Hörmulegt sjónvarpsefni

Ég hef horft á mikið af lélegu sjónvarpsefni gegnum tíðina og tel mig ýmsu vanan. Hef séð Kastljós, Derrick, Nylon, sænska sjónvarpsmynd um sérstaka vináttu ungs drengs og hunds og margt fleira. Nú hefur hinsvegar botninum verið náð og titilinn VERSTA SJÓNVARPSEFNI EVER hlýtur:

Landshornaflakkarinn!

Skjár 1 á bara að sýna bandaríska afþreyingu, engan langar að sjá Súsönnu Svavarsdóttur tala við Sigurbjörn bónda frá bænum Rassaholu í Neðridal um hvað landsbyggðin sé frábær!! En almennt, ef maður vill vita hvað maður á ekki að horfa á þá eru hér nokkrar reglur:

  1. Allar myndir eða þættir með börnum í aðalhlutverkum eru rusl. Börn eru í 99% tilfella óþolandi í kvikmyndum.
  2. Allar myndir eða þættir með gömlu fólki sem aðalpersónum eru rusl. Tvöfalt rusl ef myndin er íslensk. Þrefalt rusl ef myndin er um gamalt íslenskt fólk úti á landi.
  3. Ef aðalpersónan á sniðugt gæludýr þá er myndin rusl. Tvöfalt rusl ef gæludýrið talar. (Þetta á ekki við um teiknimyndir).
  4. Allar íslenskar myndir sem eru ekki Sódóma Reykjavík eða 101 Reykjavík eru rusl. Tvöfalt rusl ef þær gerast í gamla daga. 800falt rusl ef þær eru eftir Hrafn Gunnlaugsson.
  5. Allt efni með Hemma Gunn, Gísla Marteini, Meryl Streep, Sally Field, Madonnu, Súsönnu Svavars eða einhverjum úr Nylon er rusl.
  6. Allar myndir þar sem tónlistarmenn halda að þeir séu leikarar eru rusl. Tvöfalt rusl ef tónlistarmaðurinn er rappari. Þrefalt rusl ef tónlistarmaðurinn er Madonna.

Ef myndin uppfyllir 2 eða fleiri atriði á þessum lista þá er hún súperrusl. Versta mynd í heimi væri semsagt íslensk mynd sem gerðist árið 1773, leikstýrt af Hrafni Gunnlaugssyni, með Madonnu, Sally Field og Gísla Marteini í aðalhlutverkum, þar sem þau byggju á Fáskrúðsfirði með 2 lítil börn, afa og ömmu og talandi hund.