Category Archives: Svefn

Svefnleysi

Daníel vaknaði á slaginu 5 í morgun og byrjaði að góla. Ég er mjög þreytt. Ég veit ekki alveg hvað ég er að gera, held ég sé í vinnunni…

Komin frá Danmörku

Þá er maður loksins komin heim aftur og mikið svakalega er það gott að geta knúsað Daníel og auðvitað Einar líka aftur. Það er alveg hræðilegt að fara frá í miðjum þroskakipp eins og ég gerði. Daníel er bara allt annar strákur. Hann er orðinn svo svakalega duglegur að labba með fram öllu og alltaf að uppgötva eitthvað nýtt til að leika sér með, okkur til mikillar gleði (einmitt!). Mér finnst eins og ég hafi verið í burtu í heilann mánuð!

Nú er Daníel líka farinn að sofa alla nóttina (7,9,13) en hins vegar farinn að vakna alltaf kl.6 og stendur og gólar. Ég get nú ekki sagt annað en að ég hlakka til að flytja í nýju íbúðina þar sem Daníel verður settur í sérherbergi. Þá kannski fáum við foreldrarnir að sofa aðeins lengur í það minnsta 🙂

Undur og stórmerki!!!

Undur og stórmerki eru að gerast! Daníel er farinn að sofa heilar nætur! Við bíðum með öndina í hálsinum og vonum að þetta sé til frambúðar. Á miðvikudaginn erum við að fara með Daníel til barnaskurðlæknis og láta meta naflaslitið. Vonandi verður hægt að gera eitthvað í því sem fyrst, en hvort sem verður þá verðum við rólegri eftir að hafa talað við sérfræðing. Nýjar myndir frá því í mars eru komnar á myndasíðuna.

Lítið að gerast

Lítið að gerast hjá okkur þessa dagana, Daníel er hjá dagmömmunni og ég er bara að stússast í atvinnuleit og ýmsu öðru sem til fellur. Við fórum í síðasta sundtímann í gær og er Daníel núna formlega útskrifaður sundkappi. Hann er alveg þrusuduglegur að kafa og er alveg óhræddur í vatninu og við erum líka orðin mjög örugg með hann í sundi. Ég mæli tvímælalaust með svona námskeiði en ég er ekki viss um hvort við förum á framhaldsnámskeiðið sem verður í maí. Við verðum bara að vera duglega að fara í sund núna í framhaldinu og ég er að spá í að setja bara fastann tíma í sund t.d. á laugardagsmorgnum (humm… eða í hádeginu). Það væri kannski bara gaman að fá alla krakkana saman (Ísold, Jökul, Jakob og Maríu) og gera þetta að rútínu tvisvar í mánuði eða eitthvað. Spáum í því.
Svo fórum við í gær að kaupa hókus-pókus stól til að hafa hjá ömmu og afa í Háaleitinu. Keyptum þennan fína notaða stól með auka sessu á 3500 kall. Okkur Einari finnst þetta mjög töff stóll og miklu skemmtilegri en þessi TrippTrapp stóll sem við erum með núna. Þetta eru auðvitað stólarnir sem voru aðalmálið þegar við vorum að alast upp, spurning hvor stóllinn fer uppí Háaleitið 🙂 .
Eitt að lokum. Í nótt svaf Daníel nánast heila nótt án þess að vakna frá 9-7!!! Þið sem eruð vön því að fá að sofa alltaf óáreitt gerið ykkur sennilega ekki grein fyrir því hverskonar lúxus þetta er fyrir okkur. Við vöknuðum semsagt öll í rosalega góðu skapi í morgun, útsofin og hress. Vonandi verður þetta svona áfram….en ég ætla ekki að treysta á það 😉 .

