Category Archives: Almennt

Slysagildrur

Eftir því sem Daníel eldist og þroskast þá tekur maður betur eftir þeim hættum sem leynast í kringum hann. Hérna koma nokkur dæmi:

  1. Það má alls ekki líta af honum á skiptiborðinu þó svo að það sé rammgirt þar sem ég hef horft uppá hann núna nýlega vera að snúa sér við á því án mikillar fyrirhafnar.
  2. Um daginn lá Daníel á leikteppinu sínu í góðu stuði og ég fór inní eldhús að búa til graut handa honum. Svo heyri ég eitthvað skrjáf og ímynda mér að hann sé að þjösnast enn eina ferðina á eyranu á aumingja fílnum á teppinu. Svo er mér litið inn til hans og er að fara að biðja hann um að hlífa fílnum… þegar ég sé að hann er búinn að rúlla sér langt frá teppinu og að jólagjafahrúgu sem var á gólfinu og kominn með rauðann PLASTPOKA að leika sér!
  3. Alls ekki vera með nein elhúsáhöld eins og gaffla og hnífa því þetta virðist vera mjög spennandi og strákurinn getur sko teygt sig lengra en maður heldur ef honum finnst það vera þess virði.
  4. Sömuleiðis er ekki heldur er lengur óhætt að hafa nokkurn dúk á borðum og helst bara ekki diskamottur úr taui þar sem það er auðvelt að grípa í þær.

Svo er nú eitthvað fleira sem ég man ekki alveg eftir núna en þetta er bara það sem ég hef rekið mig sjálf á. Er núna búin að lesa alla slysavarnarbæklingana 1-3 þó svo að hann sé bara á fyrsta stigi. Guð, get varla ímyndað mér hvernig hann verður þegar hann verður farinn að skríða og hvað þá labba….

Svo að lokum mental-note: taka þessi helv… batterí úr leikteppinu þar sem Daníel er orðinn rosalega hrifinn af þessum tökkum sem kveikja og slökkva á tónlistinni.

Ammælisbörn

Við Daníel vorum ammælisbörn á þriðjudaginn síðasta og hann var hálfs árs og ég fimmtíu sinnum eldri!!! Takk fyrir allar kveðjurnar bæði hérna og í meili og pósti (Sandra). Fyndið hvað maður er farinn að gera lítið á ammælinu sínu, hélt eiginlega meira uppá það að Daníel var orðinn hálfsárs.

Tennurnar hjá Daníel eru farnar að sjást meira og hann hefur mikla unun af því að naga kæli-leikföngin sín. Við erum eiginlega líka hætt að leyfa honum að naga puttana á okkur og hnúana því …ÁÁÁ… það er orðið vont! Við fórum í hálfsársskoðunina líka á þriðjudaginn þar sem Daníel var vigtaður, skoðaður og fékk að lokum sprautu við heilahimnubólgu. Það vildi svo til að það var ungbarnasérfræðingur á heilsugæslustöðinni sem skoðaði hann og ég spurði hvort það gæti verið eitthvað að Daníel af því að hann vill alls ekki vera í sitjandi stellingu. Hann vill alltaf reisa sig við með því að spyrna og fetta sig og vill bara standa. Hann sagði að hann væri bara með svona svakalegt viðbragð og að þetta myndi eldast af honum og ekki hafa áhyggjuar af þessu. Hann gerði smá athugasemd við naflann á stráknum (sem er svakalega útstæður) og talaði eitthvað um gat sem væri að gróa… kíkja á þetta í fyrsta lagi þegar hann væri orðinn eins árs. Veit ekki meir. Svo var það þyngdin sem er 7,15 kg sem er bara nokkuð gott miðað við þennan strák. Það þýðir að hann hefur þyngst um tæp 200 gr á tæpum 2 vikum. Ég er bara löngu búin að sætta mig við að þetta er bara langur og mjór strákur eins og annar fjölskyldurmeðlimur sem þið kannist kannski við. Núna er ég búin að bæta inn smá kjúlla inná matseðilinn og líkar Daníel þetta bara mjög vel.

Úff, komin löng færsla.

Að lokum ætla ég að koma með topp 5 hluti sem geta verið frekar pirrandi en samt mjög fyndnir eftirá.

