Category Archives: Almennt

Einar farinn að vinna

Jæjja þá er Einar farinn að vinna í Libra og við Daníel erum heima á daginn. Ég verð nú að viðurkenna að þetta var dáldið erfitt til að byrja með en það tók bara nokkra daga að venjast þessu og nú er þetta bara allt komið í vana. Daníel er því miður ekki nógu duglegur að sofa á daginn og nú er hann meira að segja farinn að vakna í vagninum á ferð og þá eru ekki mörg úrræði eftir. Ég held þó áfram að reyna að koma honum í rútínu og ég er ekki frá því að þetta sé farið að bera einhvern árangur. Vonandi verður þetta þannig að hann sefur kannski í 1 og hálfan til 2 tíma í senn og þá get ég kannski kíkt pínu í skólabækurnar. Eins og er þá get ég bara lært um helgar og það er dáldið leiðinlegt að vera frá Einari og Daníel akkúrat þegar við getum gert eitthvað skemmtilegt saman.

Við Vala erum að reyna að vera duglegar að hittast og svo er ég búin að prófa að fara á tvo mömmu-morgna í Háteigskirkju og það er fínt en ég er samt yngst í hópnum og þetta eru mikið miðaldra heimavinnandi konur þó að að sjálfsögðu er þetta allur skallinn þarna. Daníel hefur voðalega gaman af því að sjá alla krakkana þarna og lætin og litadýrðin heilla hann alveg rosalega.

Ég fór með Daníel í vigtun og mælingu á heilsugæslustöðina á mánudaginn og þá er hann orðinn 6,1 kg sem þýðir að hann er ekki búinn að þyngjast nema um 100 gr á viku sem er ekki nógu gott. Hjúkrunarfræðingurinn sagði samt að þetta myndi sleppa af því að hann er svona kvefaður en ég á að koma aftur með hann eftir 2 vikur í vigtun.

Ferðasagan

Jæjja þá er maður kominn heim á klakann eftir mjög skemmtilega ferð til Póllands með TM-Software. Þetta verður mjööööög löng færsla þannig að þeir sem nenna ekki að lesa þá var þetta svona: Fórum út, skemmtum okkur vel og komum heim á sunnudagskvöld.

Fyrir þá sem nenna að lesa aðeins þá kemur sagan hérna.

Lögðum af stað að heiman á fimmtudagsmorgunn kl.6 og héldum að við værum svo tímanlega í því en þegar við komum inn í flugstöðvarbygginguna þá mætti okkur lengsta röð sem ég hef séð síðan áður en flugstöðin var stækkuð! En þetta gekk allt tiltölulega hratt og greitt fyrir sig sem betur fer. Það er svo fyndið að þegar maður er með svona lítinn sætann gutta með sér þá verður maður bara “instantly popular”. Það koma bókstaflega allir uppað manni (sérstaklega konurnar) og byrja: jiiiiiiiiiiiii hvað hann er sætur, hvað er hann gamall? Er hann að ferðast í fyrsta sinn? Ohhhhhhh…. svona ungur ferðalangur! He, he litli heimsborgarinn! Og svo vorum við þekkt sennilega af öllum hópnum sem “unga parið með barnið”. En þetta var mjög skemmtilegt (pínu þreytandi) og maður fékk þarna tækifæri til að kynnast fullt af fólki.

Daníel var rosalega góður á leiðinni út og fékk að drekka í flugtakinu og lendingunni. Hann svaf nú eitthvað í fanginu á okkur til skiptis en var líka bara vakandi að hlægja og brosa og gjörsamlega að bræða flugfreyjurnar og hina farþegana í kringum okkur.

