Category Archives: Svefn

Skírn og brúðkaup

Það er allt að gerast hjá Daníel þessa dagana. Laugardaginn fyrir viku var hann skírður í Háteigskirkju. Hann stóð sig eins og hetja í skírninni, grét ekkert en varð smá pirraður þegar hann fékk vatnið á hausinn. Síðan var hann líka mjög góður í skírnar/brúðkaupsveislunni og fannst bara voða gaman þegar allir vildu fá að halda á honum. Hann fékk fullt af fallegum gjöfum, t.d. silfurhnífapör, gullkross og fullt fullt af fötum.

Síðan kom það okkur Karen mjög á óvart að við fengum eina brúðkaupsgjöf frá Daníel Mána! Við vissum ekki einu sinni að hann kæmist útí búð sjálfur, hvað þá að hann kynni að skrifa á kort. Hann leynir á sér, litli maðurinn. En reyndar var skriftin á kortinu grunsamlega lík skriftinni hjá Hrefnu ömmu hans þannig að okkur grunar hvað hefur gerst: Hann hefur farið útí búð, keypt gjöfina og svo látið ömmu sína skrifa á kortið fyrir sig.

Síðan varð hann líka 2 mánaða gamall fyrir 2 dögum, er alltaf að stækka og þyngjast og var svo góður núna í nótt að sofa samfleytt í 6 tíma og svo aftur í 2 og hálfan! Mikil ánægja 🙂 .

STÓRFRÉTTIR!

Það tilkynnist hér með að þriðjudaginn 2. ágúst kl.18:03 (semsagt rétt áðan) snéri Daníel sér við af maganum yfir á bakið! Þetta eru stórtíðindi hérna á okkar heimili og mér finnst verst að ég get ekki gefið Daníel einhver verðlaun þannig að hann fékk bara stórt knús frá okkur í staðinn. Það getur vel verið að hann hafi getað gert þetta fyrr ef við hefðum gefið honum tækifæri til þess því við höfum alltaf bara látið hann liggja á grjónapúðanum hingað til þar sem hann er með viðkvæman maga og ælir oft. En héðan í frá verður hann bara látinn liggja á maganum sama hvað ælir og vælir!

Daníel er því miður ekki mjög duglegur að sofa og er miklu meira fyrir “power napping” eins og fólkið í The apprentice. Power napping henntar okkur Einari því miður ekki eins vel og honum Daníel og erum við alltaf að vona að hann gleymi sér og sofi aðeins lengur næst.

Uussssss

uussssss….í kvöld erum við Einar að byrja að venja Daníel á að fara snemma að sofa og sofa alla nóttina. Við lögðum hann klukkan hálf átta og hann er núna búinn að sofa í rúma þrjá tíma. Okkur kvíðir dáldið fyrir nóttinni því við vitum hvað bíður okkar í nótt… og næstu nætur… jafnvel vikur……

Kúkur og piss!

“Mommy, I´ve got a present for you. I´ll give you a hint: it´s in my diaper and it´s not a toaster!”

Kúkableyja í verðlaun fyrir þann sem þekkir kvótið. Er núna búinn að skipta á u.þ.b. 5000 bleyjum þannig að er orðinn nokkuð sleipur í þessu. Allt gengur annars vel, fullt af fólki búið að koma í heimsókn, öllum líst mjög vel á strákinn. A.m.k. 5 manns búnir að segja að hann sé mjög “mannalegur”, hvað sem það nú þýðir. Eru ekki öll börn mannaleg? Ég efast a.m.k. um að fólk sé mikið að líkja þeim við aðrar dýrategundir (“Til hamingju með strákinn, hann er svakalega líkur hesti!”).

En aftur að kúkamálunum. Drengurinn er engan veginn ánægður þegar á að skipta á honum og öskrar úr sér lungun en jafnar sig um leið og hann er kominn í nýja bleyju. Hann er líka búinn að koma sér upp mjög öflugri leið við að pissa. Hún gengur útá að kúka fyrst, svo þegar hann er kominn á skiptiborðið og úr bleyjunni þá lætur hann rigna gulu yfir foreldra sína, skiptiborðið og allt annað í tveggja metra radíus. Sérstaklega er hann góður í að gera þetta rétt eftir að maður snýr sér frá þannig að hann nái sem bestri pissdreifingu áður en maður tekur eftir þessu og getur stokkið á hann með aðra bleyju. En hann er duglegur að drekka, og yfirleitt voða vær þannig að við erum bara mjög ánægð 🙂 .