  1. Þegar maður er nýbúinn að skipta á og klæða Daníel til að fara út að sofa þegar maður allt í einu…. finnur kúkalykt!
  2. Þegar maður er nýbúinn að setja Daníel út í vagn og er í miðri hárlitun þegar… Daníel fer að gráta og maður þarf að hlaupa út!
  3. Þegar maður er nýbúinn að skipta um á Daníel og hann kúkar þannig að maður þarf að skipta aftur og svo þegar hann er tilbúinn og kominn í allt þá… ælir hann yfir allt!
  4. Þegar Daníel er orðinn þreyttur og pirraður og maður er að drífa sig í að hátta hann og svo þegar hann er kominn í vagninn eða rúmið þá… er hann glaðvakandi og alls ekki á leið að fara að sofa!
  5. Þegar maður er að gefa Daníel graut og hann annaðhvort puðrar eða hnerrar heilli munnfylli yfir mann!!!

Klukk!

Var að sjá að við vorum klukkuð af Friðrk og Unni þannig að hérna koma 5 atriði um Daníel:

  1. Daníel er mjög stundvís strákur. Fæddist daginn sem hann var settur og vaknar alltaf rétt yfir 6 til að fá morgunmjólkina sína.
  2. Hann var og er mjög líkur pabba sínum á fleiri en einn hátt.
  3. Daníel finnst ekkert skemmtilegra þessa dagana en að rúlla sér á teppinu og reyna að skríða.
  4. Daníel er algjört matargat og borðar flest allt sem honum er boðið, líka þótt það sé ekki matur!
  5. Daníel er mikill húmoristi og er ekkert vandlátur á hvað honum finnst fyndið. Hann getur samt verið á stundum algjör drama-drotting líka.

Við klukkum hér með Jökul og Svein Skúla!

Nú gerast hlutirnir hratt!

Daníel sem er búinn að ná núna fullum tökum á rúllutækninni, finnst ekkert skemmtilegra núna en að liggja á maganum. Ef við setum hann á bakið þá er hann búinn að velta sér yfir á augabragði. Þessi skyndilega rúllutækni kom okkur í opna skjöldu og þá sérstaklega Einari. Þannig var að Einar fór inní eldhús að búa til graut handa Daníel sem lá á teppi inná stofugólfi. Það er hægt að sjá beint innan úr eldhúsinu þar sem Daníel liggur alltaf í stofunni en þegar Einar er síðan að koma inní stofu þá er DANÍEL BARA HORFINN! En hann fór nú ekki langt, náði bara að rúlla sér nokkrum sinnum og útaf teppinu og þar með úr augnsýn! Ég held að hann hafi ætlað að kíkja í heimsókn til mín í skólann 🙂 . Ætli það fari ekki að fara bráðum að koma tími á leikgrindina?

Um leið og Daníel varð svona spenntur fyrir því að rúlla sér þá kom annar áhugi samfara því og það er að skríða!!! Hann er nú ekki byrjaður að skríða en hann er byrjaður að reyna að lyfta bossanum og hreyfa lappirnar með, þó með litlum árangri enn sem komið er. Ég veit ekki hvað eg er búin að reyna oft að lyfta upp bossanum á honum og kenna honum svona handa og fótatökin en það hefur alltaf komið fyrir ekkert. Það er greinilegt að börnin láta ekkert ýta á eftir sér í svona efnum heldur fara bara á eigin hraða, í þessu tilfelli ljóshraða 😉 . Ég held ég standist ekki mátið og ætli að fara að kaupa handa honum einhverskonar skriðsokkabuxur sem eru með eitthvað stammt efni á hnjánum.

Ég er að fara í próf í dag (jákvæðir straumar milli kl 14-17 eru vel þegnir) og Einar ætlar að fara í millitíðinni með Daníel í vigtun og svo í ungbarnasundið sem ég því miður missi af í þetta skipti. Ég vona að Daníel hafi þyngst eitthvað af viti núna því að hann borðar eins og hestur! Svo er hann líka búinn að taka sig á í mjólkurdrykkjunni, held að hann hafi bara verið hálflystarlaus útaf kvefinu og hóstanum.

Það er eitt búið að vera að angra mig dáldið og það er hvað það eru margir búinir að koma inná þessa síðu og ég veit ekkert hverjir það eru. Þetta fer að nálgast 3000 hitt og ég veit auðvitað að nánasta fjölskylda og vinir kíkja hingað en hvað með allt hitt? Og enginn skrifar í gestabókina eða kommentar eða neitt. Mig er farið að gruna að fólk útí bæ sem kannski rétt þekkir okkur Einar sé að lesa hérna um heimilislífið hjá okkur og ég veit ekki alveg hvað mér finnst um það. Kannski maður ætti að setja inn password… Einhverjar skoðanir á því?