Við gistum á Radison SAS hótelinu í Varsjá sem er 5 stjörnu! Þegar við áttum síðan að bóka okkur inn þá vorum við mjög aftarlega í röðinni og aumingja Daníel búinn að vera með sömu bleyjuna hátt í 5 tíma og þar að auki búinn að gera nr.2 uppá bak. Þá kom kona starfsmannastjórans, held ég, og sagði okkur að fara fremst og að allir myndu skilja það og við gerðum það þannig að við komumst fljótt uppá herbergi til að létta á litla stráknum. Ég hef aldrei gist á svona fínu hóteli og þegar við komum uppá herbergi þá sáum við okkur til mikillar undrunar og gleði að þar var barnarúm! Þegar við vorum búin að koma okkur fyrir á hótelinu kom frændi minn að sækja okkur og við fórum í matarboð til móðurfjölskyldu minnar. Þau voru mjög spennt að hitta Daníel og þar fengum við frábæran mat auk seinbúinna brúðkaups- og skírnargjafa.

Þarna úti var 27 stiga hiti þegar við mættum og klukkan hálf 10 um kvöldið þegar við vorum að fara uppá hótel var ennþá um 20 stiga hiti! Ég held að hitinn hafi ekkert farið neitt illa í litla kallinn fyrir utan það að hann var dáldið latur að drekka. En svo þegar ég reyndi að plata hann til að drekka soðið kælt vatn í pela, af því að ég var hrædd um að hann væri ekki að fá nægan vökva, þá var hann fljótur að spýta því út úr sér. Svo fór auðvitað svefnrútínan hjá honum beinustu leið út um gluggann þar sem við vorum allann daginn eitthvað að þvælast og hann þurfti að láta sér duga að lúlla í regnhlífakerrunni á daginn. Við vorum ekki mikið að versla en á föstudeginum fórum í stærstu barnaverslun landsins sem er á 5 hæðum! Það vildi svo skemmtilega til að það var útsala í gangi þarna og við gerðum þvílíkt góð kaup. Við vorum aðalega að versla föt í stærri stærðum og svona ýmislegt sem verður nytsamlegt á næstu mánuðum. Það er ekki fyrr en maður fer út að maður sér hvað barnaföt eru dýr heima á Íslandi.

Á laugardagskvöldið var árshátíðin og þá fórum við með Daníel í pössun til fjöskyldunnar. Árshátíðin var mjög skemmtileg og við lentum á frábæru borði. Við fórum þó snemma heim þar sem maður er ekki alveg rólegur að skilja litla barnið sitt eftir í stórborg þó það sé hjá fjölskyldu. Daníel var mjög góður í pössuninni þó svo að hann hafi bara séð þetta fólk einu sinni áður 🙂 .

Sunnudeginum eyddum við síðan í risastóri verslunarmiðstöð sem er ca. 4 sinnum Smáralind og bara á röltinu í görðum borgarinnar. Á heimleiðinni fengum við síðan að fara fram fyrir alla röðina á tékk-inn-inu af því að Daníel var orðinn eitthvað pirraður. Í fluginu á leiðinni heim fengum við síðan auka laust sæti á milli okkar þannig að við gátum lagt Daníel niður og hann svaf alla leiðina heim í rúma 4 tíma, algjör lúxus!

Þegar við svo lentum á Íslandi þá tók Inga Magga frænka á móti okkur í flugstöðinni og það var ekkert smá næs að sjá kunnuglegt andlit eftir langt ferðalag.

Í heildina þá var þetta mjög skemmtileg ferð þá það hafi auðvitað verið strembið að hafa Daníel með því það þarf auðvitað að taka tillit til hans við hverja einustu ákvörðun en ég er mjög fegin að hafa tekið hann með enda hefði ég aldrei getað farið frá honum í 4 daga! Ég held að Daníel hafi líka bara skemmt sér mjög vel sérstaklega þar sem hann var mikið í kerru sem snéri fram (aldrei þessu vant) og fékk því að fylgjast með öllu mannlífinu. Jæjja, ég held að þetta sé gott í bili og við ætlum að reyna að setja inn einhverjar myndir í kvöld.

