Íslensku jólasveinarnir eru komnir til Danmörku og Daníel er mjög spenntur fyrir þeim. Það var búið að telja niður dagana fram að 11. þegar Stekkjastaur átti að koma og nú lesum við á hverju kvöldi um þann jólasvein sem á að koma um nóttina í jólasveinabók sem Hrefna amma sendi honum. Við foreldrarnir erum duglegir að minna gaurinn á að jólasveinar vilja að börn séu þæg því annars fái þau kartöflu í skóinn. Daníel er nú ekki búinn að fá neina kartöflu ennþá en fékk gulrót í nótt, sem er svona millistig milli kartöflu og einhvers meira spennandi. Hann er líka búinn að reyna að leika á jólasveininn með því að setja þrjá skó útí glugga og var soldið svekktur að mamma hans skyldi taka tvo af þeim í burtu.
Núna á föstudaginn lenti hann svo í smá slysi í leikskólanum, datt með hausinn á ofn og þurfti að fara á skadestuen og láta sauma tvö spor í hnakkann á sér. Hann stóð sig samt eins og hetja þegar verið var að sauma og saumarnir verða svo teknir út næsta föstudag.
Ellen er svo að verða eins árs eftir 5 daga. Hún er byrjuð að kunna nokkur orð, mamma, baba (pabbi), da (Daníel) og tssss (kisa). Þannig að hún getur spjallað við alla fjölskyldumeðlimi. Hún er líka nýlega byrjuð að sofa einn lúr á daginn í staðinn fyrir tvo. Það hefur gengið svona misvel, stundum hefur hún fengið tvo lúra af því að það hefur ekki verið mögulegt að halda henni vakandi en það er að venjast að hafa þetta bara einn lúr. Við höfum verið að reyna að kenna henni að labba svolítið en hún er bara alls ekkert spennt fyrir því, er bara mjög ánægð með að skríða um allt. Hún er líka farin að taka uppá því að reyna að flýja þegar hún veit að hún er að gera eitthvað sem má ekki. Þegar hún sér að maður er að koma að taka eitthvað af henni þá allt í einu fer hún að hlæja og skríður í burtu eins hratt og hún getur.
Annars er bara allt gott að frétta af okkur, afmæli á næstu dögum og svo höldum við okkar önnur jól hérna í Danmörku.
Við fórum í IKEA í gær og keyptum nýtt rúm handa Daníel. Rúmið er svaka flott, 80×200 á stærð, en það er hægt að stytta það með því að láta báða endana upp (eins og sést á myndinni) og þá er það 80×152. Daníel var rosaspenntur fyrir þessu þegar við vorum að setja það saman og fór svo að klifra uppí það á fullu. Eina áhyggjuefnið er að hann var mjög spenntur fyrir því að standa í því, og láta sig hrynja niður og munaði minnstu að hann dytti beint niður á gólf. Við settum nýja rúmið inn til hans en létum hann samt sofa í gamla í nótt því hann var ekki alveg að vilja leggjast niður í þessu nýja og við vildum líka leyfa honum að venjast því bara í rólegheitum.