Category Archives: Svefn

Svefn

Við vöknuðum rúmlega 6 í morgun og föttuðum að Ellen hafði ekkert vakið okkur um nóttina, sem er mjög óvenjulegt. Við heyrðum í bæði Daníel og Ellen í sínu herbergi en þau voru bara róleg. Svo komu þau inn til okkar og Daníel sagði okkur að hann hefði vaknað um nóttina við að Ellen var að gráta og hann hefði tekið hana uppí rúm til sín. “Til að hún mundi ekki trufla ykkur og þið þyrftuð ekki að vakna” eins og hann sagði. Við vorum að sjálfsögðu súperánægð með hann og hrósuðum honum á fullu. Svo sagði hann líka að hann hefði farið framúr, kveikt á hnattljósinu og fundið snuðið hennar Ellenar og svao slökkt á ljósinu aftur. Daníel var mjög glaður með hvað við vorum ánægð og við töluðum heilmikið um þetta.

Ellen og Daníel eru líka alltaf að vera betri og betri vinir. Oft að leika saman, brölta uppí sófa saman, Daníel að halda á Ellen og að knúsa hvort annað. Nú bíðum við bara og sjáum hvort næsta nótt gengur jafnvel.

Desember í Danmörku

Íslensku jólasveinarnir eru komnir til Danmörku og Daníel er mjög spenntur fyrir þeim. Það var búið að telja niður dagana fram að 11. þegar Stekkjastaur átti að koma og nú lesum við á hverju kvöldi um þann jólasvein sem á að koma um nóttina í jólasveinabók sem Hrefna amma sendi honum. Við foreldrarnir erum duglegir að minna gaurinn á að jólasveinar vilja að börn séu þæg því annars fái þau kartöflu í skóinn. Daníel er nú ekki búinn að fá neina kartöflu ennþá en fékk gulrót í nótt, sem er svona millistig milli kartöflu og einhvers meira spennandi. Hann er líka búinn að reyna að leika á jólasveininn með því að setja þrjá skó útí glugga og var soldið svekktur að mamma hans skyldi taka tvo af þeim í burtu.

Núna á föstudaginn lenti hann svo í smá slysi í leikskólanum, datt með hausinn á ofn og þurfti að fara á skadestuen og láta sauma tvö spor í hnakkann á sér. Hann stóð sig samt eins og hetja þegar verið var að sauma og saumarnir verða svo teknir út næsta föstudag.

Ellen er svo að verða eins árs eftir 5 daga. Hún er byrjuð að kunna nokkur orð, mamma, baba (pabbi), da (Daníel) og tssss (kisa).  Þannig að hún getur spjallað við alla fjölskyldumeðlimi. Hún er líka nýlega byrjuð að sofa einn lúr á daginn í staðinn fyrir tvo. Það hefur gengið svona misvel, stundum hefur hún fengið tvo lúra af því að það hefur ekki verið mögulegt að halda henni vakandi en það er að venjast að hafa þetta bara einn lúr. Við höfum verið að reyna að kenna henni að labba svolítið en hún er bara alls ekkert spennt fyrir því, er bara mjög ánægð með að skríða um allt. Hún er líka farin að taka uppá því að reyna að flýja þegar hún veit að hún er að gera eitthvað sem má ekki. Þegar hún sér að maður er að koma að taka eitthvað af henni þá allt í einu fer hún að hlæja og skríður í burtu eins hratt og hún getur.

Annars er bara allt gott að frétta af okkur, afmæli á næstu dögum og svo höldum við okkar önnur jól hérna í Danmörku.

Snoooooze….

Daníel kom uppí rúm til mín í nótt eins og venjulega. Svo vekur útvarpsvekjaraklukkan okkur kl. 06:40 og ég snooza. Svo kveikir hún aftur á sér 10 mínútum seinna og þá teygir Daníel sig í klukkuna og snoozar! Ég var sem betur fer vakandi (annars hefði farið illa) og lít á hann, þá segir minn: Mamma og Daníel lúlla meira 😀 Litli kallinn! Hvað ætli komi næst? Ætli hann verði búinn að hita fyrir mig kaffi þegar ég vakna á morgun?