Svefntilraunir taka 1

Jæjja ég fékk þá frábæru hugmynd í dag að breyta svefntímanum hans Daníels og reyna að láta hann sofa einn langann lúr á daginn eins og vinur hans Jökull gerir. Þannig að Daníel vaknaði kl.6 (eins og venjulega) og við foreldrarnir reyndum að þrjóskast við (eins og venjulega) að taka hann uppí til okkar strax en gáfumst svo auðvitað upp(eins og venjulega) eftir 10-15 mín. Þannig að minn er síðan hálfvakandi til rúmlega 7 þegar við gefumst endanlega upp á svefninum og förum á fætur. Síðan tökum við Daníel smá kríu um 9 leytið í 15-20 mín, eða öllu heldur Daníel þar sem ég var rétt að sofna þegar hann vaknaði. Svo er hann góður til rúmlega 11 og þá gef ég honum hafragrautinn til öryggis(mjög erfitt að mata þreytt og pirrað barn) og svo þykist ég sjá á honum þreytumerki um hálf 12 þannig að ég gef honum að súpa og svo beint út í vagn. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að nú myndi hann kannski sofa í rúma 2 kannski jafnvel 3 tíma!!! Neibb, ég var rétt búin að borða og búa til barnamat þegar minn vaknar, eftir aðeins klukkutíma svefn, alveg snældvitlaus! Þannig að ég bregð á það ráð að fara með hann út í góða veðrið að labba og sem betur fer datt mér í hug að taka með mér þurrmjólk í pela bara til öryggis. Daníel áfram brjálaður og ég þýt með hann út þannig að ég er ekki einu sinni búin að klæða mig almennilega í úlpuna áður en hurðin skellist á eftir mér. Látunum linnir ekki hjá Daníel sama hvað ég rugga og hugga og gef snuð, ekki fyrr en ég gef honum pelann. Það var eins og barnið hafði aldrei fengið að borða áður og á stuttum tíma runnu 170 ml ljúflega niður í mallann á stráknum. Við skulum ekki gleyma að fyrir tæpum tveim tímum fékk hann risaskammt af hafragraut sem er lengi að meltast og mjög seðjandi + mjólkin frá mér og svo var hann sofandi. Þessi strákur er greinilega sonur pabba síns; botnlaus! Jæja, þá hætti hann að gráta loksins en að fara sofa? Think again! Þannig að ég held áfram að ganga og ganga og ganga af því að veðrið var svona gott og svo loksins um tvö sofnar hann og er búinn að vera sofandi síðan (klukkutími). Ég veit ekki hvort ég ætti að prófa þetta aftur á morgun…. sé hvað hann sefur lengi núna.

Annars er fátt skemmtilegra hjá Daníel núna en að grípa í tásurnar og velta sér heilann hring, auðvitað í tveim lotum. Fengum svo Völu og Jökul í heimsókn í gær. Við mæðurnar lögðum strákana saman á leikteppið eftir að þeir voru vaknaðir og það er stysst frá því að segja að Daníel átti fótum sínum fjör að launa ef hann bara gæti labbað! Jökull var bara í því að toga og pota í Daníel þannig að það var varla óhætt að skilja þá saman eftir meðan að við mæðurnar hömuðumst í jólakortagerð. Ekki bætti úr að Daníel er dáldið viðkvæmur og grátgjarn þannig að um leið og hann fann að það var verið að brjóta eitthvað á sinn hlut þá var skeifan fljót að koma og ég auðvitað þurfti að hlaupa til til að hugga. Jæjja ég ætla að nýta þennan tíma meðan að strákurinn er sofandi og reyna að gera eitthvað hérna heima…. heyrðu, hann er VAKNAÐUR!

