Monthly Archives: September 2004

Á leið í líkamsrækt

Nú hef ég í soldinn tíma, u.þ.b. 10 ár, verið á leiðinni að koma mér í gott form. Í þessi 10 ár hef ég pælt mikið í því hverskonar líkamsrækt henti mér best. Eftir 10 ára umhugsun hef ég komist að því að það þarf að vera eitthvað sem reynir ekki mikið á og krefst þess ekki að ég hætti að borða nammi. Þarna er ég búinn að útiloka 97% af öllum íþróttum þannig að þetta er allt að koma. Nokkrar af þeim íþróttum sem ég hef íhugað að fara að stunda eru:

  • Keila: Hægt að borða pizzu á meðan maður er að keppa, góður kostur.
  • Pílukast: Mjög lítil hreyfing, mataræði skiptir ekki máli, gott mál.
  • Skák: Mjög lítil hreyfing sem er kostur. Eini gallinn er að skák er ekki íþrótt.
  • Sund: Sund er heldur ekki íþrótt, að synda er bara aðferð til að komast hjá því að drukkna. Hinsvegar finnst mér sund skemmtilegt þannig að það kemur sterkt inn.
  • Fótbolti: Reyndi það í fyrra, eyðilagði ökklann á mér eftir 5 tíma og var á hækju í mánuð.
  • Körfubolti: Allir þessir HR-ingar vilja bara fótbolta…
  • Badmington: Spilaði síðast þegar ég var 8 ára, en þá var það gaman.

Ef einhver hefur góða hugmynd um líkamsrækt sem hentar mér, endilega láta mig vita. Og nei, mig langar ekki að fara í líkamsræktarstöð að lyfta eða hlaupa eða eitthvað svona grjótleiðinlegt, þetta verður að vera skemmtileg íþrótt.

Geðsýki

Tekið af mbl.is:

Ungur háskólanemi var greindur með bráðageðsýki og færður á geðdeild Landspítalans eftir að samnemendur hans komu að honum þar sem hann var berjandi höfðinu á sér utan í vegg og hrópandi í sífellu “Heildun er ANDSTÆÐA diffrunar, heildun er andstæða DIFFRUNAR!”. Talið er að ungi maðurinn hafi snappað eftir að hafa reynt að heilda kvaðradrótina af ex í 18 klukkustundir án árangurs. Í viðtali við Morgunblaðið sagði Skúli Guðjohnsen, yfirlæknir á Landspítalanum, að tilfellum sem þessu hefði fjölgað allverulega undanfarinn mánuð og að Landspítalinn sæi fram á skort á sjúkrarúmum á geðdeild ef þetta héldi áfram. Ekki er vitað á þessu stigi málsins hvort geðsýki unga mannsins er tímabundin eða varanleg, en honum er nú haldið rólegum með stórum skömmtum af Xanax og Prozac.

Kók

Hef núna smakkað nýja kókið, C2. Auglýsingarnar segja að það sé mitt á milli alvöru kóks og Diet kóks. Aldrei þessu vant segja auglýsingarnar satt, þetta bragðast nákvæmlega eins og maður hafi blandað saman hálfri kók og hálfri diet-kók. Semsagt viðbjóður. Breytingar á kóki eru alltaf slæm hugmynd. Ef ég ber saman nokkur mismunandi afbrigði af kóki og gef því frá núll og uppí 5 stjörnur þá er niðurstaðan þessi:

  1. Venjulegt kók: Hrein snilld! ***** (5 stjörnur)
  2. Diet kók: Ógeðslegt sorp!! Maður hefði haldið að Diet kók mundi bragðast eins og kók nema án sykurs. Nei! Það bragðast eins og piss!! (0 stjörnur)
  3. Vanilla kók: Vanilluskyr, já. Vanillukók, nei. Viðbjóður. (0 stjörnur)
  4. Cherry kók: Viðbjóðslegt drasl. Ef ég vildi ber færi ég í berjamó. (0 stjörnur)
  5. C2: 50% snilld + 50% viðbjóður = 90% viðbjóður. Samt skárra en Diet-kók. (0 störnur)

Djamm á Dillon

Fór að djamma í gær. Hitti Grím, Laugu, Tinnu, Jóhönnu og frænda hans Gríms á Dillon. Hef ekki farið á Dillon áður. Snilldartónlist, Doors, Led Zeppelin, Guns’n’roses o.s.fv. Klósettin hinsvegar ekki ósvipuð Trainspotting-klósettinu. Fórum síðan á Kaffibarinn þar sem var hellt yfir mig svona 800 lítrum af bjór eins og gerist alltaf á Kaffibarnum. Hitti svo Öldu og varð samferða henni heim. Nú er það bara liggja heima, horfa á Spiderman 2 og borða 10 kíló af nammi. Gott mál!

Ýmislegt

Margir leikarar þakka Guði þegar þeir vinna Óskarsverðlaun. Ætli Mel Gibson þakki Jesú þegar hann vinnur fyrir Passion of the Christ?

Dávaldurinn var hérna í hádeginu. Mjöööööööög skrýtið. Birna, Gunnar, Sólrún og Stella voru öll dáleidd. Mjög fyndið 🙂 Ætla samt pottþétt aldrei að láta dáleiða mig, of creepy!!

Var að koma úr tvöföldum tíma í Stöðuvélum og Reiknanleika. Skemmtilegri áfangi en ég bjóst við. Finnst eiginlega eins og ég sé bara að leysa gestaþrautir. Gestaþrautir og Reiknanleiki.

Er annars bara að skrifa hérna til að fresta því að gera heimadæmin í Stærðfræðilegri greiningu. Vandamálið við Stærðfræðilega greiningu er ekki að hún sé erfið eða leiðinleg eða tilgangslaus, nei, vandamálið er að hún er AFSPRENGI DJÖFULSINS!

DNS lookup

Ákvað um daginn að mig langaði að geta haft reverse DNS lookup á síðunni minni til að sjá hvaðan fólk er að koma. Leitaði á netinu en eina lausnin sem ég fann fyrir .asp var einhver krapp lausn sem gekk útá að keyra nslookup, senda outputið í textaskrá og lesa svo textaskrána og eyða henni. Breytti þessu þannig að þarf ekki að skrifa í neina skrá eða neitt svoleiðis, les bara beint output strauminn frá nslookup.exe, virkar fínt. Skelli þessu sennilega inná forritunarsíðuna fljótlega, þá getið þið náð í þetta ef þið viljið sjá hverjir eru að heimsækja síðurnar ykkar.

BREAKOUT!!!

“…the biggest PC game release in years…”

“…Doom 3Breakout should keep most gamers hooked from beginning to end!”

***** (5 stars)
GameSpy.com

“…the best game of 2004!”
***** (5 stars)
PC Gamer Magazine

Jamm, þá er hann loksins tilbúinn, leikurinn sem allir hafa verið að bíða eftir, BREAKOUT! Forritaður af mér, borð hönnuð af Karen, algjör snilld! Smellið hér til að downloada leiknum.

Hérna er screenshot af leiknum:

Screenshot af BreakoutEn í alvöru talað, ef ég ætti að gefa algjörlega hlutlaust mat á leiknum þá væri niðurstaðan þessi: BESTI LEIKUR Á JÖRÐINNI!!!

Goldfinger

Hmm. Er að horfa á Goldfinger. Snilldarmynd. En að drepa konu með því að mála hana frá toppi til táar með gullmálningu þannig að húðin fái ekki súrefni og hún kafni? Er það ekki u.þ.b. flóknasta og seinlegasta drápsaðferð sem til er? Og dýrasta? Gullmálning? Snilld samt sem áður 🙂