Á leið til Póllands

Jæjja þá erum við fjölskyldan að leggja af stað á morgun til Póllands þar sem er 27 stiga hiti “as we speak”. Allt er klárt, Daníel er búinn að fá passann sinn og “flugmiðarnir” eru komnir í hús. Það eina sem er að er það að á passanum hans Daníel stendur Drengur Einarsson en á flugmiðanum stendur Daníel Máni. Það verður auðvitað ekkert mál að útskýra þetta hérna heima en ég er sko búin að undirbúa mig undir vesen þarna úti en við verðum bara að bíða og sjá.

Við erum orðin rosalega spennt en það er búið að fullvissa mig um að það eigi ekkert að vera neitt mála að ferðast með börnin meðan að þau eru svona lítil. Ég er samt alveg að fara yfirum þegar ég er að hugsa um hvað maður þarf að taka með en maður verður að muna að þetta eru bara 4 dagar og þetta reddast allt því það eru eftir allt saman líka til smábörn í póllandi og ef eitthvað gleymist þá er bara hægt að redda því þar 😀 .

Alltaf að stækka

Það er víst kominn tími til og óumflýjanlegt að sætta sig við það að litli strákurinn er ekki eins lítill og hann var fyrst. Það er semsagt komið að því að fara að fara yfir fataskúffuna og tína úr föt sem Daníel er vaxinn upp úr! Þetta er svo skrítið að hugsa til þess hvað hann er búinn að stækka mikið á stuttum tíma. Hann hefur varla farið í sumt nema kannski einu sinni til tvisar og sumt fór hann nú aldrei í þar sem það var of lítið þegar hann fæddist. Annað sem þarf að skipta um eru bleyjurnar þar sem hann er óðum að nálgast 6 kílóin.

Annars er okkur bara farið að hlakka mikið til að fara til Póllands þann 8.sept og ég er rosalega fegin að það var ekki farið fyrr af því að það er alltaf brjálaður hiti þarna á sumrin sem leggst ekki vel í svona litla unga. Hitastigið þar núna er svona í kringum 20 stig sem er bara fínt. Svo erum við að fara að leigja regnhlífakerru hjá BabySam sem verður þægilegt að kippa með sér hvert sem maður fer.

9 vikna skoðun

Fórum með Daníel í 9 vikna skoðun síðasta fimmtudag og hann er orðinn rúm 5,6 kg og tæpir 60 cm. En núna er hann víst að fara að slaka á lengdinni og er að fara að stækka meira á þverveginn eins og aðrir fjölskyldumeðlimir!
Annars erum við búin að sækja um vegabréf fyrir strákinn fyrir ferðina út 8.sept nema hvað að þá kom í ljós að hann heitir ennþá Drengur Einarsson í þjóðskránni. Skýringin á þessu er sú að kirkjan sendir inn gögnin alltaf um mánaðarmót þannig að hann mun heita Drengur allavegana í viku í viðbót. Við spurðum konuna í vegabréfaútgáfunni hvað væri gert í svona málum og hún sagði að þetta væri bara allt í lagi en það fyndna er að passinn gildir í 5 ár! Hún ráðlagði okkur nú að sækja um nýjan passa næst þegar við færum út en ég held ég ætli alveg að sleppa því og sjá hvort og hversu lengi ég kemst upp með það 😀 .

Skírn og brúðkaup

Það er allt að gerast hjá Daníel þessa dagana. Laugardaginn fyrir viku var hann skírður í Háteigskirkju. Hann stóð sig eins og hetja í skírninni, grét ekkert en varð smá pirraður þegar hann fékk vatnið á hausinn. Síðan var hann líka mjög góður í skírnar/brúðkaupsveislunni og fannst bara voða gaman þegar allir vildu fá að halda á honum. Hann fékk fullt af fallegum gjöfum, t.d. silfurhnífapör, gullkross og fullt fullt af fötum.