Ungbarnasund og vökunætur

Fórum í fyrsta ungbarnasundstímann í gær og það var svaka stuð. Var nú ekki mikið gert annað en að láta börnin venjast vatninu rólega. Ég var nú dáldið fegin að þau voru ekki bara látinn kafa í fyrsta tíma eins og ég hafði ímyndað mér. Mér tókst auðvitað að gera einhver mistök þannig að Daníel fékk vatn í nebbann og var að vonum ekki ánægður með það en það var fljótt að ganga yfir þar sem það var svo margt sem fangaði athygli hans. Vala og Hjalti vinafólk okkar er líka á þessu námskeiði með strákinn sinn Jökul. Við erum búin að ákveða að við verðum alltaf með sitthvorn strákinn í klefanum þannig að einn getur séð um barnið meðan að hinn er í sturtu og svona.
Pabbi minn var ekki paránægður þegar ég sagði honum frá þessu námskeiði þar sem maður lætur börnin í kaf og þau bjarga sér sjálf. Ég hef þetta beint upp eftir honum: “ÆTLIÐ ÞIÐ AÐ DREKKJA BARNINU!!!” Hann er auðvitað af gamla skólanum og þar að auki vatnshræddur. Ég ætla alveg að sleppa því að segja honum frá litla slysinu í gær með eina barnabarnið hans 😉 .

Það er fyndið hvað maður er fljótur að venjast góðum hlutum og tekur þá sem sjálfsagða. Við erum ekkert öðruvísi en aðrir með það, nú er ég að tala um svefninn hans Daníels. Þessi svefn er uppspretta endalausra umræðna hérna. Daníel er búinn að vera súperduglegur að sofa bæði á nóttunni og daginn unanfarið. Þetta hefur gert okkur kleift að fara aðeins seinna að sofa en auðvitað í nótt ákvað Daníel að vakna kl 5 og EKKI FARA AFTUR AÐ SOFA! Og þegar Daníel sefur ekki, þá sofum við ekki. Við verðum bara að vona að þetta hafi verið smá útúrdúr en ég ætla ekki að taka aftur þá áhættu að fara að sofa um miðnætti og bara halda mig við þá reglu að fara að sofa ekki seinna en 11.

Vigtun

Jæjja fórum í vigtun á mánudaginn og Daníel er loksins farinn að þyngjast eitthvað af viti. Hann vó 6.610 kg sem er 250 gr aukning á 2 vikum. Við erum bara stolt af litla kallinum og hann nær núna að halda sér á meðalkúrfunni. Ég lét líka lengdarmæla hann og hann er langur eins og pabbi sinn. Hann var 67 cm og er í næstu kúrfu fyrir ofan meðalkúrfuna 🙂 .

Annars var Einar einum of fljótur á sér með að óska sér góðs nætursvefns. Daníel tók bara allt í einu uppá því að vera brjálaður á nóttunni og nóttin í nótt var sú versta sem við höfum upplifað! Við sváfum ekki meira en hálftíma til þrjú korter í senn. Ég er að spá í því hvort það gæti verið eitthvað að kallinum, hann er reyndar kvefaður en ég er búin að þreifa góminn allan vel og vandlega og ekkert bólar á tönnum.

Svo í morgun mátti ekki leggja hann niður enda var hann dauðþreyttur eftir bröltið í nótt en sefur núna sæll og glaður úti í vagni. Það er bara verst að við foreldrarnir getum ekki leyft okkur þennan lúxus að lúlla svona úti í vagni líka eftir svona nótt 😉 .

Engar meiri næturgjafir

Nú er komið að því! Við erum byrjuð að venja Daníel á að drekka ekki á nóttunni sem þýðir að innan skamms munum við fá að sofa samfleytt alla nóttina í fyrsta sinn í meira en 4 mánuði! Litli kallinn er farinn að borða góðan skammt af graut á hverju kvöldi þannig að hann á alveg að endast nóttina án þess að fá meira. Fyrir þrem nóttum prófuðum við þetta fyrst, þá vaknaði hann þrisvar og þá fékk hann bara vatn í pela og fór aftur að sofa. Í fyrrinótt vaknaði hann tvisvar eða þrisvar og fékk ekki neitt, bara snuð. Og svo núna í nótt vaknaði hann í fyrsta skipti kl. 5, fékk þá smá vatn og fór aftur að sofa. Ég hef það á tilfinningunni að nóttin í nótt verði fyrirheitna nóttin. Þegar ég tala um að sofa alla nóttina þá meina ég að sjálfsögðu bara til kl. 7, en það er feykinóg!