Gera tvennt í einu

Konur segja oft að karlmenn geti ekki gert fleiri en einn hlut í einu. Þetta er rangt. Tökum Daníel Mána sem dæmi, hann getur gert tvennt í einu, þ.e. borðað og kúkað! Núna þegar hann er að fá graut þá er hann búinn að taka uppá því að kúka í leiðinni. Hann er kannski búinn að fá svona 3-4 skeiðar og þá allt í einu sér maður þvílíkan rembingssvip og lyktin gýs upp! Samt heldur hann áfram að borða eins og ekkert sé. Hann hefur væntanlega hugsað með sér “hmmm, ég er alltaf að borða, og alltaf að kúka. Af hverju ekki að sameina þetta tvennt og spara smá tíma?”. Þetta held ég að sé fín þróun og sýni að Daníel hafi heilmikla hæfileika í verkefnastjórnun!

Próflestur = mikið að heiman

Jæjja þá er prófatíð að ganga í garð. Ég fer sem betur fer ekki nema í 2 próf en það er nú alveg nóg þar sem ég get ekki lært nema í 4 tíma á dag og svo um helgar. Þetta gerir það að verkum að ég sé Daníel voðalega lítið á kvöldin og ennþá minna um helgar og ég sakna hans alveg svaaaaaaaakalega mikið.

Ég held að Daníel sé heldur ekki ánægður með þetta. Hann lýsti skoðunn sinni á þessum lestri best í gær með því að ÆLA YFIR GLÓSURNAR MÍNAR! Vonda mamma! Greinilegt að ég verð að bæta honum þetta upp í næsta mánuði 😉 .

Kúkabomba!!!

Daníel í vaskinumEins og sum ykkar vita þá hefur Daníel verið að spara kúkableyjurnar undanfarið. Það hefur enginn kúkur verið síðustu 9 daga en úr því var heldur betur bætt í kvöld! Við sátum í stofunni og mér fannst ég finna smá lykt, hélt kannski að þetta hefði bara verið smá prump en ákvað samt að fara og tékka á þessu. Þegar við komum á skiptiborðið sá ég að það var brún rönd á samfellunni fyrir ofan bleyjuna. Þegar ég svo tók hann úr bleyjunni þá sá ég MESTA KÚK SEM ÉG HEF SÉÐ Á ÆVINNI!! Hann var gjörsamlega þakinn kúki bæði að framan og aftan, og ekki bara smá klessur heldur ÞYKKT LAG AF KÚK YFIR ÖLLU! Ég panikkaði að sjálfsögðu og kallaði á Karen og í sameiningu þrifum við það mesta af honum og skelltum honum svo oní vask til að ná restinni af. Án gríns þá hefur þetta örugglega verið hátt í hálft kíló af kúk! Litli gaurinn var þrusuánægður með þetta allt saman og við foreldrarnir vorum sömuleiðis mjög ánægð með að kúkaverkfallinu væri lokið.

Haustkvef

Daníel er búinn að næla sér í ærlegt haustkvef þannig að það alveg surgar í hálsinum á greyinu. Hann kann auðvitað ekki að ræskja sig eða losa sig við þetta þannig að hann stendur stundum alveg á öndinni þegar þetta er orðið mikið og hann er að reyna að hósta þessu upp. Það er sérstaklega óþægilegt þegar þetta gerist á nóttunni og við foreldrarnir stökkvum á fætur við köfnunar-hljóðin í litla anganum. Vonandi gengur þetta fljótt yfir.

Við fengum góða gesti í heimsókn í dag þegar Vala, Jökull, Unnur og Tómas kíktu í hádeginu. Við lögðum strákana alla saman á teppi á gólfinu og þeir höfðu bara mjög gaman að því. En þegar Daníel tók eftir því að ég var ekki lengur á staðnum þá fór hann að háskæla og sama hvað Vala reyndi til að hugga hann þá dugði ekkert fyrr en ég kom og tók hann í fangið. Hann er greinilega orðinn dáldill mömmustrákur.

Annars er nýjasta sportið hjá Daníel að grípa í tærnar við hvert tækifæri og reyna að troða snuðinu uppí sig með misjöfnum árangri.

