sem snappa og ráðast á aðra viðskiptavini með agúrku.

En ég hef lausnina. Bónus ætti bara að vera eins og tannlæknastofa, maður ætti bara að panta tíma til að fara að versla, “ég á pantaðan tíma í Bónus kl. 11:30 á mánudaginn, mig vantar sinnep”, það væri frábært! Svo mundu hámark 5 mega panta tíma á sama tíma og þá væru allir sáttir, enginn troðningur og allt í góðu!

Eða ef það gengi ekki mætti reka þetta eins og skemmtistað. Bara hafa dyravörð fyrir framan og ekki hleypa öllum inn í einu. Svo gæti fólk sem er “frægt á Íslandi” verið VIP og fengið að fara fram fyrir röðina. Viska gæti jafnvel gert svipaðan samning við Bónus og þeir eru með við Pravda, eitthvað svona “Viskufélagar fá forgang í röð milli 17 og 19 og fá helmingsafslátt af sultu gegn framvísun Viskuskírteinis”. Spurning um að senda Jóni Ásgeiri mail og segja honum hvernig hann á að hafa þetta.

Óheppið fólk

Var að lesa einhvern umræðuþráð um atvinnu í tölvubransanum fyrir dálitlu síðan. Þar var einn atvinnurekandi sem sagði að þegar hann þyrfti að ráða í starf og það væru mjög margar umsóknir þá henti hann helmingnum af umsóknunum ólesnum í ruslið því hann vildi ekki ráða óheppið fólk í vinnu! Snilld!!

MSN

The Empire strikes back…

Núna um daginn náði ég mér í Beta útgáfuna af msn 7.0 sem er með allskonar nýju drasli, t.d. getur maður signað sig inn sem ‘appear offline’ ef maður nennir ekki að tala við fólk en vill samt sjá hverjir eru online. Líka fullt af gagnslausu drasli eins og einhverjum súper brosköllum og teiknimyndum og einhverju sem maður getur sent. Þessi útgáfa virkaði fínt í 3 daga. En svo í gær þegar ég reyni að signa mig inn fékk ég skilaboð, eitthvað ‘A new version of msn messenger is available, you MUST get this new version or terrible things will happen’. Svo ef ég reyndi að segja nei, að ég vildi ekkert nýja útgáfu, þá gat ég ekki signað mig inn. Þannig að ég náði í nýju útgáfuna sem er númer 6.2!!! Semsagt eldri útgáfa!! Til hvers voru þeir að hleypa þessari beta útgáfu útá netið ef þeir ætla svo að neyða mann til að hætta strax aftur að nota hana?!?! Óþolandi drasl!!

(Hmmm, blogg um hvað Microsoft er mikið skítafyrirtæki + Star Wars reference… Nördaskapurinn er kominn uppá nýtt og hærra stig 😉

Barnagæsla

Karen fékk smá hlutastarf í Skýrr núna í kennaraverkfallinu, að passa krakka starfsmanna einu sinni í viku. Ég þyrfti að fá svona vinnu, kæmi mjög vel út á ferilskránni að hafa “verktaki hjá Skýrr”. Gæti hinsvegar orðið hálf bjánalegt í atvinnuviðtölum ef ég væri spurður útí það.

“Já, ég sé hérna að þú hefur unnið sem verktaki hjá Skýrr, hvað varstu að vinna við hjá þeim?”

“Öhh, ýmislegt svona, gæslu aðallega…”

“Hverskonar gæslu þá, umsjón með netkerfum?”

“Nei, barnagæslu…”