Svo verður Daníel vigtaður á morgun og þá kemur í ljós hvort allur þessi grautur hefur hjálpað honum að þyngjast. Í síðustu vigtun var hann 6,36 kg, ég giska á að núna sé hann orðinn 6,9 kg. Kemur í ljós á morgun. Fyndið hvað tíminn líður hratt og litli strákurinn okkar er farinn að borða mat og hættur að drekka á nóttunni… Átti ekki von á að hann yrði svona stór svona fljótt!

p.s.
Daníel fékk lítið tuskudýr gefið frá langömmu sinni um helgina, litla kind. Hún hefur verið skírð Kindin Einar.

Svefn

Daníel svaf til kl.5 í nótt og fékk þá að súpa og svo svaf hann aftur til hálf 8. Við foreldrarnir erum úthvíld og mjög ánægð. Það er ekki skrítið að Daníel svaf svona vel endar var hann búinn að streitast við að fara að lúlla í allann gærdag en hélt síðan ekki lengur út og sofanaði í pössuninni hjá afa og ömmu. Þegar við Einar komum svo að sækja drenginn þá vorum við mjög hissa að það skyldi enginn koma til dyra þegar við dingluðum. Þannig að við dingluðum aftur og enn kom enginn. Endaði á því að við gengum inn og komum að Agli afa og Hrefnu Ömmu steinsofandi uppí sófa fyrir framan sjónvarpið og Daníel lá steinsofandi í fanginu hjá ömmu sinni. Þetta var svo sætt að við tókum okkur smá stund í að dást aðeins að þeim og tókum meira að segja mynd sem verður kannski birt hérna von bráðar.

Í dag er Daníel síðan búinn að sofa í 1 og hálfan tíma í hádeginu, sem er mjög gott á okkar mælikvarða. Hann er síðan búinn að vera sofandi núna í klukkutíma (jibbí!) og ég lét hann bara sofna sjálfan út frá gólunum í sjálfum sér. Ég verð að viðurkenna að það var mjög erfitt að fara ekki inn til hans en þar sem hann var ekki að væla heldur bara að “góla” þá lét ég það vera og bara mjög fegin. Vonandi heldur þetta svona áfram 😉 .

Einar farinn að vinna

Jæjja þá er Einar farinn að vinna í Libra og við Daníel erum heima á daginn. Ég verð nú að viðurkenna að þetta var dáldið erfitt til að byrja með en það tók bara nokkra daga að venjast þessu og nú er þetta bara allt komið í vana. Daníel er því miður ekki nógu duglegur að sofa á daginn og nú er hann meira að segja farinn að vakna í vagninum á ferð og þá eru ekki mörg úrræði eftir. Ég held þó áfram að reyna að koma honum í rútínu og ég er ekki frá því að þetta sé farið að bera einhvern árangur. Vonandi verður þetta þannig að hann sefur kannski í 1 og hálfan til 2 tíma í senn og þá get ég kannski kíkt pínu í skólabækurnar. Eins og er þá get ég bara lært um helgar og það er dáldið leiðinlegt að vera frá Einari og Daníel akkúrat þegar við getum gert eitthvað skemmtilegt saman.

Við Vala erum að reyna að vera duglegar að hittast og svo er ég búin að prófa að fara á tvo mömmu-morgna í Háteigskirkju og það er fínt en ég er samt yngst í hópnum og þetta eru mikið miðaldra heimavinnandi konur þó að að sjálfsögðu er þetta allur skallinn þarna. Daníel hefur voðalega gaman af því að sjá alla krakkana þarna og lætin og litadýrðin heilla hann alveg rosalega.

Ég fór með Daníel í vigtun og mælingu á heilsugæslustöðina á mánudaginn og þá er hann orðinn 6,1 kg sem þýðir að hann er ekki búinn að þyngjast nema um 100 gr á viku sem er ekki nógu gott. Hjúkrunarfræðingurinn sagði samt að þetta myndi sleppa af því að hann er svona kvefaður en ég á að koma aftur með hann eftir 2 vikur í vigtun.