Kommentakerfi

Jæjja, komið nýtt kommentakerfi fyrir ykkur litlu rúsínur sem eruð að fylgjast með okkur. Sá þetta á barnalandi en mér var nú samt búið að detta þetta í hug þó nokkru áður og fékk svo Einar til að redda þessu 🙂 .

Annars er Daníel ekkert að fýla eldamennskuna mína en er alltaf til í Gerber-krukku… snemma beygist krókurinn!

LOKSINS! LOKSINS!

Jæjja þá er síðan loksins komin aftur í gang eftir langt “frí” skulum við kalla það. Nei, það sem gerðist er að tölvan hjá Hrefnu og Agli, þar sem síðan er geymd, hrundi fyrir nokkru og þar sem við erum ekki með borðtölvu sem er sítengd við netið þá var ekkert annað að gera en að hafa bara síðuna í pásu. En svo núna um daginn þá fór Einar (snilldar eiginmaðurinn minn) og færði síðuna eitthvert og nú er allt í gúddí.

En það er fullt búið að gerast á þessum tíma og Daníel er alltaf að stækka. Reyndar er hann ekki alveg að stækka nóg og er aðeins búinn að þyngjast um 460gr á síðustu 6 vikum. Ég fór með hann semsagt í vigtun uppá heilsugæsluna í gær og þá vó hann 6,360 kg sem er nú ekki mikið fyrir 4 mánaða gutta og hann er alveg búinn að taka sveig á vaxtarkúrfunni. Ég er nú reyndar búin að vera að gefa honum pínu ponsu graut í hádeginu og stundum á kvöldin og stundum smá perumauk en nú sagði hjúkkan að hann þyrfti bara að fá meira! Bara gjöra svo vel að gefa barninu að borða og hana nú! Ég þurfti sko ekki að láta segja mér þetta tvisvar og þaut beinustu leið út í búð og keypti nokkrar gerber krukkur og epli, perur og banana. Planið er semsagt að gefa honum ávaxta- eða grænmetismauk í hádeginu og svo hrísmjölsgraut á kvöldin og svo fær hann auðvitað bara mjólkina sína eins og venjulega. Mér finnst þetta svo spennandi að ég verð að hemja mig í gjöfunum. Mér finnst svo spennandi að leyfa honum að smakka mismunandi bragð og þykkleika að ég er alveg að missa mig hérna en það er talað um að prófa alltaf bara eina tegund í einu í nokkra daga. Hann er semsagt búinn að prófa peru- og gulrótarmauk og svo núna í hádeginu kartöflustöppu. Hann var voða hrifinn af perumaukinu (enda dísætt), fannst gulrótarmaukið ekkert rosalega spennó en lét sig hafa það en kartöflumaukið fannst honum sko vont! Ojjjjj! Ég sem hafði svo mikið fyrir þessu að sjóða þetta og stappa og blanda pínu matarolíu út í og svo meira að segja blandaði ég smá brjóstamjólk en af grettunum að dæma á honum Daníel þá fór ekkert milli mála að þetta var vont! Jæjja þannig að kartöflustappan bíður bara betri tíma. Annars skil ég hann ósköp vel, ekki fannst mér þessi kartöflustappa góð og kýs perumaukið framyfir hana anytime. En við verðum bara að sjá hvort að hann þyngist ekki eitthvað af þessu enda hlýtur hann að gera það því hann er eins og botnlaus tunna. Það er bara ég sem er svo mikill hænuhaus að þora ekki að gefa honum meira.

Svo loksins dröttuðumst við foreldrarnir að kaupa almennilegt leikteppi handa stráknum og hann er svooooooo hrifinn af því og unir sér þar sæll og glaður. Það sem er mest spennandi núna er spegill sem er festur í einu horninu og hann Daníel er svo hrifinn af stráknum sem er í speglinum að hann horfir á hann alveg fram eftir öllu og þar til hann sofnar! Svo er þessi spegill svo spennandi að Daníel er meira að segja tilbúinn að læra að snúa sér af bakinu yfir á magann til að komast nær. Þannig að nú er þetta aðalsportið fram og til baka, fram og til baka.

Varðandi myndir þá koma þær vonandi inn fljótlega enda höfum við ekkert hætt að taka þær þó svo að síðan hafi verið niðri. Málið er það að eftir að við fluttum þá höfum við ekki komið ADSL-inu upp. En ég lofa að setja þetta í algjöran forgang hjá mér og þær verða örugglega komnar inn fyrir helgi.