Fór með Gísla í bíó í gær á gæðamyndina Exorcist – The Beginning. Lenti í smá vandræðum með að komast á hana þar sem hún var í Sambíóunum Álfabakka og það eru u.þ.b. 25 mislæg gatnamót á leiðinni þangað (Ég rata MJÖG illa allsstaðar og sérstaklega skil ég ekki mislæg gatnamót. Ég vill fara til vinstri, hvar á ég þá að vera, vinstri akrein, nei, hægri akrein, uppi, niðri? Alltof flókið! Og hvað er málið í Breiðholti, það mega ekki tvær götur krossast þá er búið að skella mislægum gatnamótum á þær!!). Þegar ég var búinn að keyra nokkra hringi og slaufur þá komumst við loks í bíóið og komumst að því að við vorum svona 8 árum eldri en allir aðrir þar. Myndin var skemmtileg (allar hryllingsmyndir eru góðar, alltaf!) en það sem var mest skemmtilegt var treilerinn frá Smáís, uppáhaldsfyrirtæki allra tölvunörda. Treilerinn var nokkurnveginn svona:
*Mynd af manni að stela bíl*
Texti: “ÞÚ MUNDIR EKKI STELA BÍL!”
*Mynd af manni að stela sjónvarpi*
Texti: “ÞÚ MUNDIR EKKI STELA SJÓNVARPI!”
*Mynd af manni að stela DVD disk á videoleigu*
Texti: “ÞÚ MUNDIR EKKI STELA KVIKMYND!”
Texti: “AÐ NÁ Í KVIKMYND AF NETINU ER ÞJÓFNAÐUR!!!”
*Mynd af tölvu með gjörsamlega svartan skjá nema það er risastór rauður progress bar og risastórir rauðir blikkandi stafir sem segja DOWNLOADING. Breytist síðan í DOWNLOAD COMPLETE, líka rautt, blikkandi og risastórt.*
Texti: “Smáís – Samtök myndrétthafa í Íslandi”.
Endir
Svo var myndin svona svarthvít og kornótt þegar það var verið að sýna fólk stela, allir stafir eru svona grófir og eru að hristast og hávær tónlist undir allan tímann. Allir vita að eina leiðin til að ná til ungs fólks er með háværri tónlist, “töff” myndatöku og einföldum skilaboðum…
Það sem mér fannst líka sérstaklega töff var forritið sem var verið að nota. Rosalega þætti mér gott að hafa svona forrit sem fyllti algjörlega skjáinn hjá manni þannig að maður sæi ekkert annað og sýndi ekkert hverju maður væri að downloada, hvað það væri stórt eða neitt, bara einn stóran progress bar og blikkandi stafi. Þetta er svona eins og í kvikmyndum þegar verið er að reyna að brjótast inní tölvukerfi, það kemur alltaf risastórt blikkandi ACCESS DENIED á skjáinn, mjög sjaldan sér maður venjulegt Windows messagebox með textanum “Incorrect username or password”.
Tölvur í kvikmyndum eru alltaf snilld. Öll hljóðin sem koma, og allt þetta sem kemur svona sjálfkrafa upp á skjáinn og zoomað á akkurat þann part sem er beðið um og öll þessi hljóð…vá bara snilld