Leikskóli og svefn

Daníel er alltaf að verða skemmtilegri og skemmtilegri með hverjum deginum. Það er alltaf að bætast við orðaforðann og skilningurinn er orðinn mjög góður. Við fengum tilkynningu fyrir páska um að eftir Daníel biði pláss á leikskóla  og erum við Einar að fara að kíkja á leikskólann á mánudaginn næsta. Mér tókst víst að klúðra aðeins leikskólaumsókn Daníels og sótti ég um Hamraborg í staðinn fyrir Klettaborg. Maður hefði haldið að Hamraborg væri í Hamrahverfi en svo er víst ekki heldur er Hamraborg í Grænuhlíð í Hlíðahverfi (sennilega eitthvað tengt við Hamrahíð?). En allavegana þá er Daníel semsagt kominn með pláss þarna sem er svo sem allt í lagi. Ég nenni varla að vera að standa í því að breyta þessu þar sem þetta er hvort sem er í leiðinni í vinnuna til mín og þar sem Daníel byrjar ekki á leikskólanum fyrr en Einar verður farinn út þá fellur það hvort sem er í minn hlut að sjá um að alla keyrslu til og frá.

Daníel virðist hafa farið mjög mikið fram í svefntækni sinni við að fá að vera í pössun hjá ömmu og afa meðan að við vorum í Amsterdam. Ég hef aldrei vitað til þess að hann hafi sofið eins vel og hann gerir núna. Hann byrjar á því að sofna í sínu herbergi og síðan fljótlega uppúr miðnætti kemur hann yfir til okkar. Hann kemur alltaf mín megin og vekur mig og segir “kúúúúúúúraaa….mamma kúúúúúúraaaaaaa” þá tek ég hann yfirleitt hálfsofandi uppí rúm til mín með einu handtaki. Þegar hann kemur uppí þá virkilega SEFUR hann! Ekki þetta endalausa brölt eins og maður er svo vanur. Þetta er búið að ganga svona alla vikuna og ég ætla varla að trúa þessu. Það er ekki einu sinni hægt að treysta á að hann veki okkur tímanleg lengur og þegar klukkan hringir þá vill minn yfirleitt lúlla lengur!!! Ég get varla beðið eftir laugardagsmorguninum, hver veit nema að við fáum öll að lúlla saman til kl.8???

Meira um nýja rúmið

Jæja, nú er Daníel búinn að sofa í nýja rúminu í nokkrar nætur. Fyrstu næturnar gekk það nokkuð vel, hann fór beint að sofa þegar við lögðum hann, en kom reyndar uppí til okkar svona seinni part nætur. Síðan núna síðustu 3 daga er hann búinn að fatta betur að hann getur farið úr rúminu hvenær sem hann vill. Maður lætur hann inn, síðan næsta klukkutímann er maður að hlaupa á eftir honum þegar hann kemur útúr herberginu og setja hann aftur uppí rúm. Stundum kemur hann reyndar ekki út, stundum lokar hann bara hurðinni og bankar svo á hana þangað til maður kemur og setur hann aftur uppí rúm. En reyndar fór hann núna í kvöld að sofa án nokkurra vandræða þannig að vonandi verður það þannig áfram.

Nýtt rúm!

Nýja rúmiðVið fórum í IKEA í gær og keyptum nýtt rúm handa Daníel. Rúmið er svaka flott, 80×200 á stærð, en það er hægt að stytta það með því að láta báða endana upp (eins og sést á myndinni) og þá er það 80×152. Daníel var rosaspenntur fyrir þessu þegar við vorum að setja það saman og fór svo að klifra uppí það á fullu. Eina áhyggjuefnið er að hann var mjög spenntur fyrir því að standa í því, og láta sig hrynja niður og munaði minnstu að hann dytti beint niður á gólf. Við settum nýja rúmið inn til hans en létum hann samt sofa í gamla í nótt því hann var ekki alveg að vilja leggjast niður í þessu nýja og við vildum líka leyfa honum að venjast því bara í rólegheitum.

Annars er Daníel farinn að vakna soldið á nóttunni aftur núna og fá að koma uppí til okkar restina af nóttinni. Vaknaði t.d. kl. 4 í nótt og neitaði að fara aftur að sofa í sínu rúmi, vildi bara koma yfir í okkar rúm. Verður spennandi að sjá hvað gerist þegar hann kemst sjálfur úr rúminu sínu …

Ný orð síðustu daga: Eyra, stóll, borð, peysa (í gær, fyrsta skipti sem hann segir S almennilega). Svo fyrir nokkrum vikum komu fyrstu orðasamböndin: Dudda datt, og Mamma mín.

Er þetta í alvörunni að virka….?

