Monthly Archives: September 2004

Extreme…

Ég var að horfa á Discovery áðan. Þá sá ég auglýsingu um nýjan þátt sem heitir “Extreme Engineering”. Hmmm. “Engineering” finnst mér ekki hljóma spennandi en fyrst þetta er “Extreme Engineering” þá hlýtur það að vera cool. Allt sem er “Extreme” er cool, maður getur tekið hvaða hlut sem er, sett “Extreme” fyrir framan nafnið og þá verður hann meira cool. T.d. Extreme Sports, Extreme Makeover, Extreme Programming, Extreme Engineering, Extreme Robot Fighting

Nú vita allir að íþróttir eru grjótleiðinlegar og hundleiðinlegt að horfa á þær. En það væri auðveldlega hægt að gera fullt af íþróttum miklu skemmtilegri með því að gera þær aðeins meira “Extreme”. T.d:

  • Extreme Football: Ef þeir eru ekki búnir að drullast til að skora eitt einasta mark á fyrstu 45 mínútunum þá er random leikmaður hálshöggvinn og hausinn á honum notaður sem bolti í seinni hálfleik.
  • Extreme Formula 1: Þriðji hver bíll keyrir öfugan hring við hina…
  • Extreme Tennis: Tveir menn. Tveir spaðar. Ein handsprengja.
  • Extreme Skák: Hmmmmmmmmm, ok, virkar kannski ekki fyrir allt.

Þetta væri líka hægt að gera við sjónvarpsþætti. Gott dæmi er Extreme Makeover. Enginn mundi horfa á hann ef hann væri bara “Makeover”. Nú horfir enginn sem er með greindarvísitölu hærra en skónúmerið sitt á Innlit/Útlit. En!! Hver mundi ekki vilja sjá “Extreme Innlit/Útlit”: Vala Matt á amfetamíni brýst inn til óviðbúins fólks um miðja nótt:
zzzzzzzZZZZZZZZZZzzzzZZZZZ*CRASH* “GASALEGA ER ÞETTA SKEMMTILEGT RÝMI HÉRNA HJÁ YKKUR!!” “Hva, hver…” “KEYPTUÐ ÞIÐ ÞETTA RÚMTEPPI Í IKEA? ÞETTA ER *ÆÐISLEGT*”.

Orð

Kennarinn okkar í forritunarmálum var að tala um að ef það væri ekki til orð yfir eitthvað hugtak í tungumáli þá gæti fólk ekki hugsað um það og þar með væri hluturinn eiginlega ekki til. Hann sagði okkur frá því að í bókinni 1984 hefði fasistastjórnin tekið upp á því að fjarlægja óæskileg orð úr tungumálinu, t.d. uppreisn og óánægja. Þannig gat enginn verið óánægður, allir voru bara mismunandi ánægðir. Þetta finnst mér mögnuð snilld! Það er t.d. fullt af orðum í íslensku sem mætti fjarlægja og enginn myndi sakna! Bara sleppa þeim í næstu útgáfu af orðabókinni og þá eru þau farin. Þau orð sem mættu mín vegna hverfa úr íslenskri tungu eru m.a.

  • Stærðfræðileg greining
  • Plokkfiskur
  • Sjálfstæðisflokkurinn
  • Jeppi
  • Powersýning
  • Davíð
  • Oddsson
  • Lagadeild HR
  • Landshornaflakkari
  • Diet kók
  • Trúnó
  • Fólk
  • Sirrý
  • með