Stór dagur í dag. Daníel missti fyrstu barnatönnina sína, hægri framtönnina í neðri góm. Hún er búin að vera laus nokkuð lengi, og tönnin við hliðina er líka laus. Í dag var hún svo alveg að losna og Karen hjálpaði aðeins til við að ná henni endanlega út. Daníel var mjög stoltur og fannst mjög skrýtið að finna með tungunni þar sem tönnin hafði verið. Nú er hann mjög spenntur að setja hana undir koddann sinn og fá 10 kr, sem er einmitt nóg til að kaupa fótboltapakka.
Jólin eru búin að vera mjög fín hjá okkur, ég er í fríi og við höfum tekið því rólega saman. Vorum heima á aðfangadag, fórum svo til Öglu og Ragga á jóladag, þar sem Atli og Selma voru líka, og fengum loks Svönu og Atla í afganga á annan í jólum. Ellen og Daníel fengu fullt af spennandi jólagjöfum, Daníel fékk borðfótboltaspil frá okkur, Star Wars spil frá Ellen, mörg spil saman frá afa og ömmu og fær svo hjól frá Ársæli afa og okkur. Ellen fékk allskonar prinsessudót, og fékk svo hjól frá okkur. Það var gamla hjólið hans Daníels sem við vorum búin að taka í gegn. Við settum stjörnu og fiðrildalímmiða á það, barbie prinsessu körfu og bjöllu, og bleikan lás. Hún var súperánægð og gat varla beðið eftir að komast út að hjóla á jóladag.
Næst á dagskrá er svo gamlárskvöld. Við verðum með veislu fyrir fjölskylduna, þetta verður síðasta kvöld Atla og Selmu hérna þannig að það passar vel að enda á fjölskylduveislu. Það verður allt þetta klassíska, kalkúnn, ís, flugeldar, áramótaskaup og gott stuð. Gleðilegt ár!


Daníel er búinn að sýna það og sanna að það þarf ekki að kunna að skríða til að komast frá A til B. Ég er orðin frekar þreytt á því að eltast við litla gaurinn út um alla stofu og sjá hann vera að reka sig í allt sem verður á vegi hans þannig að við ákváðum að taka fram leikgrindina sem er búin að vera að bíða þolinmóð útí geymslu. Daníel var nú ekkert rosalega ánægður með litla litríka fangelsið sitt í fyrstu en er núna tvímælalaust búinn að uppgötva kostina við að leikföngin sleppi aldrei frá honum. Ég er rosalega ánægð með þetta þar sem að ég slepp við að vera alltaf að hlaupa til og svo er þetta rosalega flott leikgrind sem litlu frændur mínir áttu.
Daníel er búinn að vera ansi pirraður síðustu daga, búinn að gráta frekar mikið og vera órólegur. Við vorum ekki viss hvort hann væri að taka tennur eða hvort honum væri illt í eyrunum eða hvað, en grunaði helst að það væru tennur því hann nagaði gjörsamlega allt sem hann kom nálægt. Svo í gærmorgun var Karen að skoða góminn á honum og þá sá hún glitta í tennur í neðri gómnum! Ekki bara eina heldur tvær framtennur! Í gærkvöldi gat maður svo greinilega fundið fyrir tönnunum þegar Daníel beit í puttann á manni. Við keyptum deyfigel fyrir góminn svo hann fyndi ekki jafn mikið til en þegar við reyndum að setja það á góminn sleikti Daníel það strax af og kjamsaði á því af bestu lyst, enda er gelið með svakalegu lakkrísbragði. Það er greinilegt að Daníel ætlar að taka forskot á sæluna og borða jólasteikina með okkur!