Síðan kom það okkur Karen mjög á óvart að við fengum eina brúðkaupsgjöf frá Daníel Mána! Við vissum ekki einu sinni að hann kæmist útí búð sjálfur, hvað þá að hann kynni að skrifa á kort. Hann leynir á sér, litli maðurinn. En reyndar var skriftin á kortinu grunsamlega lík skriftinni hjá Hrefnu ömmu hans þannig að okkur grunar hvað hefur gerst: Hann hefur farið útí búð, keypt gjöfina og svo látið ömmu sína skrifa á kortið fyrir sig.

Síðan varð hann líka 2 mánaða gamall fyrir 2 dögum, er alltaf að stækka og þyngjast og var svo góður núna í nótt að sofa samfleytt í 6 tíma og svo aftur í 2 og hálfan! Mikil ánægja 🙂 .

6 vikna skoðun

Fórum með Daníel í 6. vikna skoðunina og er strákurinn orðinn rúm 5 kg og 58 cm. Ekki að furða að hver flíkin á fætur annarri er að verða of lítil og á leiðinni á eftirlaun. Ég held ég verði að fara yfir fatahrúguna í kvöld og taka út það sem er of lítið og fara að taka uppúr kassanum sem ég merkti “eldri” og skellti í geymsluna. Fyndið, ég átti einhvern veginn ekki von á því að hann myndi stækka svona fljótt!

Tómas skírður

Fórum í skírn Tómasar í gær. Daníel stóð sig mjög vel á meðan á skírninni stóð og var ekki með nein læti. Hann hins vegar bætti það upp með því að pissa og gubba á spariföt okkar beggja, Einar slapp 🙂 . Athöfnin var mjög falleg og það var rosalega skemmtilegt þegar bræður hennar Unnar spiluðu saman á gítar og sungu fallega sálma og lög (uppáhaldið mitt var Beautiful boy).

Annars er Daníel að stækka og stækka og sífellt fleiri föt sem þarf að leggja á hilluna og það sem meira er þá er hann kominn uppí næstu bleyjustærð!

Nú er Daníel líka farinn að brosa greinilega þegar maður er að leika við hann og hann er líka mjög duglegur í hálsæfingunum. Hann er líka alltaf að vera sterkari í fótunum og er duglegur að sparka í allt sem kemur nálægt þeim mér til ómældrar ánægju þegar ég er að reyna að gefa honum liggjandi uppí rúmi. Jæjja litli kallinn er vaknaður og er að “biðja” um þjónustu 😀 .

Heimsókn frá Bretlandi

Friðrik, Unnur og Tómas komu í heimsókn á sunnudaginn. Þau búa í Bretlandi og voru að koma heim í sumarfrí þannig að þetta var í fyrsta sinn sem við fengum að sjá Tómas en hann er einmitt 6 vikum eldri en Daníel. Greinilegt að börn stækka alveg fáránlega mikið á 6 vikum þar sem hann var MIKLU stærri en Daníel og virkaði ekki næstum því jafn brothættur, var farinn að halda haus og allt.

Annars fara dagarnir núna í ýmiskonar stúss og útréttingar fyrir brúðkaup og skírn, vorum að smakka kökur í dag, erfitt líf 🙂 . Pössum þó að hafa nógan tíma til að fara reglulega í göngutúra með Daníel og vera úti.

Fyrsta pössunin

Ekki mikið spennó að segja frá þessa dagana nema að Daníel fór í pössun í fyrsta skipti til Hrefnu ömmu og virðist bara hafa líkað það mjög vel. Hrefna amma hefur greinilega haft gaman af því að passa litla ömmustrákinn sinn þar sem stuttu síðar barst okkur tölvupóstur þar sem við vorum hvött til að kíkja meira út og um leið boð um að passa á meðan 😉 .

Annars langar okkur bara að þakka kærlega öllum vinum og kunningjum fyrir hlýjar kveðjur og góðar gjafir. Gaman að vita líka hvað margir fylgjast með honum Daníel hérna í gegnum heimasíðuna 🙂 .