Við þorum varla að vona en svefnþjálfunin virðist vera farin að virka. Við erum búin að sitja inni hjá Daníel síðustu 4-5 kvöld meðan að hann er að sofna. Ég er alltaf jafn hissa á úthaldinu hjá litla gæjanum en það hefur tekið alveg rúman klukkutíma að sofna. Kannski ekki skrítið því það rosa stuð að hafa pabba eða mömmu sitjandi hjá sér og starandi uppí loftið á hverju einasta kvöldi. Í kvöld lagði ég hann í rúmið og þurfti svo aðeins að skreppa fram en svo þegar ég heyrði ekkert í honum þá ákvað ég að fara ekki aftur inn. Nema hvað að svo sofnar hann bara eftir smá brölt og ekkert mál. Getur verið að svefnþjálfunin sé farin að virka svona fljótt?

Við getum ekkert annað gert en vonað það besta. Næsta mál á dagskrá er að fá Daníel til að lúlla lengur ! á morgnana…… to be continued…

Eyrnabólga var það…

Eftir að Daníel var búinn að vera svona órólegur og með hita annað slagið þá fór ég með hann á læknavaktina á laugardagseftirmiðdaginn. Það kom í ljós að aumingja greyið er með svæsna eyrnabólgu og þá greinilega búinn að vera með hana í einhvern tíma. Annað hvort hefur þetta verið einkennalaus eyrnabólga eins og ég hef heyrt um eða þá að greyið er búin að finna fyrir þessu en kannski með háan sársaukaþröskuld. Bólurnar á tungunni reyndust vera einhver veirusýking sem átti bara að ganga yfir af sjálfu sér og læknirinn hafði engar áhyggjur af því.

Við Einar erum búin að ákveða að byrja aftur með svefnþjálfun. Urðum okkur úti um bókina Draumaland sem er eftir hjúkrunarfræðinginn sem vinnur við svefnráðgjöf á göngudeild barna. Þar má finna mörg góð ráð og stundum finnst okkur eins og höfundurinn sé að segja frá okkar reynsluheimi! Það er aðalega tvennt sem er að valda vandanum en ég nenni ekki að þylja þetta upp hérna. Við erum búin að vera að fylgja ráðunum núna í tvö kvöld. Þetta er svo erfitt, en ég veit að það mun borga sig til lengri tíma litið.

Endalausar framfarir

Daníel er farinn að biðja um áfyllingar á mjólkina sína. Þetta gerist þannig að hann kemur með málið sitt inní eldhús (heldur á því eins og hundur í munninum) stansar hjá ísskápnum og horfir síðan uppá mann og teygir út höndina með glasinu. Ekki vitlaus strákur þetta, enda er það ástæðan fyrir því að það er komin barnalæsing á ísskápinn!!! Hann er svo svakalega snöggur að læra þessa dagana að maður hefur varla undan að finna uppá nýjum hlutum. Hann hermir eftir okkur villt og galið. Hann talar í símann eða fjarstýringar (þekkir ekki muninn enda mjög svipað ) greiðir sjálfum sér með kambinum og hermir eftir einstaka orðum og stundum jafnvel málrómnum þegar maður er að tala við hann.

Reyndar er Daníel búinn að vera eitthvað slappur í dag. Var með hita á miðvikudaginn og svo aftur í nótt og í dag. Hann var svo þreyttur eftir nóttina að við kúrðum uppí rúmi og sváfum til rúmlega 11 sem er algjört met hjá þessum gæja. Til að toppa þetta þá svaf hann í tæpa 2 tíma í eftirmiðdaginn þannig að það er greinilegt að þessi hiti er að þreyta hann ansi mikið. Vonandi hressist hann sem fyrst.

Nýjar myndir komnar inn!

Fjörið heldur áfram

Daníel er búinn að vakna á bilinu 5-6 alla vikuna og þegar hann vaknar er ekki séns að láta hann fara að sofa aftur. Við keyptum bókina Draumalandið, sem er um svefnvandamál barna, en hún hjálpar ekki mikið þar sem hún fjallar langmest um börn sem vilja ekki fara að sofa, eða sem eru alltaf að vakna á nóttunni. Daníel fer alveg að sofa á kvöldin, hann vaknar ekki á nótunni, við viljum bara að hann sofi aðeins LENGUR! Erum búin að prófa að láta hann vaka lengur og erum líka búin að líma fyrir gluggana í svefnherberginu þannig að það er vel dimmt þar inni en það hjálpar ekkert heldur. Lítur út fyrir að við verðum bara að sætta okkur við að vakna kl. 6 í sumar 🙁